Fagfólk

Hlutverk fagfólks

Fagfólk gegnir lykilhlutverki í lífi barna sem eiga foreldra sem glíma við geðræn veikindi

Fagfólk getur skipt sköpum með því að veita börnum og fjölskyldum þeirra stuðning, fræðslu og viðurkenningu á aðstæðum. Þegar fagfólk tekur virkan þátt aukast líkur á að börn fái þá verndandi þætti sem þau þurfa til að dafna þrátt fyrir áskoranir.

Hlutverk fagfólks felst meðal annars í að:

  • Sjá börnin: Að vera meðvituð um stöðu þeirra, hlusta og viðurkenna tilfinningar þeirra.
  • Veita útskýringar: Að útskýra á einfaldan hátt hvað sé að gerast (út frá þroska og aldri barns) svo börnin skilji að veikindi foreldris séu ekki þeim að kenna og að þau upplifi meira öryggi í kringum aðstæður sínar.
  • Tryggja rödd barna: Að gefa börnum tækifæri til að tjá sig og hafa áhrif á eigið líf.
  • Styðja foreldra: Að hjálpa foreldrum að viðhalda foreldrahlutverkinu þrátt fyrir veikindi.
  • Vinna gegn fordómum og þögn: Að skapa rými fyrir opið samtal og vinna þannig gegn skömm og félagslegri einangrun.
  • Stuðla að tengslum: Að hjálpa til við að styrkja tengsl foreldris og barns.
  • Tryggja stöðugleika: Að styðja við reglubundið og fyrirsjáanlegt daglegt líf barnsins, þar á meðal skólasókn, tómstundir og félagsleg tengsl.
  • Samvinna milli kerfa: Að tryggja samráð milli heilbrigðis-, félags- og skólaþjónustu svo barnið og fjölskyldan fái samfellda og samræmda þjónustu.

Þegar fagfólk vinnur af næmni og í samstarfi við fjölskyldur getur það haft afgerandi jákvæð áhrif á líðan barns og lagt grunn að aukinni velferð þeirra til framtíðar.

No items found.

Réttindi barna

Á Íslandi eiga börn sem aðstandendur foreldris sem glímir við alvarleg veikindi sjálfstæðan rétt á viðeigandi ráðgjöf og stuðningi, þurfi þau á því að halda.

Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna réttar barna sem aðstandenda

Árið 2019 voru gerðar breytingar á sex mismunandi lögum til að tryggja þennan rétt barna. Ný ákvæði voru sett inn í:

  • Lög um réttindi sjúklinga
  • Lög um heilbrigðisstarfsmenn
  • Barnalög
  • Skólalöggjöfina

Með þessum breytingum var lögð áhersla á að fagfólk sé vakandi fyrir því hvernig veikindi foreldra geta haft áhrif á líðan og velferð barna. Sérstaklega voru settar auknar skyldur á heilbrigðisstarfsfólk, meðal annars að kanna hvort sjúklingur með geð- eða fíknisjúkdóm eða langvinnan alvarlegan sjúkdóm eigi barn undir lögaldri. Ef svo er, ber fagfólki að ræða við foreldrið um rétt og stöðu barnsins og tryggja að barnið fái viðeigandi stuðning – til dæmis með því að upplýsa skóla barnsins svo hann geti brugðist við og stutt við barnið.

Þessar lagabreytingar voru mikil réttarbót og byggðu á þeirri vitneskju sem lengi hefur verið til staðar:

  • Að veikindi foreldra geta haft áhrif á börn
  • Að börn hafi þörf fyrir að fá upplýsingar og að rödd þeirra heyrist
  • Með því að styðja við börn í erfiðum aðstæðum er hægt að fyrirbyggja vanda og stuðla að velferð og lífsgæðum

Á vefsíðunni er einnig sérstakt fræðsluefni fyrir foreldra. Þar má finna hagnýtar upplýsingar, meðal annars um hvernig útskýra megi veikindi fyrir börnum.

No items found.

Tengt efni