Select Page

Hvað er vanræksla?

Okkur getur liðið eins og hlutir gangi svo vel hjá öðrum fjölskyldum og að þær séu alltaf glaðar. En það er ekki alltaf þannig í alvörunni. Flestar fjölskyldur ganga í gegnum erfiða tíma.

Stundum hafa foreldrar mjög mikið að gera og hafa ekki mikinn tíma fyrir fjölskylduna. Stundum líður foreldrum illa eða eru veikir og geta þess vegna ekki hugsað um börnin sín eins og venjulega, en hjá flestum fjölskyldum líður þessi tími fljótt hjá. Sum börn geta þó lent í að þessi erfiði tími                                                 verði langur.

Að verða fyrir vanrækslu þýðir að foreldrar eiga erfitt með að gera það sem þarf til að barnið þeirra sé öruggt og því líði sem best.

ÞAÐ ERU TIL FJÓRAR TEGUNDIR AF VANRÆKSLU

Líkamleg vanræksla

Það er þegar foreldrar passa ekki nógu vel upp á að börnin þeirra séu líkamlega hraust og örugg. Það gæti til dæmis verið að foreldrar gleymi oft að versla í matinn og gefa barninu sínu að borða. Annað dæmi væri að foreldrar gleymi því oft að hjálpa barni að bursta tennur eða fara í sturtu. Svo getur það líka verið að þau fari ekki með barnið til tannlæknis þegar það er með tannpínu eða til læknis þegar það er veikt.

Vanræksla á eftirliti

Það er þegar foreldrar fylgjast ekki nægilega vel með börnunum sínum og hvort þau séu örugg. Stundum eru foreldrar mikið í burtu og skilja barnið sitt oft eftir eitt á kvöldin og jafnvel á nóttunni. Sumir foreldrar gætu skilið barnið sitt eftir í pössun hjá einhverjum sem þau þekkja lítið. Ef svona hlutir eru oft að koma fyrir er það vanræksla.

Námsleg vanræksla

Það er þegar foreldrar passa ekki nógu vel upp á námið eða tómstundir hjá börnunum sínum. Sumir foreldrar eiga til dæmis erfitt með að vakna á morgnana til þess að passa upp á barnið mæti á réttum tíma í skólann eða á æfingar. Aðrir hjálpa ekki barninu sínu við heimalestur eða annað heimanám. Það er líka vanræksla þegar foreldrar taka ekki eftir því ef barnið langar að læra á hljóðfæri eða æfa íþróttir og eiga erfitt með að styðja við áhugmál barnsins. 

Tilfinningaleg vanræksla

Það getur verið svolítið erfitt að átta sig á henni, því auðvitað eru allir foreldrar mismunandi og sumir tala mikið og aðrir minna, sumir knúsa mikið og aðrir minna og það er allt í lagi. En til dæmis gæti það verið tilfinningaleg vanræksla ef foreldrar eru mikið að hunsa barnið sitt, tala mjög lítið við það eða sýna því nánast enga hlýju eða væntumþykju. Það gæti líka verið að foreldrar bregðist ekki við þegar barninu þeirra líður illa og huggar það. Það getur verið tilfinningaleg vanræksla þegar börnum er ekki hrósað eða þegar þau fá ekki jákvæða athygli frá foreldrum sínum og upplifa að það sé gert lítið úr þeim. Sum börn sem alast upp við tilfinningalega vanrækslu eru ekki viss um hvort foreldrar þeirra elski sig, en önnur vita að þau eru elskuð.

ÁHRIF VANRÆKSLU

Börnum getur farið að líða illa, orðið leið, reið, hrædd eða kvíðin þegar foreldrar þeirra ná ekki að sjá um þau. Stundum halda börn að vanrækslan sé þeim að kenna, en það er aldrei börnum að kenna hvernig fullorðið fólk hagar sér. Börn sem eru vanrækt geta haft litla trú á eigin getu og liðið eins og þau skipti ekki máli. Sum börn forðast að vera heima hjá sér og vilja frekar vera heima hjá vinum eða öðrum. Á meðan önnur börn taka á sig meiri ábyrgð heima heldur en venjulegt er. Það er gott fyrir börn að læra að vera sjálfstæð og að hjálpa til heima hjá sér. En það ætti ekki að vera á ábyrgð barna að sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig á heimilinu og allir séu öruggir, það er á ábyrgð fullorðna fólksins.

AÐ FÁ HJÁLP

Ef þér finnst eins og foreldrið þitt eigi erfitt með að sjá um þig þá er gott að tala við einhvern fullorðinn um það. Stundum getur maður talað við starfsmann í skólanum sem maður treystir, einhvern í fjölskyldunni, þjálfara eða foreldri vinar.

Það er gott að ræða um þessa hluti við einhvern fullorðin, því börn ættu ekki að þurfa að lifa ein með erfið leyndarmál. Oft vantar foreldrum hjálp til að geta séð betur um börnin sín. Auðvitað væri best fyrir foreldra að biðja sjálfir um aðstoð en stundum þurfa börnin að hjálpa, með því að segja frá.

Vanræksla ætti aldrei að vera leyndarmál!