Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Börn
Ungmenni 13-17 ára
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Foreldrar
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Það eru margar tilfinningar og líkamleg einkenni sem geta fylgt því að eiga foreldri með geðsjúkdóm og það er eðlilegt að upplifa ýmislegt sem getur verið flókið að skilja eða takast á við.
Hér fyrir neðan ætlum við að skoða helstu tilfinningar sem þú gætir fundið fyrir þegar foreldri þitt glímir við geðsjúkdóm – en þær eru bara hluti af því sem þú getur verið að upplifa.
Þú gætir einnig fundið fyrir þreytu, orkuleysi, átt erfitt með að einbeita þér, muna hluti eða halda uppi daglegri rútínu. Þér gæti jafnvel fundist þú vera viðkvæm/ur/t og bregðast sterkar við hlutum en þú gerðir áður.
Mundu að allar þessar tilfinningar og einkenni eru eðlileg viðbrögð við aðstæðum sem geta verið flóknar. Þær sýna að þú ert að takast á við eitthvað sem er mjög krefjandi og það krefst styrks. Þú þarft ekki að hafa öll svörin eða finna lausnir á öllu strax. Það mikilvægasta er að leyfa þér að upplifa það sem þú finnur fyrir og muna að það er í lagi að leita aðstoðar og stuðnings.
Með tímanum og réttri hjálp er hægt að takast á við tilfinningarnar, finna jafnvægi og halda áfram að byggja upp bjarta framtíð. Þú átt skilið að líða vel og fá aðstoð þegar þú þarft á henni að halda.
Það er engin ein rétt leið til að líða í þessum aðstæðum. Það skiptir máli að þú vitir að þú ert ekki ein/einn/eitt og það er mikilvægt að leita til þeirra sem þú treystir til að ræða það sem þú ert að upplifa.
Þegar foreldri þitt glímir við geðsjúkdóm er eðlilegt að upplifa sorg, jafnvel þó að foreldri þitt sé enn hluti af lífi þínu. Sorgin getur verið öðruvísi en þegar maður missir ástvin – foreldrið er til staðar en sambandið getur breyst. Þú gætir saknað þess hvernig það var áður, fundið fyrir tómleika, reiði eða jafnvel sektarkennd yfir því að óska þess að hlutirnir væru öðruvísi. Þessar hugsanir eru algengar og sýna að sambandið við foreldri þitt skiptir þig miklu máli.
Sorgin getur líka tengst óvissu – sérstaklega ef hegðun foreldrisins sveiflast og þú veist ekki alltaf við hverju má búast. Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvernig lífið væri ef foreldrið væri ekki veikt.
Mundu að sorgin er eðlileg og hún sýnir að þér þyki vænt um foreldri þitt. Það getur hjálpað að tala við einhvern sem þú treystir, eins og vin, kennara eða ráðgjafa. Það er líka mikilvægt að hugsa vel um þig – að hitta vini, hreyfa þig eða gera hluti sem gleðja þig. Sorg hverfur ekki á einni nóttu en með tíma og réttri hjálp getur hún orðið auðveldari og þú getur fundið styrk til að halda áfram.
Það er algengt að finna fyrir reiði ef foreldri þitt er veikt. Hún getur beinst að foreldri þínu fyrir að geta ekki sinnt hlutverki sínu, að fjölskyldunni, jafnvel að sjálfri/um/u þér eða öðrum sem þú telur eiga að hjálpa. Reiðin getur líka tengst vanmætti og óöryggi – því aðstæður sem þú hefur litla stjórn á geta verið ógnvekjandi.
Reiði er eðlileg tilfinning í erfiðum og ósanngjörnum aðstæðum. Hún er ekki röng eða slæm en það er mikilvægt að finna heilbrigðar leiðir til að tjá hana. Talaðu við einhvern sem þú treystir eða finndu útrás í hreyfingu, listum eða áhugamálum. Að átta sig á reiðinni og vinna úr henni getur létt á þér og hjálpað þér að takast á við aðstæðurnar. Mundu að það er alltaf í lagi að biðja um hjálp.
Það er eðlilegt að upplifa vonleysi þegar foreldri þitt er veikt. Þér gæti liðið eins og hlutirnir muni aldrei lagast eða séu of flóknir til að leysa, sérstaklega þegar veikindin hafa mikil áhrif á fjölskylduna og daglegt líf.
Vonleysi getur birst sem skortur á orku, áhuga eða löngun til að gera hluti sem áður veittu gleði. Þessar tilfinningar geta verið yfirþyrmandi en þær eru algengar í erfiðum aðstæðum – og það er hægt að vinna úr þeim.
Mundu að vonleysið endurspeglar ekki raunverulega framtíð þína eða foreldris þíns. Hlutirnir geta orðið betri, jafnvel þótt það virðist erfitt að sjá það núna. Að tala við einhvern sem þú treystir getur hjálpað þér að finna nýja sýn og styrk. Það er líka mikilvægt að finna tíma fyrir hluti sem gefa þér gleði og orku – það er misjafnt hvað það er en það gæti verið að hitta vini og gera eitthvað skemmtilegt, fara í bíó eða horfa á bíómynd.
Það er eðlilegt að upplifa óöryggi þegar foreldri þitt er veikt. Þú gætir verið óviss um hvernig dagurinn verður eða hvernig foreldri þitt mun bregðast við, og það getur valdið tilfinningu um að allt geti breyst skyndilega.
Breytileg hegðun foreldris getur líka haft áhrif á sambandið ykkar. Það getur verið erfitt að vita hvernig eigi að bregðast við ef foreldri þitt virðist fjarlægt, upptekið af sínum eigin hugsunum eða með skapsveiflur. Þú gætir jafnvel farið að efast um sjálfa/n/t þig eða verið óviss um hvort þú sért að gera nóg til að hjálpa.
Mundu að óöryggi í þessum aðstæðum er algengt og skiljanlegt. Það er ekki merki um veikleika heldur um hversu erfitt það getur verið að lifa með óvissu. Að skapa þér þína eigin rútínu í lífinu getur hjálpað til við að draga úr óörygginu. Þetta gæti verið reglulegur göngutúr, að skrifa niður hugsanir þínar áður en þú ferð að sofa eða einfaldlega að verja tíma í það sem veitir þér gleði, eins og áhugamál eða hvíld.
Þó að óöryggi sé óþægilegt er það líka merki um að þú sért að reyna að fóta þig í flóknum aðstæðum. Með tímanum og stuðningi getur þú byggt upp styrk og fundið leiðir til að takast betur á við aðstæðurnar.
Margir upplifa skömm þegar foreldri þeirra er með geðsjúkdóm. Þú gætir skammast þín fyrir aðstæðurnar, óttast að aðrir dæmi fjölskylduna þína eða fundist erfitt að útskýra fyrir vinum hvernig foreldri þitt hagar sér.
Skömm tengist oft fordómum og misskilningi. Þú gætir óttast að aðrir skilji ekki veikindin eða haldi eitthvað um foreldri þitt sem er ekki satt. Þetta getur valdið því að þú reynir að fela aðstæður eða forðast að tala um þær – jafnvel við fólk sem þér þykir vænt um.
Mundu að skömmin sem þú upplifir er ekki sönn – hún byggist á vanþekkingu annarra. Geðsjúkdómar eru eins og hverjir aðrir sjúkdómar og þú hefur ekkert til að skammast þín fyrir. Ef skömmin verður þung er gott að tala við einhvern sem þú treystir. Það getur létt á þér og hjálpað þér að átta þig á því að þú hefur ekkert til að skammast þín fyrir.
Það er eðlilegt að finna fyrir ótta þegar foreldri þitt er veikt. Þú gætir haft áhyggjur af því hvort því líði illa, hvort ástandið versni eða hvort það fái rétta hjálp. Óttinn getur líka tengst framtíðinni, peningum, fjölskyldunni eða því hvernig líf þitt gæti breyst. Þú gætir líka verið með áhyggjur af því hvernig aðrir sjá fjölskylduna ykkar eða hvort fólk í kringum þig skilji það sem er að gerast. Ef hegðun foreldris þíns er ófyrirsjáanleg eða breytileg getur verið erfitt að vita við hverju má búast. Þessi óvissa getur valdið kvíða og tilfinningu um að þú hafir ekki stjórn á aðstæðunum. Þá getur verið erfitt fyrir þig að einbeita þér að skóla, vinum eða því sem veitir þér gleði.
Mundu að ótti er eðlileg tilfinning í erfiðum aðstæðum og merki um að þér þyki vænt um foreldri þitt. Það getur hjálpað að beina athyglinni að því sem þú hefur stjórn á, eins og að vera með vinum, sinna áhugamálum eða tala við einhvern sem þú treystir. Að deila tilfinningunum og finna stöðugleika í daglegu lífi getur styrkt þig og gert óttann auðveldari að takast á við.
Það er algengt að ungmenni sem eiga veikt foreldri finni fyrir sektarkennd. Kannski finnst þér þú ekki gera nóg til að hjálpa eða að eigin þarfir og langanir séu eigingjarnar. Þú gætir jafnvel haldið að þú berir ábyrgð á veikindum foreldrisins – þó að það sé ekki satt.
Stundum birtist sektarkenndin þegar þú vilt fjarlægjast aðstæður eða gera eitthvað sem gleður þig. Þú gætir hugsað: „Hvernig get ég verið að skemmta mér þegar foreldri mínu líður svona illa?“ eða „Er það rangt af mér að vilja forðast heimilið?“ Þessar hugsanir eru eðlilegar og þær endurspegla ekki raunverulega ábyrgð þína – þú berð ekki ábyrgð á veikindum foreldris þíns eða að því líði betur. Það er hlutverk fagfólks og annarra fullorðinna að styðja foreldri þitt.
Það er mikilvægt að muna að geðsjúkdómar eru flóknir og orsakast af þáttum sem þú hefur enga stjórn á.
Sektarkennd sýnir að þér þyki vænt um foreldri þitt en þú þarft líka að hugsa um þig. Að gera hluti sem gefa þér gleði og orku er ekki eigingirni – það er nauðsynlegt. Ef sektarkenndin verður yfirþyrmandi getur hjálpað að tala við einhvern sem þú treystir. Þú átt skilið stuðning og að fá að lifa þínu lífi, jafnvel þó ástandið heima sé erfitt.
Það er algengt að upplifa einmanaleika þegar foreldri þitt glímir við geðsjúkdóm.
Þér gæti fundist enginn skilja hvernig þér líður eða átt erfitt með að tala um það sem er að gerast heima. Stundum getur einmanaleikinn komið þó að þú sért í kringum annað fólk. Þú gætir líka forðast að segja vinum þínum frá því hvernig ástandið er af ótta við að þeir skilji ekki, dæmi þig eða spyrji spurninga sem þú vilt ekki þurfa að svara. Það er eðlilegt að finna fyrir einmanaleika, það segir okkur að við þurfum tengingu og skilning.
Það getur hjálpað að tala við einhvern sem þú treystir, þú þarft ekki að segja frá öllu – bara eins miklu og þú treystir þér til. Það getur verið vinur, ættingi, kennari, ráðgjafi – eða einhver sem þér líður vel með.
Þegar foreldri glímir við geðsjúkdóm er algengt að ungmenni finni fyrir sterkri ábyrgðartilfinningu. Þú gætir upplifað að það sé þitt hlutverk að sjá til þess að foreldri þínu líði betur eða að halda fjölskyldunni gangandi þegar hlutirnir verða erfiðir. Þér gæti jafnvel fundist þú þurfa að vera „fullorðni aðilinn“ á heimilinu eða taka á þig ábyrgð sem foreldri þitt nær ekki að sinna.
Þessi ábyrgðartilfinning getur verið yfirþyrmandi og valdið því að þér finnst þú aldrei gera nóg, sama hversu mikið þú reynir. Þú gætir verið með áhyggjur af því að gera eitthvað rangt eða finnst þú þurfa að vera stöðugt á varðbergi til að koma í veg fyrir að hlutir fari úr böndunum. Þetta getur orðið til þess að þú gleymir að hugsa um þína líðan og finnir fyrir streitu og þreytu.
Það er mikilvægt að vita að þó að ábyrgðartilfinningin sé skiljanleg, þá berð þú ekki ábyrgð á veikindum foreldris þíns eða að því líði betur. Það er hlutverk fullorðinna og fagfólks að veita foreldri þínu stuðning og hjálp.
Það er mikilvægt að finna jafnvægi á milli þess að styðja foreldri þitt og að passa upp á þín eigin mörk. Það er nauðsynlegt að leyfa þér að gera það sem gleður þig og styrkir, án þess að upplifa að þú sért að bregðast. Að hlúa að þinni líðan er ekki eigingjarnt – það hjálpar þér að takast á við aðstæðurnar á heilbrigðan hátt.
Þrátt fyrir erfiðar aðstæður getur von verið mikilvæg þegar foreldri þitt er veikt. Vonin snýst um að trúa því að hlutirnir geti batnað og að foreldri þitt geti fengið þá aðstoð sem það þarf. Hún getur veitt þér styrk til að halda áfram og hjálpað þér að sjá möguleikana á betri framtíð, jafnvel þó lífið sé erfitt í augnablikinu.
Vonin getur verið mismunandi hjá hverjum og einum. Hún gæti tengst því að sjá foreldri þitt eiga góða daga eða fá þá hjálp sem það þarf. Hún gæti líka verið tengd trú þinni á eigin getu til að takast á við áskoranirnar sem fylgja þessum aðstæðum. Að halda í vonina hjálpar þér að horfa fram á veginn og minna þig á að erfiðir tímar vara ekki að eilífu. Það er líka í lagi ef vonin er ekki alltaf sterk. Það er eðlilegt þegar allt virðist erfitt og óyfirstíganlegt.
Til að styrkja vonina getur verið gott að einbeita sér að litlum jákvæðum hlutum í daglegu lífi. Það gæti verið eitthvað einfalt eins og að njóta góðrar stundar með foreldri þínu, hlusta á tónlist sem lætur þér líða vel eða eyða tíma með vinum. Litlu hlutirnir geta minnt þig á að það er alltaf von, jafnvel í erfiðum aðstæðum.
Von er ekki bara trú á að hlutirnir geti lagast – hún er líka hvatning sem hjálpar þér að halda áfram, finna styrk og byggja upp framtíð þína, sama hvernig aðstæðurnar eru. Hún er mikilvægur þáttur í því að takast á við erfiða tíma og gefur þér styrk til að horfa fram á veginn með bjartsýni.