Select Page

OKKAR HEIMUR er fyrir börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda.
Ef það ert þú þá er þessi síða fyrir þig.
Vertu velkomin/nn/ð!

Geðrænn vandi = Veikindi sem hafa áhrif á heilann og snúast um tilfinningar okkar, hvernig við hugsum og hegðum okkur. Það eru til mörg orð yfir slík veikindi og mismunandi hvaða orð fólk velur að nota. Hér á síðunni notum við geðrænn vandi en sumir nota til dæmis:

Geðsjúkdómar, geðraskanir, geðrænar áskoranir, andleg veikindi, geðræn veikindi og fleira.

Þú ert ekki ein/einn!

Það eru fullt af öðrum börnum í heiminum sem eiga foreldra með geðrænan vanda og eru í svipaðri stöðu og þú.

Þetta getur verið erfitt!

Það getur verið erfitt að eiga foreldri með geðrænan vanda og það er eðlilegt að upplifa allskonar tilfinningar vegna þess.

Sumir segja að það sé eins og að vera í tilfinningarússíbana.

Það getur verið erfitt fyrir þig að skilja af hverju foreldri þitt hegðar sér eins og það gerir og kannski veistu ekki hvað þú getur gert til að hjálpa til. Þú gætir fundið fyrir kvíða, skömm eða hræðslu og allskonar öðrum tilfinningum.

Hefur þú kannski heyrt fólk tala um geðrænan vanda, en ert ekki viss um hvað það þýðir?

Ert þú stundum með áhyggjur af foreldri þínu eða skilur ekki hvað er að gerast hjá því?

Það getur verið erfitt að átta sig á geðrænum vanda og stundum getur hann jafnvel verið ógnvekjandi, það hjálpar því oft að fá útskýringar til að skilja vandann betur.
Á þessari vefsíðu getur þú fundið útskýringar á geðrænum vanda sem voru búnar til af fólki sem skilur og hefur upplifað það sama og þú ert að upplifa núna.

Á síðunni eru útskýringar á mismunandi tegundum af geðrænum vanda, á því hvernig þú getur passað upp á líðan þína og hvernig foreldri þínu getur farið að líða betur með tímanum.

Þegar við tölum um foreldri á síðunni getur það líka verið stjúpforeldri, afi, amma eða sá sem hugsar um þig.