Select Page

Um okkur

Okkar heimur er verkefni á vegum Geðhjálpar sem var sett á laggirnar vegna skorts á stuðningi og fræðslu fyrir börn foreldra með geðrænan vanda og fjölskyldur þeirra. 

Það er unnið í samstarfi við Our Time, góðgerðarsamtök í Bretlandi sem eru leiðandi í starfi fyrir þennan hóp þar í landi. Rannsóknir hafa sýnt að eitt af hverjum fimm börnum um allan heim eiga foreldri með geðrænan vanda. Ekki eru til nákvæmar tölur um hversu mörg börn búa við slíkar aðstæður hér á landi en miðað við niðurstöður alþjóðlegra rannsókna má gera ráð fyrir að þetta sé stór hópur.

Okkar saga:

Í júní árið 2019 lágu leiðir tveggja kvenna saman sem áttu það sameiginlegt að hafa alist upp hjá foreldri með geðrænan vanda og vildu nýta reynslu sína til að styðja við og fræða börn í sömu stöðu hér á landi. Sigríður Gísladóttir var í stjórn Geðhjálpar og Sigríður Tulinius Torfadóttir starfaði hjá Our Time í Bretlandi. Þær ákváðu að sameina krafta sína og skoða hvort það væri stuðningur í boði fyrir börn foreldra með geðrænan vanda á Íslandi og hvort eitthvað hefði í raun breyst síðan þær voru börn. Fljótlega komust þær að því að lítið hafði breyst og ákváðu þær í krafti reynslu sinnar að gera sitt besta til að berjast fyrir þessum hópi og leggja sitt af mörkum til að aðstoða börn sem búa við slíkar aðstæður í dag.

Geðhjálp og Our Time ákváðu að fara í samstarf og innleiða hugmyndafræði Our Time á Íslandi. Í framhaldi var verkefnið mótað og næstu skref skoðuð. Í september árið 2020 kynntust þær Önnu Margréti Guðjónsdóttur sem þekkir það einnig af eigin raun að alast upp hjá foreldri með geðrænan vanda. Þær þrjár óskuðu eftir fundi með Ásmundi Einari Daðasyni, Félags- og barnamálaráðherra og kynntu verkefnið fyrir honum. Á þeim fundi ræddu þær stöðu þessara barna í dag, hugmyndafræði Our Time og óskuðu eftir fjármagni til að fara af stað með verkefnið. Þökk sé Ásmundi fengu þær fjármagnið og verkefnið hófst í nóvember árið 2020.

Sigríður Gísladóttir tók að sér stöðu verkefnastjóra og hefur síðan þá unnið að innleiðingu hugmyndafræði Our Time ásamt því að byggja upp fræðslusíðu fyrir börn foreldra með geðrænan vanda.

Okkar markmið:

  • Fræða börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda.
  • Styðja við þau með því að búa til umhverfi þar sem þau geta fengið útskýringar á geðrænum vanda, byggt upp seiglu, skemmt sér og spjallað við önnur börn sem búa við svipaðar aðstæður og um leið upplifa að þau séu ekki ein í heiminum.
  • Stuðla að vitundarvakningu.

Okkar innblástur:

  • Við störfum eftir hugmyndafræði Our Time, breskra samtaka sem hafa yfir 20 ára reynslu af því að fræða og styðja börn foreldra með geðrænan vanda.
  • Erlendar rannsóknir sýna að börn sem alast upp með foreldri með geðrænan vanda eru í 70% meiri hættu á að þróa sjálf með sér geðrænan vanda á fullorðinsárum fái þau engan stuðning.

Okkar starf:

  • Vefsíða með fræðsluefni sem börn geta nálgast auðveldlega.
  • Fjölskyldusmiðjur fyrir fjölskyldur þar sem foreldri eða forsjáraðili glímir við geðrænan vanda.
  • Stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi þess að börn foreldra með geðrænan vanda fái viðeigandi stuðning og fræðslu.
  • Samstarf við geðþjónustu Landspítalans sem felst í gerð fræðslubæklinga fyrir þennan hóp.

Teymi Okkar heims

Starfsfólk

Sigríður Gísladóttir

Sigríður Gísladóttir

Verkefnastjóri

sigridur@okkarheimur.is

Sigríður sat í stjórn Geðhjálpar frá árinu 2019 til lok ársins 2020 en þá tók hún við stöðu verkefnastjóra í innleiðingu á stuðningi og fræðslu fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Okkar heimur er verkefni sem hún fór af stað með innan Geðhjálpar og stýrir í dag. Sigríður ólst sjálf upp hjá foreldri með geðrænan vanda og upplifði úrræðaleysið hér á landi og hefur nýtt sína reynslu í mótun verkefnisins. Hún hefur einnig starfað hjá Konukoti, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og situr í stjórn Sátt – samtök um átröskun og tengdar raskanir.

