Select Page

Tölum um ofbeldi

Stundum heyrum við af fjölskyldum þar sem allir eru glaðir og allir eru alltaf vinir. Þannig er það samt yfirleitt ekki. Í flestum fjölskyldum fer fólk stundum í fýlu, það rífst og verður jafnvel reitt. Það er alveg eðlilegt því það getur verið svolítið flókið að vera fjölskylda.
En svo er til heimilisofbeldi sem er allt annað en rifrildi. Það eru til margar gerðir af heimilisofbeldi. Til dæmis er andlegt ofbeldi þegar einhver notar ljót orð og hótanir þannig að hin á heimilinu verða hrædd og þeim líður illa. Svo er líka til líkamlegt ofbeldi sem er það þegar einhver meiðir annan með því að slá, kýla, sparka í eða jafnvel henda hlutum í aðra. Fólk gerir stundum svoleiðis til að stjórna öðrum. Það er líka ofbeldi að þurfa að horfa eða hlusta á þegar einhver sem manni þykir vænt um er beittur ofbeldi.

Heimilisofbeldi á sér stað í allskonar fjölskyldum, stórum og litlum, hjá ríkum og fátækum og sama hvaðan fólk kemur, hvernig það lítur út eða hvernig það býr. Oft eru það karlar sem beita konur og börn ofbeldi en það er samt ekkert endilega þannig. Konur beita líka stundum ofbeldi og jafnvel krakkar líka.

Það getur verið erfitt að trúa því að að einhver vilji meiða eða hræða þau sem hann elskar og það er ruglingslegt þegar þeir sem eru venjulega góðir eru líka stundum vondir.

Börn sem búa við ofbeldi finna oft fyrir hræðslu, reiði og einmanaleika. Þau geta fengið magapínu eða höfuðverk. Stundum sofa þau illa og fá martraðir og oft hafa þau áhyggjur af hinum í fjölskyldunni og finnst svo vont að geta ekki hjálpað.

Ofbeldið skaðar alla í fjölskyldunni og er ekki gott fyrir neinn. Ekki einu sinni fyrir þann sem beitir því. Ofbeldið versnar oft með tímanum og það hverfur yfirleitt ekki án hjálpar frá öðru fólki. Þess vegna má ofbeldi ekki vera einkamál fjölskyldunnar og það er alltaf best að segja frá.

Stundum halda börn að ofbeldið heima hjá þeim sé þeim að kenna á einhvern hátt. Það er ekki rétt. Fullorðna fólkið ber ábyrgð á hegðun sinni og líka á því að börnunum líði vel. Ofbeldið er aldrei neinum öðrum að kenna en þeim sem beitir því og sá sem beitir ofbeldi þarf hjálp til að hætta því.

Ef þú eða einhver sem þú þekkir verða fyrir ofbeldi eða eru hrædd heima hjá sér er best að tala um það við einhvern fullorðinn sem þú treystir vel. Það væri auðvitað best ef fullorðna fólkið sæi bara þegar krökkum líður illa en þannig er það því miður ekki alltaf. Þess vegna þurfa krakkar stundum að segja frá. Þú getur til dæmis talað við einhvern í skólanum. Eða við ættingja, nágranna eða einhvern foreldra vina þinna. Og ef þér finnst að það sé ekki hlustað á þig þá verður þú bara að tala við einhvern annan, þó að það sé pirrandi stundum að vera alltaf að segja sama hlutinn. Haltu bara áfram að segja frá þangað til einhver hlustar á þig. Mundu að ofbeldið má ekki vera leyndarmál og að það er fullt af fólki sem vill hjálpa ef það bara veit hvað er að gerast. Heimilsofbeldi er eitt af því sem fullorðnir bera ábyrgð á og eiga að stoppa en stundum verða krakkar að hjálpa til með því að segja frá.

Heimilisofbeldi má aldrei vera leyndarmál.