Select Page

Hvað er geðrænn vandi?

Hafrún
Hæ! Ég heiti Hafrún.
Ágúst
Og ég heiti Ágúst. Í þessu myndbandi ætlum við að fjalla um það hvernig það er að eiga foreldri með geðrænan vanda.

Hafrún
Eitt af hverjum fimm börnum í heiminum eiga mömmu eða pabba með geðrænan vanda.
Það er því mjög líklegt að þú býrð við þær aðstæður, eða þekkir einhvern sem gerir það.

Ágúst
Fólk með geðrænan vanda á það til að upplifa sterkar tilfinningar eins og sorg, áhyggjur eða finnur fyrir hugsunum sem truflar það í daglegu lífi. Það fer kannski að haga sér öðruvísi, gera skrýtna hluti eða vill ekki hitta fólk.

Hafrún
Ef þú átt foreldri sem er með geðrænan vanda hefur þú kannski tekið eftir því að foreldri þitt hafi breyst eða að það segir hluti sem gerir þig ringlaðan og veldur þér áhyggjum. Þú ert þá örugglega að pæla í því hvað sé í gangi.

Ágúst 
Þá er mikilvægt að muna að það er ekki að gera þetta viljandi. Geðrænn vandi hefur nefnilega áhrif á heilann í fólki og breytir því hvernig það hugsar, líður og hegðar sér.

Hafrún
Það er ekki vitað af hverju fólk fær geðrænan vanda þó það hafi mikið verið rannsakað.

Hafrún
Alveg eins og líkaminn veikist þá getur heilinn líka veikst. En það þýðir ekki að maður geti fengið geðrænan vanda eins og maður fær kvef. Nákvæmlega hvers vegna heilinn veikist er enn dálítið sem fólk er að reyna að komast að.

Ágúst
Sumir halda að geðrænn vandi stafi af blöndu þriggja mismunandi hluta:
Í fyrsta lagi: Efnum í heilanum sem fara smá úr jafnvægi.

Hafrún
Í öðru lagi: Löngum tímabilum með miklum tilfinningum eins og áhyggjum og stressi sem aukast og aukast og verða loks of stórar til að fólk geti stjórnað þeim.

Ágúst
Í þriðja lagi: Hlutir sem við stjórnum ekki geta valdið miklum áhyggjum, eins og til dæmis að missa vinnuna, að það sé of mikið að gera eða að einhver í fjölskyldunni eða vinur deyr.

Ágúst
Hjá sumum verður einn hlutur alvarlegri en hinir, eða þeir blandast saman og þá fer þeim að líða illa.

Hafrún
Það sem þarf að muna er að það eru ekki allir eins. Fólk getur haft áhyggjur og fundið fyrir sterkum tilfinningum, en það þýðir ekki endilega að það sé geðrænn vandi.

Hafrún  
Sumir halda líka að fólk fái geðrænan vanda af því að það verður fyrir áfalli.

Ágúst  
Áfall er þegar eitthvað kemur allt í einu fyrir sem er erfitt að ráða við, eins og að það kvikni í húsinu þínu, gæludýrið þitt eða einhver í fjölskyldunni deyr eða að foreldrar þínir skilja.

Hafrún 
Það getur líka verið slys eða ofbeldi sem gerist allt í einu eða hægt og rólega á löngum tíma.

Ágúst
Fyrir suma getur áfall haft svo ótrúlega mikil áhrif á geðheilsu fólks að það losnar aldrei við það úr höfðinu. Það er meira að segja til geðrænn vandi sem er tengdur við áföll og heitir áfallastreituröskun eða PTSD.

Hafrún 
Svo er annað, það að eiga foreldri með geðrænan vanda þýðir ekki að þú munir fá hann líka.

Ágúst
Þú tekur kannski eftir því að þú ert með tilfinningar eða hugsanir sem erfitt er að skilja og höndla. Þetta eru eðlilegar tilfinningar, og þær eru hluti af þér.

Hafrún 
Allir hafa tilfinningar. En manneskja með geðrænan vanda er líkleg til að finna fyrir miklum og ýktum tilfinningum eins og sorg eða kvíða og þær geta varað mánuðum, jafnvel árum saman fyrir suma.

Ágúst  
Ef að foreldri þitt er með geðrænan vanda hefur þú kannski einhvern tímann haldið að það sé þér að kenna, eða að þú sért ekki að hjálpa eða að gera hann verri.

Hafrún
Það er ekki rétt. Það er aldrei þér að kenna að foreldri þitt sé með geðrænan vanda.  

Ágúst
Reyndu að finna einhvern sem þú getur talað við um áhyggjurnar þínar. Það gæti verið einhver fullorðinn sem þú treystir eins foreldri vina þinna, amma eða afi, frændi eða frænka, þjálfari eða kennari.

Hafrún
Þú getur líka alltaf hringt í Hjálparsíma Rauða krossins, sautján sautján. Þau eru með gott og klárt fólk sem þú getur talað við.

Ágúst
Fólk með geðrænan vanda getur ákveðið að gera hluti sem hjálpa því að líða betur.

Hafrún
Það sem skiptir mestu máli er að þú hugsir vel um sjálfan(n) þig.

Það eru til margar tegundir af geðrænum vanda, hér fyrir neðan er hægt að lesa um nokkrar þeirra:

Hvað eru geðhvörf?

Fólk með geðhvörf upplifir miklar sveiflur í líðan. Það er ýmist mjög orkulaust, niðurdregið og líður illa (geðlægð) eða orkumikið, ofurspennt og á erfitt með að vera rólegt (geðhæð). Fólk með geðhvörf getur átt erfitt með að stjórna því hvenær skapið breytist, hversu ákaft og æst það verður eða hversu oft breytingarnar verða. Þessar skapsveiflur geta varað í margar vikur eða mánuði – og hjá sumum í mörg ár.

Hvernig hagar fólk sér sem er með geðhvörf?
Ef foreldri þitt er með geðhvörf þá er líklegt að þú upplifir tímabil þar sem það er ruglingslegt eða skrítið og það er eðlilegt ef þér finnst þessi tímabil erfið. Það er mjög misjafnt hvernig fólk með geðhvörf hegðar sér, það fer til dæmis eftir því hvort það er í geðhæð eða geðlægð.

Í geðhæð verður fólk óvenju orkumikið og æst. Sumir finna fyrir ofsafenginni gleði á meðan aðrir finna fyrir meiri pirringi. Þegar fólki líður svona er eins og það sé með endalausa orku. Algengt er að sofa lítið og vinna dag og nótt að einhverju verkefni án þess að finna fyrir þreytu eða orkuleysi. Í geðhæð fær fólk oft margar skrítnar hugmyndir og hugsanir í einu sem gerir það að verkum að það talar oft hratt og mikið, á það til segja alls konar furðulega hluti og hagar sér á einkennilegan hátt. Stundum flæða svo margar hugsanir inn í hugann í einu að fólk veður úr einu í annað og á erfitt með að byrja á einhverju eða ljúka við það sem það byrjaði á. Stundum gerir það líka mjög skrítna hluti sem þér gæti þótt vandræðalegir og skammast þín fyrir. Til dæmis halda sumir að þeir geti gert hluti sem þeir hafa aldrei gert áður. Sumir fara líka að hegða sér áhættusamlega eins og til dæmis að keyra of hratt eða kaupa hluti sem þeir þurfa ekki eða eiga jafnvel ekki peninga fyrir.

Í geðlægð getur fólk orðið mjög leitt og niðurdregið í einhvern tíma. Margir finna fyrir áhugaleysi og hætta að njóta þess að gera hluti sem því finnst vanalega skemmtilegir. Algengt er að fólk verði orkulaust og þreytt, eigi erfitt með að fara fram úr rúminu og sofi jafnvel allan daginn. Sumir upplifa svo mikla vanlíðan að þeir fá ljótar hugsanir og jafnvel löngun til að meiða sig.

Getur verið að ég sé með geðhvörf?
Við upplifum öll skapsveiflur. Stundum líður okkur vel og stundum líður okkur illa og allt þar á milli. Það að vera glöð/glaður, spennt/ur, leið/ur, pirruð/pirraður og reið/ur er hluti af tilfinningum sem er eðlilegt að upplifa og gerir okkur að manneskjum. Stundum erum við leið af engri sérstakri ástæðu og stundum verðum við leið ef við fáum slæmar fréttir. En munurinn er sá að tilfinningar okkar eru ekki eins ákafar eða ýktar eins og hjá einstaklingi með geðhvörf.

Get ég fengið geðhvörf?
Geðhvörf eru ekki veikindi sem hægt er að smitast af, þótt þú eigir mömmu eða pabba með geðhvörf þýðir það ekki að þú fáir þau líka.

Er hægt að lækna geðhvörf?
Fólk með geðhvörf hegðar sér ekki svona viljandi og því miður er þetta ekki eitthvað sem hægt er að hrista af sér. Góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að fá aðstoð. Fólk með geðrænan vanda getur verið á batavegi, liðið betur og notið þess að lifa lífinu með fjölskyldu og vinum. Til þess að líða betur getur verið nauðsynlegt fyrir manneskju með geðhvörf að tala við lækni eða sálfræðing og fá aðstoð með lyfjum.

Hvað get ég gert?
Ef foreldri þitt er með geðhvörf er mikilvægt að þú vitir að það er ekki þér að kenna að það sé veikt. Það er heldur ekki þitt hlutverk að sjá til þess að því líði betur. Það getur verið ruglingslegt, vandræðalegt og jafnvel svolítið ógnvekjandi og erfitt að eiga foreldri með geðhvörf. Þér líður kannski stundum eins og þú sért í rússíbana og vitir ekki hvað gerist næst.

Það er mjög mikilvægt að þú hugsir vel um þig og gerir hluti sem þér finnst skemmtilegir. Ef þú hefur áhyggjur er gott að tala við einhvern. Það getur verið fjölskylduvinur, þjálfarinn þinn, starfsfólk í skólanum eða einhver fullorðinn sem þú treystir.

 

Hvað er geðrof?

Geðrof er veikindi sem vara yfirleitt ekki í langan tíma. Geðrof er ekki röskun heldur ástand í heila þar sem tengslin við raunveruleikann rofna. Manneskja í geðrofi á því erfitt með að greina á milli ímyndunar og raunveruleikans. Þegar fólk fer í geðrof upplifir það bæði ofskynjanir og ranghugmyndir og stundum hugsanatruflanir eða truflun í hegðun.

Alls konar ástæður geta verið fyrir því að fólk fer í geðrof. Geðrof getur komið fram í hinum ýmsu geðröskunum en þegar fólk fer oftar en einu sinni í geðrof getur verið að það sé með sjúkdóm sem kallast geðklofi. Dæmi eru um að fólk geti líka farið í geðrof án þess að vera með geðröskun. Sumir upplifa til dæmis geðrof eftir að hafa orðið fyrir miklu áfalli en áfall er þegar fólk upplifir eitthvað slæmt sem hefur mikil áhrif á það hvernig því líður. Dæmi um það er að lenda í slysi eða lífshættu, missa einhvern nákominn eða verða fyrir ofbeldi eða einelti.

Ofskynjanir
Þær geta komið frá öllum skynfærum okkar (sjón, heyrn, lykt, bragð og snertiskyn). Þessar skynjanir eru stundum ánægjulegar en geta líka verið óþægilegar eða jafnvel hræðilegar fyrir þann sem upplifir þær. Algengast er að vera með svokallaðar heyrnarofskynjanir, til dæmis að heyra rödd eða raddir án þess að neinn tali í raun og veru. Raddirnar geta ýmist verið að tala um manneskjuna eða við manneskjuna. Misjafnt er hvort fólk upplifir raddirnar sem jákvæðar eða neikvæðar. Hjá sumum eru raddirnar að segja fallega hluti og jafnvel fyndna en hjá öðrum, ljóta, leiðinlega og stundum niðrandi hluti. Aðrir heyra ekki endilega hvað röddin/raddirnar segja heldur bara hvísl eða muldur.

Ranghugmyndir
Það eru hugmyndir sem fólk trúir en eru ekki sannar eða raunverulegar og aðrir í kringum það trúa ekki á þær. Ranghugmyndir geta verið margs konar. Fólk með ranghugmyndir gæti til dæmis haldið að eitthvað sé að gerast sem er ekki raunverulegt eins og að einhver sé að fylgjast með því öllum stundum, elta það eða reyna að meiða það. Það gæti líka haldið að það sé einhver annar en það er, eins og mikilvægur eða heimsfrægur einstaklingur. Sumir fá jafnvel hugmyndir um að þeir séu eins konar Guðir sem búa yfir ofurkröftum eða yfirnáttúrulegum hæfileikum. Aðrar algengar ranghugmyndir er að halda að fólk í sjónvarpinu sé að tala beint við sig eða að allir geti lesið hugsanir þeirra.

Hugsanatruflun
Fólk í geðrofi getur átt erfitt með að hafa stjórn á skipulagi hugsana og hversu margar hugsanir flæða inn í hugann. Þetta veldur því að það lendir í erfiðleikum með að tjá sig og segir jafnvel hluti sem eru óskiljanlegir. Það getur farið að tala of hratt eða hægt og verið lengi að svara spurningum. Stundum þegar mikið af hugmyndum og hugsunum flæða inn í hugann á sama tíma getur fólk farið að tala samhengislaust.

Trufluð hegðun
Það er algengt að fólk í geðrofi fari að hegða sér einkennilega vegna ofskynjana og ranghugmynda sem það er að upplifa. Það getur lýst sér þannig að það verður órólegt og segir og gerir óviðeigandi hluti. Sumir geta upplifað það sem kallast stjarfi en það er þegar manneskja heldur sömu líkamsstellingu í langan tíma, eins og hún sé í myndastyttuleik.

Get ég líka farið í geðrof?
Það er mikilvægt fyrir þig að muna að þótt þú eigir foreldri sem upplifir geðrof eða er með geðklofa þá þýðir það ekki að þú munir veikjast líka. Það getur verið að þú sért hrædd/ur um það vegna þess að þú talir til dæmis oft við sjálfa/n þig í huganum eða dreymir dagdrauma. En það er mjög eðlilegt. Það að dreyma dagdrauma eða eiga samtöl í huganum er hluti af heilastarfsemi okkar – það getur verið aðferð til að skilja ákveðna hluti. Munurinn er sá að þegar þig dreymir dagdrauma eða þú átt samtöl við sjálfa/n þig þá veistu að það er ekki raunverulegt. Þú veist einnig að annað fólk getur hvorki séð hugsanir þínar né heyrt í þeim. Þær eru einungis í huga þínum og hugsunum.

Er hægt að lækna geðrof?
Fólk með geðrænan vanda getur verið á batavegi og liðið betur og notið þess að lifa lífinu með fjölskyldu og vinum. Til þess að líða betur getur verið nauðsynlegt fyrir manneskjuna að tala við lækni eða sálfræðing og fá aðstoð með lyfjum.

Hvað get ég gert?
Ef þú átt foreldri eða býrð með einhverjum sem fer í geðrof eða er með geðklofa er mikilvægt að þú vitir að það er ekki þér að kenna að það sé veikt. Það er heldur ekki þitt hlutverk að sjá til þess að því líði betur. Það getur verið mjög erfitt fyrir þig að sjá foreldri þitt veikt og það er eðlilegt að finna fyrir allskonar tilfinningum í kringum það, eins og hræðslu, reiði og skömm.  

Það er mjög mikilvægt að þú hugsir vel um þig og gerir hluti sem þér finnst skemmtilegir. Ef þú hefur áhyggjur er gott að tala við einhvern. Það getur verið fjölskylduvinur, þjálfarinn þinn, starfsfólk í skólanum eða einhver fullorðinn sem þú treystir.

Hvað er persónuleikaröskun?

Það eru til margar tegundir af persónuleikaröskunum, þær hafa allar áhrif á hvernig fólk hugsar, tjáir sig og upplifir umhverfið sitt. Það getur haft áhrif á samskipti þeirra við annað fólk. Fólk með persónuleikaröskun getur átt erfitt með að tengjast fólki og á líklega mjög erfitt með að vera í nánum samböndum.

Hvernig hegðar fólk sér sem er með persónuleikaröskun?
Persónuleikaröskun er mjög flókin og það er alls ekki auðvelt að átta sig á því hver glímir við hana. Hún er ekki eins hjá öllum en hér fyrir neðan eru fleiri atriði sem þú gætir séð og upplifað hjá fólki sem er með persónuleikaröskun.

Skap þess getur sveiflast frá því að vera mjög gott yfir í það að vera mjög slæmt, án þess að það sé augljós ástæða fyrir því. Fólk getur átt erfitt með að stjórna tilfinningum sínum og verið hvatvíst, sem þýðir að það framkvæmir oft hluti án þess að hugsa þá til enda. Það getur til dæmis farið að hegða sér á hættulegan hátt og gert óskynsamlega hluti. Stundum þegar því líður illa reynir það að meiða sig eða hótar að meiða sig.

Fólk með persónuleikaröskun lendir oft í erfiðleikum í samskiptum við aðra. Það getur átt erfitt með að treysta öðru fólki, taka gagnrýni og sjá þegar það gerir eitthvað rangt. Þess vegna er algengt að vinasambönd endist stutt og að það skipti oft um vini.

Fólk með persónuleikaröskun getur líka upplifað:

Hræðslu við höfnun, að fólk fari frá þeim og að það verði skilið eftir eitt. 

Einmannaleika.

Að líða illa með sjálfan sig.

Að vilja forða sér þegar hlutirnir verða erfiðir.

Að gera meira mál úr hlutum sem skipta litlu máli.

Það er algengt að því líði eins og flestir hlutir snúist um það.

Það er mikilvægt að muna að allir geta upplifað erfiðleika í samskiptum við fólk annað slagið og það er eðlilegt. En hjá fólki með persónuleikaröskun gerist það mun oftar. Ef þú þekkir einhvern með persónuleikaröskun getur verið að manneskjan tali oft um rifrildi sín við annað fólk eða um sambandsslit. Hún upplifir jafnvel að það sé öðrum að kenna að henni líði illa eða sé vont við sig. Ef mamma þín eða pabbi glíma við eitthvað þessu líkt er eðlilegt að það sé erfitt fyrir þig. Þér finnst þú mögulega þurfa að vera sammála foreldri þínu og standa með því, en á sama tíma finnst þér kannski skrítið að foreldri þitt lendi í svona mörgum erfiðum og slæmum samskiptum.

Get ég fengið persónuleikaröskun?
Persónuleikaröskun er geðrænn vandi. Það eru ekki veikindi sem þú smitast af. Þótt þú eigir foreldri með persónuleikaröskun þýðir það ekki að þú fáir hana líka.

Er hægt að lækna persónuleikaröskun?
Stundum hjálpar að tala við einhvern og fá stuðning. Fólk með geðrænan vanda getur verið á batavegi og liðið betur og notið þess að lifa lífinu með fjölskyldu og vinum. Til þess að líða betur getur verið nauðsynlegt fyrir manneskju með persónuleikaröskun að tala við lækni eða sálfræðing og fá aðstoð.

Hvað get ég gert?
Ef foreldri þitt er með persónuleikaröskun er mikilvægt að þú vitir að það er ekki þér að kenna hvernig því líður og hegðar sér. Það er heldur ekki þitt hlutverk að sjá til þess að því líði betur.

Það er mjög mikilvægt að þú hugsir vel um þig og gerir hluti sem þér finnst skemmtilegir. Ef þú hefur áhyggjur er gott að tala við einhvern. Það getur verið fjölskylduvinur, þjálfarinn þinn, starfsfólk í skólanum eða einhver fullorðinn sem þú treystir.

 

Hvað er þunglyndi?

Fólk með þunglyndi upplifir veikindin oftast á mjög ólíkan hátt og sumir verða veikari en aðrir. Manneskja sem er með þunglyndi er oft sorgmædd, finnur fyrir pirringi og getur átt erfitt með að njóta þess að gera hluti. Þessar tilfinningar geta verið svo miklar að þær stjórna lífi hennar. Margir geta átt erfitt með að hugsa skýrt og tala við annað fólk eða jafnvel framkvæma venjulega hluti eins og að borða eða sofa. Þunglyndi getur varað í margar vikur, mánuði og hjá sumum eru þetta tilfinningar og hugsanir sem fólk er með í mörg ár.

Hvernig hegðar fólk sér sem er með þunglyndi?
Ef þú býrð með einhverjum sem er með þunglyndi er líklegt að þú sjáir manneskjuna oft dapra, leiða, reiða eða pirraða. Ef það er mamma þín eða pabbi er eðlilegt að þér finnist erfitt að sjá og upplifa foreldri þitt svona.

Hér eru fleiri atriði sem þú gætir tekið eftir hjá fólki með þunglyndi:

Það gæti átt erfitt með að njóta þess að gera hluti sem áður veitti því gleði.

Sumum gæti liðið mjög illa, sama hvort það er eitt eða með fólki sem það þekkir eins og vinum og fjölskyldu.

Það gæti sagt mjög slæma hluti um sig og lífið, eins og: „Ég skipti engu máli“ eða „Lífið er ömurlegt!“

Fólk með þunglyndi gæti átt erfitt með að sofa á nóttunni og gæti legið í rúminu og sofið allan daginn.

Þreyta, lítil orka og sumir eiga erfitt með að klára það sem það er byrjað á.

Matarlyst getur breyst, annað hvort borðar það meira en það er vant eða minna.

Það gæti átt erfitt með að einbeita sér. Sumir geta ekki horft á sjónvarpið, lesið bók eða tekið þátt í samtölum.

Algengt er að það sjái og túlki hlutina á neikvæðan hátt og upplifi vonleysi og tilgangsleysi.

Sumir geta upplifað það að vilja ekki lifa lengur.

Getur verið að ég sé með þunglyndi?
Þú veltir því kannski fyrir þér hvort þú sért með þunglyndi vegna þess að þú ert stundum leið/ur og niðurdregin/n. En það þarf alls ekki að vera. Það er eðlilegt að vera stundum niðurdregin/n og leið/ur. Að finna fyrir tilfinningum eins og depurð, gleði, reiði, pirring og kvíða gerir okkur að manneskjum. Þegar við finnum fyrir þessum tilfinningum fara þær oftast eftir smá tíma. Þú getur til dæmis upplifað gleði og depurð sama dag. Fyrir þá sem ekki eru með þunglyndi getur verið nóg að fara í göngutúr, horfa á fyndin myndbönd eða hringja í vin til þess að láta sér líða betur.

Get ég líka fengið þunglyndi?
Það er ekki hægt að smitast af geðrænum vanda og þótt þú eigir foreldri með þunglyndi þýðir það ekki að þú munir líka fá það.

Er hægt að lækna þunglyndi?

Fólk með þunglyndi getur verið á batavegi og liðið betur og notið þess að lifa lífinu með fjölskyldu og vinum. Til þess að líða betur getur verið nauðsynlegt fyrir manneskju með þunglyndi að tala við lækni eða sálfræðing og fá aðstoð með lyfjum.

Hvað get ég gert?
Ef foreldri þitt er með þunglyndi er mikilvægt að þú vitir að það er ekki þér að kenna að það sé veikt. Það er heldur ekki þitt hlutverk að sjá til þess að því líði betur. Það getur verið erfitt að eiga foreldri með þunglyndi, þú veist kannski ekki alltaf við hverju þú átt að búast og það er eðlilegt að þér líði stundum illa, sért hrædd/ur og þyki allt frekar ómögulegt.

Það er mjög mikilvægt að þú hugsir vel um þig og gerir hluti sem þér finnst skemmtilegir. Ef þú hefur áhyggjur er gott að tala við einhvern. Það getur verið fjölskylduvinur, þjálfarinn þinn, starfsfólk í skólanum eða einhver fullorðinn sem þú treystir.

Hvað er kvíðaröskun?

Fólk með kvíðaröskun er oft áhyggjufullt og líður eins og eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast. Þetta eru oft áhyggjur og ótti sem aðrir upplifa ekki. Kvíða- og óttatilfinningar geta verið sterkar og það getur verið erfitt að gera venjulega hluti eins og að skipuleggja sig, fara út eða njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum. Það getur verið erfitt að losna við þessar tilfinningar og sumir eru með áhyggjur, ótta og kvíða allan sólarhringinn. Sumum líður svona í langan tíma, kannski í vikur, mánuði eða fleiri ár.

Hvernig hegðar fólk sér sem er með kvíðaröskun?
Ef þú þekkir manneskju með kvíðaröskun getur verið að þú heyrir hana oft tala um áhyggjur eða stress, ef það er mamma þín eða pabbi getur verið erfitt fyrir þig að hlusta á allar áhyggjurnar. Það er mikilvægt að muna að það upplifa ekki allir kvíðaröskun á sama hátt.

Hér eru fleiri atriði sem þú gætir tekið eftir hjá fólki með kvíðaröskun:

Litlir hlutir verða stórt vandamál og þau óttast að eitthvað slæmt komi fyrir þrátt fyrir að það sé afar ólíklegt að það gerist í raun og veru.

Venjulegir hlutir; eins og að fara út, versla, hitta vini, fara í vinnu eða gera eitthvað með fjölskyldunni verða erfiðir.

Það getur átt erfitt með að sofa.

Fólk með kvíðaröskun gæti lent í því að svima, svitna eða titra og hjartslátturinn gæti orðið hraður og kröftugur.

Það getur orðið mjög kvíðið, farið í uppnám og orðið hrætt eða átt erfitt með að anda.

Það getur átt erfitt með að einbeita sér og hlusta í samtölum.

Getur verið að ég sé með kvíðaröskun?
Það er ekki hægt að smitast af geðrænum vanda og þótt þú eigir foreldri með kvíðaröskun þýðir það ekki að þú munir líka fá hana. Kvíði er eðlileg tilfinning sem allir upplifa einhvern tímann. Til dæmis getum við orðið kvíðin ef við erum að fara í próf, keppa í íþróttum eða að tala fyrir framan fólk. Það er eðlilegt að hafa stundum áhyggjur eða kvíða fyrir einhverju, það gerir okkur að manneskjum. Kvíði getur verið gagnlegur þegar fólk þarf að vanda sig og einbeita sér. Hann getur líka verið nauðsynlegur í hættulegum aðstæðum, eins og að hlaupa undan hættulegu dýri eða forða okkur frá bílum sem nálgast.

Gott dæmi um muninn á eðlilegum kvíða sem hjálpar okkur og svo kvíða í kvíðaröskun er til að mynda þegar að við kvíðum lokaprófi í skólanum. Eðlilegur kvíði fær okkur til að leggja okkur fram, ná betri einbeitingu og læra vel fyrir prófið. En fólk með kvíðaröskun upplifir oft svo mikinn kvíða að það nær ekki að læra eða einbeita sér og gæti að lokum ákveðið að sleppa prófinu.

Er hægt að lækna kvíðaröskun?
Það er hægt að fá aðstoð. Fólk með geðrænan vanda getur verið á batavegi sem þýðir að því getur liðið betur og notið þess að lifa lífinu með fjölskyldu og vinum. Til þess að líða betur getur verið nauðsynlegt fyrir fólk með kvíðaröskun að tala við lækni eða sálfræðing og fá aðstoð með lyfjum.

Hvað get ég gert?
Það getur stundum verið ógnvekjandi og erfitt að eiga foreldri með kvíðaröskun. Það er eðlilegt að þú finnir líka fyrir kvíða eða hafir áhyggjur. 

Það er mjög mikilvægt að þú hugsir vel um þig og gerir hluti sem þér finnst skemmtilegir. Ef þú hefur áhyggjur er gott að tala við einhvern. Það getur verið fjölskylduvinur, þjálfarinn þinn, starfsfólk í skólanum eða einhver fullorðinn sem þú treystir.