Þórunn Edda Sigurjónsdóttir

Þórunn Edda Sigurjónsdóttir

Félagsráðgjafi

thorunn@okkarheimur.is

Þórunn Edda útskrifaðist frá Háskóla Íslands með BA gráðu í félagsráðgjöf árið 2018 og með MA gráðu til starfsréttinda árið 2020. Í meistaraverkefni sínu rannsakaði hún reynslu og upplifun barna á Íslandi af því að eiga og annast foreldra með alvarlega geðsjúkdóma. Þórunn starfaði sem stuðningsfulltrúi á bráðageðdeild Landspítalans samhliða námi. Frá útskrift hefur hún unnið sem félagsráðgjafi á geðendurhæfingardeild á Kleppi og hjá Barnavernd Kópavogs.

Hrafntinna Sverrisdóttir

Hrafntinna Sverrisdóttir

Listrænn stjórnandi

tinna@okkarheimur.is

Hrafntinna er leikkona og leiklistarkennari. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2012 og hefur síðan þá leikið í Þjóðleikhúsinu, verið meðlimur í Reykjavíkurdætrum og rekið sitt eigið fyrirtæki. Hún hefur mikla reynslu af því að starfa með börnum og hefur bæði sinnt leiklistarkennslu og haldið utan um fjölmörg sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga. Hrafntinna leggur ríka áherslu á að skapa öruggt og nærandi umhverfi í starfi sínu og elskar að skapa, leika, stækka heiminn og hjartað í gegnum listina.

Sjálfboðaliðar:

Daníel Þór Bjarnason

Daníel Þór Bjarnason

Daníel Þór lauk BA (Hons) gráðu í leiklist frá Rose Bruford College í London. Hann hefur víðtæka reynslu af störfum með fólki á öllum aldri, þar á meðal sem ráðgjafi hjá geðþjónustu Landspítalans og hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Daníel hefur brennandi áhuga á öllu sem viðkemur fólki, geðrækt, listum og íþróttum.

Guðrún Fanney Helgadóttir

Guðrún Fanney Helgadóttir

Guðrún Fanney stundar nám við Háskóla Íslands og hyggst útskrifast með BA gráðu í félagsráðgjöf vorið 2022. Hún hefur starfað með einstaklingum á breiðu aldursbili en meðfram námi starfar hún á íbúðakjarna fyrir konur með fjölþættan vanda og þar áður starfaði hún á leikskóla til margra ára.

Ragna Guðfinna Ólafsdóttir

Ragna Guðfinna Ólafsdóttir

Ragna Guðfinna lauk BA gráðu í sálfræði sumarið 2021 og stundar nú nám í fötlunarfræði og opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, meðfram námi starfar Ragna sem teymisstjóri á íbúðakjarna fyrir fatlaða. Frá árinu 2017 hefur hún verið umsjónarmaður í unglingadeild Björgunarsveitar Hafnarfjarðar. Ragna hefur setið í stjórn Hugrúnar geðfræðslufélags í tvö starfsár; sem fræðslustýra félagsins starfsárið 2020-2021 og sem varaformaður og meðstjórnandi árið 2021-2022.

Stýrihópur:

Á bak við Okkar heim er faglegur stýrihópur. Hann aðstoðar við að innleiða hugmyndafræðina og verkefnið hér á landi, fylgist með þróun og áhrifum verkefnisins og skipuleggur sjálfbærni og vöxt þess.

Alda Árnadóttir, f.h. Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Eva Rós Ólafsdóttir, f.h. Bergsins.
Heiða Hraunberg Þorleifsdóttir, f.h. Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Guðlaug María Júlíusdóttir, f.h. Landspítalans

Sérstakar þakkir fá eftirtaldir aðilar sem hjálpuðu til við að láta verkefnið verða að veruleika:

Anna Margrét Guðjónsdóttir
Ásmundur Einar Daðason

Dr. Guðbjörg Ottósdóttir
Guðlaug María Júlíusdóttir
Katrín Jónsdóttir
Oscar Bjarnason
Signý Rós Ólafsdóttir
Sigríður Tulinius Torfadóttir

Sigurþóra Bergsdóttir

Okkar heimur er styrkt af:

Félagsmálaráðuneytið

Oddfellow

Rótarý

Öryrkjabandalag Íslands

Barnavinafélagið Sumargjöf

Evris

Dominos

Lyfja