Select Page
Fíllinn í herberginu

Hér má sjá stuttmynd sem fjallar um fjölskyldu þar sem foreldri glímir við geðsjúkdóm. Hún minnir okkur á hversu mikilvægt það er að tala saman um veikindin. Geðræn veikindi hjá foreldri hafa oftar en ekki áhrif á alla í fjölskyldunni og það er eðlilegt að upplifa margar ólíkar tilfinningar í þessum aðstæðum. Með því að ræða saman um geðsjúkdóma lærum við að skilja betur eigin tilfinningar og upplifum minni hræðslu og skömm.

Fíllinn í herberginu

Gabríela
Pabbi minn er með geðsjúkdóm.

Það er svipað og að hafa… stóran fíl í herberginu sem enginn talar um.

Til að byrja með – vissi ég varla hvað væri í gangi.

Svo fór margt einkennilegt að gerast – hvað eftir annað.

Einn morguninn vaknaði ég eldsnemma af því að ég heyrði í pabba fyrir utan.

Hann stóð úti á götu og fíllinn við hliðina á honum.

Mamma virtist ekki ánægð með þetta…
Ekki heldur nágrannarnir.

Það truflaði hann samt ekki neitt.

Daginn eftir minntist mamma ekki á þetta.
Ég hugsaði… kannski er allt orðið eðlilegt aftur.

En þegar ég ætlaði að kveðja pabba tók hann varla eftir mér.

Ég sagði engum í skólanum frá því sem hafði gerst.
Ég vildi að hann hyrfi.

En það gerðist ekki.
Eftir þetta vissi maður aldrei hvað myndi gerast.

Hann hélt vöku fyrir pabba á nóttunni.

En stundum leyfði hann honum ekki að fara á fætur.

Stundum varð hann spenntur og með læti að ástæðulausu.

Stundum lét hann okkur í friði.
En við vissum aldrei hvenær hann kæmi aftur.

Fólk sá hann ekki alltaf en þegar það sá hann
var eins og það sæi ekkert annað.

Afgreiðslumaður:
Hnetur?

Gabríela:
Stundum spurðu vinir mínir hvernig pabbi hefði það.
Þá sagði ég að hann hefði það fínt svo að við gætum talað um eitthvað annað.
Ég vildi láta sem ekkert væri að.

En því minna sem við minntumst á hann
þeim mun stærri varð hann
og það var eins og við gætum ekki losnað við hann.

Mömmu fannst þetta greinilega erfitt.
Þetta gat ekki gengið svona.

Hún talaði við pabba og hringdi nokkur símtöl.
Ég varð að vita hvað væri í gangi.

Við settumst við eldhúsborðið og spjölluðum saman.

Hún sagðist hafa pantað tíma fyrir pabba.
Þau ætluðu að tala við lækna sem vissu meira um þetta.
Ég mátti fara með þeim – ef ég vildi.

Hún sagði að líklega myndi sjúkdómurinn ekki hverfa alveg en að fjölskyldan þyrfti að læra að lifa með honum, til að geta haldið áfram.
Mamma sagði að þetta væri alls ekki mér að kenna
og að pabbi elskaði mig enn þá.

Við mamma vorum bara tvær saman um tíma
af því að pabbi var á spítalanum.

Hann kom heim eftir nokkrar vikur og allt varð miklu betra en það var.

Nú tölum við saman um sjúkdóminn sem pabbi er með.
Ég hef meira að segja sagt bestu vinkonu minni frá þessu.
Þá hef ég einhverja að tala við ef ég verð áhyggjufull.

Geðsjúkdómur pabba birtist öðru hvoru, en nú erum við betri í að þekkja einkennin strax – og kunnum að bregðast við sem fjölskylda.

Það eru til margar tegundir af geðrænum vanda, hér fyrir neðan er hægt að lesa um nokkrar þeirra: