Aðstandendur

Að annast barnabarn þegar foreldri þess glímir við geðræn veikindi

Að veita barnabarni öruggt skjól

Það geta komið upp aðstæður þar sem foreldri barnabarnsins þíns er veikt og barnabarnið kemur til þín – í stutta heimsókn, lengri dvöl eða jafnvel til að búa hjá þér að fullu. Aðstæður þar sem þú sérð um barnabarn vegna veikinda foreldris þess geta verið mjög mismunandi, allt frá gagnkvæmu samkomulagi til úrskurðar yfirvalda. Það gæti líka verið að foreldri barnabarnsins komi einnig til með að dvelja hjá þér.

Sem amma eða afi hefur þú mikilvægu hlutverki að gegna við að veita fjölskyldunni öruggt og umhyggjusamt umhverfi. Að veita barnabarninu þínu öruggt og ástríkt heimili þegar foreldri þess getur ekki sinnt því vegna veikinda gerir þér kleift að stuðla að sem bestri heilsu og velferð fyrir bæði barnið og foreldrið.

Ræðið dvölina:
Hverjar sem aðstæðurnar voru sem leiddu til þess að barnabarnið þitt dvelur eða býr hjá þér, mun það njóta góðs af því ef þú getur átt opinská, heiðarleg og virðingarfull samskipti við foreldri þess. Þú getur undirbúið dvöl barnabarnsins með því að spyrja foreldrið um rútínur barnsins, uppáhalds mat, vini og áhugamál. Þú þarft einnig að fá samskiptaupplýsingar fyrir skóla barnsins og aðrar þjónustur sem koma að barninu og biðja um að vera skráð/ur sem neyðartengiliður fyrir barnið.

Mikilvægt er að eiga samtal við barnið um ástæðu þess að það dvelur hjá þér og að það upplifi að það megi spyrja spurninga. Algengt er að börn haldi að þau beri ábyrgð á veikindum foreldris eða telji sig hafa gert eitthvað rangt. Mikilvægt er að útskýra að foreldri þess sé veikt og það sé ekkert sem það gerði sem olli þessum aðstæðum. Að eiga samtöl um veikindin og einkenni þeirra getur verið hjálplegt og aðstoðað barnið að skilja þau betur. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er aldrei eitt samtal, heldur mörg samtöl og barnið upplifi að það megi spyrja spurninga.

Hér getur þú skoðað umönnunarplön fyrir börn sem gera þér kleift að skrá gagnlegar upplýsingar um barnabarnið þitt til að auðvelda utanumhald um daglegar rútínur. Að halda rútínu eins og mögulegt er hjálpar börnum að upplifa öryggi og stöðugleika.

No items found.

Að viðhalda tengslum

Það er mikilvægt að barnabarnið þitt viti að foreldri þess sé veikt og að breytt hegðun þess sé vegna veikinda. Einnig að tími í burtu frá foreldri sé nauðsynlegur til að hjálpa því að ná bata – ekki vegna þess að foreldrið vilji ekki vera með barninu. Sem amma eða afi gegnir þú mikilvægu hlutverki í því að minna barnabarnið á styrkleika foreldrisins, þar sem það á við, og mikilvægi þess að viðhalda sambandi við það.

Það getur verið áskorun að ákveða bestu leiðina fyrir barnabarnið þitt til að viðhalda sambandi við foreldri sitt. Mundu að ákvarðanir ættu að miðast við það sem er barninu fyrir bestu, ásamt vilja þess og getu foreldris.

Hér eru nokkur ráð frá öðrum ömmum, öfum, foreldrum og börnum sem hafa reynslu af svipuðum aðstæðum og gætu nýst þér:

  • Talaðu við barnabarnið þitt og spurðu hvernig því líður með samskipti við foreldri sitt. Börn geta haft áhyggjur af foreldri sínu eða verið hikandi við að hitta það ef það er veikt. Mundu að það er oft einfaldara að viðhalda tengslum, jafnvel þó það geti verið áskorun, heldur en að byggja þau upp aftur eftir að þau hafa rofnað.
  • Talaðu við foreldra barnabarnsins og þjónustuaðila sem koma að málinu um hvað sé barnabarninu fyrir bestu þegar kemur að samskiptum við foreldrið. Það geta verið misjafnar skoðanir á því og þú gætir þurft að vega og meta hvað er barninu fyrir bestu.
  • Skipuleggðu heimsóknir á hlutlausa staði eins og á útisvæðum, bókasöfnum eða á öðrum stöðum sem bjóða upp á skemmtilega starfsemi þar sem barnið og foreldrið geta notið saman.
  • Styttri heimsóknir geta stundum verið betri. Að setja tímamörk á heimsóknir getur dregið úr spennu og vonbrigðum. Mikilvægt er að barnið fái skýrar upplýsingar um heimsóknirnar og að það upplifi öryggi í kringum þær.
  • Gefðu foreldrinu og barnabarni þínu næði til að vera saman. Reyndu að stíga til baka þannig að þau fái gæðastundir saman án þess að líða eins og þau séu undir eftirliti.
  • Forðastu ágreining við foreldri barnabarnsins í þeirra áheyrn.
  • Hjálpaðu barnabarninu þínu að halda sjónræna dagbók (teikningar, myndir eða ljósmyndir) af því sem það hefur gert síðan það sá foreldri sitt síðast. Þetta getur verið góður ísbrjótur í heimsóknum og gefið þeim umræðuefni eða minningar sem foreldrið getur tekið með sér eftir heimsóknina.
  • Hægt er að styðja barnið í að tala við foreldri sitt í síma eða með myndsímtali á milli heimsókna.

Eftir samskipti við foreldrið getur barnabarn þitt fundið fyrir ruglingi, reiði, sorg, missi eða öðrum tilfinningum. Þessar tilfinningar birtast oft í hegðun sem getur verið krefjandi. Ef þörf er á, leitaðu aðstoðar um hvernig þú getur hjálpað barninu að skilja og vinna úr þessum tilfinningum á heilbrigðan hátt.

Það að styðja tengslin getur verið krefjandi - en með því getur þú hjálpað barnabarninu þínu að viðhalda sterku sambandi við foreldri sitt, sem er mikilvægur hluti af tilfinningaþroska og öryggi þess.

„Við minnum barnabarnið okkar reglulega á að við séum afi og amma hennar. Við dekrum við hana, en samt eru reglur og rútínur sem hún þarf að fylgja.“

„Að vera afi sem sinnir umönnun er erfiðasta hlutverkið, ekki að vita hvenær á að stíga inn – heldur hvenær á að stíga út.“

Undirbúningur fyrir heimsókn:

Áður en börn fara í heimsókn til foreldra sinna getur verið gagnlegt að ræða við þau og gefa þeim hugmyndir að leiðum til að hefja samtöl, þar sem börn vita ekki alltaf hvað þau eiga að segja. Mikilvægt er að hafa í huga þroska þeirra. Börn geta fundið fyrir þrýstingi til að vera „góð“ og haft áhyggjur af því að segja eitthvað sem gæti sært foreldri þeirra. Á sama hátt gætu foreldrar haft áhyggjur af viðbrögðum barna sinna.

Hér eru nokkur dæmi um hvernig er hægt að hefja samtöl:

  • „Við erum að horfa á skemmtilega þáttaseríu á Netflix eða í sjónvarpinu – má ég segja þér frá henni?“
  • „Í skólanum höfum við verið að…“
  • „Þessa vikuna hef ég verið að…“

Þú gætir líka stungið upp á að barnabarnið taki með sér:

  • Teikningu eða nýjasta Lego-verkið sitt til að sýna foreldri sínu.
  • Uppáhalds bók sem foreldrið getur lesið fyrir það.
  • Borðspil til að leika sér með foreldri sínu.

Ef barnabarnið flytur aftur heim

Ef barnabarnið þitt býr hjá þér getur komið upp sú staða að það fari aftur heim, ef og þegar það er mögulegt. Mikilvægt er að vinna að þessu markmiði frekar en að reyna að halda barnabarninu hjá þér, ef aðstæður leyfa. Sem amma eða afi gætir þú haft áhyggjur af því að skila barnabarninu aftur til foreldra sinna. Mikilvægt er að þú fáir tækifæri til að ræða þessar áhyggjur við foreldra barnabarnsins og stuðningsaðila.

Ef barnabarnið þitt flytur aftur heim til foreldra sinna skaltu ræða hvernig þú getur haldið sambandi við það. Þú gætir fundið fyrir sorg og missi vegna breytinga á sambandinu; það getur hjálpað að ræða þessar tilfinningar við vin eða einhvern sem getur stutt við þig í þessum aðstæðum. 

No items found.

Tengt efni