Sumarnámskeið fyrir börn sem eiga foreldra eða forsjáraðila sem glíma við geðræn veikindi
Okkar heimur býður upp á einstakt sumarnámskeið fyrir börn á aldrinu 7-12 ára. Áhersla er lögð á að skapa öruggt rými þar sem börn fá tækifæri til að tengjast öðrum börnum í svipaðri stöðu, fræðast um geðheilsu og geðræn veikindi, og efla sjálfsstyrk sinn með skapandi og nærandi leiðum.
Hvað gerum við á námskeiðinu?
Við sameinum leik, sköpun og fræðslu á nærgætinn og uppbyggilegan hátt:
✨ Skapandi verkefni og leikur
🧠 Fræðsla um geðheilsu og tilfinningar
💬 Fræðsla um geðræn veikindi
🧘♀️ Hugleiðsla og núvitund
💪 Sjálfstyrking, samvera og stuðningur í öruggu umhverfi
Námskeiðið er að kostnaðarlausu. Takmarkað pláss er í boði, svo við hvetjum til skráningar sem fyrst!
📆 Tímabil:
Hægt er að velja um tvær vikur:
- 16.–20. júní (verður ekki 17. júní)
- 11.–15. ágúst
Aldurshópar og tímasetningar:
- 7–9 ára: kl. 9–12
- 10–12 ára: kl. 13–16
Staðsetning: Hlaðan í Gufunesi
Sumarnámskeiðið er leitt af teymi fagfólks með fjölbreytta reynslu og sameiginlega ástríðu fyrir velferð og vellíðan barna sem eiga foreldra sem glíma við geðræn veikindi.
Þórunn Edda Sigurjónsdóttir – félagsráðgjafi
Þórunn Edda er menntaður félagsráðgjafi og hefur töluverða reynslu af starfi með börnum og fjölskyldum. Hún hefur starfað hjá Okkar heimi síðan árið 2021, en áður starfaði hún hjá Barnavernd Kópavogs og á geðsviði Landspítala. Í rannsókn sinni til meistaranáms beindi hún sjónum að reynslu íslenskra barna af því að eiga foreldri með geðsjúkdóm og upplifun þeirra af því að sinna umönnunarhlutverkum.
Bergdís Júlía Jóhannsdóttir – leiklistarkennari
Bergdís er leikkona, leikstjóri og kennari með áralanga reynslu af skapandi starfi með börnum. Hún nýtir leiklistina til sjálfstyrkingar og vellíðunar, og hefur kennt börnum og fullorðnum bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig starfað sem sjúkrahússtrúður á Barnaspítalanum og lagt sitt af mörkum í barnamenningu og listum.
Sigríður Gísladóttir – framkvæmdastjóri Okkar heims
Sigríður er stofnandi Okkar heims og hefur sjálf reynslu af því að alast upp hjá foreldri með geðsjúkdóm. Hún hefur haldið ýmis erindi og vakið athygli á stöðu barna sem aðstandenda foreldra sem glíma við geðræn veikindi og komið að fjölmörgum verkefnum tengdum geðheilbrigði, hjá Geðhjálp og Landspítalanum, og situr í stjórn Geðverndarfélags Íslands. Sigríður er einnig jógakennari.
Stefanía Ólafsdóttir – hugleiðslukennari
Stefanía hefur kennt börnum og fullorðnum hugleiðslu og sjálfstyrkingu í yfir áratug. Hún er stofnandi Heillastjörnuvefsins: www.heillastjarna.is, sem býður upp á fjölbreytt efni fyrir börn og ungmenni. Hún rekur einnig hugleiðslumiðstöðvar bæði á Íslandi og í Noregi og vinnur að alþjóðlegum verkefnum með áherslu á innri styrk og nærveru.
Fyrir frekari upplýsingar: namskeid@okkarheimur.is og í s: 556-6900