Foreldrar

Virkja stuðning í skólanum

Ef þú ert foreldri barns á skólaaldri hefurðu kannski velt því fyrir þér hvort og hvernig þú ættir að ræða veikindi þín við skólann

Þegar foreldri glímir við geðræn veikindi getur það haft áhrif á líf barnsins á margvíslegan hátt – ekki síst í skólanum. Í slíkum aðstæðum getur verið gagnlegt fyrir barnið ef kennarar og/eða annað starfsfólk veit af stöðu þess, svo þau geti sýnt skilning, veitt stuðning og brugðist rétt við.

Veikindi foreldris geta haft áhrif á barnið í skólanum með ýmsum hætti. Þegar innra álag er mikið getur barn átt erfitt með að takast á við daglegt skólastarf á sama hátt og önnur börn – jafnvel þótt það búi yfir bæði hæfni og vilja til þess. Tilfinningalegt álag, eins og áhyggjur, kvíði og óöryggi getur haft áhrif á hvernig barnið tekst á við skóladaginn. Það getur til dæmis verið þreytt eða utan við sig vegna áhyggja af því sem er að gerast heima. Það getur átt í erfiðleikum með að einbeita sér, fylgja eftir verkefnum eða halda athygli í kennslustundum.

Sum börn reyna að fela hvernig þeim líður og láta lítið á sér bera, á meðan önnur sýna vanlíðan sína í hegðun – þau geta til dæmis dregið sig í hlé, orðið pirruð, átt erfitt með að sitja kyrr eða sýnt merki um sorg, spennu eða reiði. Slíkar birtingarmyndir geta haft áhrif á námsframvindu, félagsleg tengsl og almenna líðan barnsins í skólanum.

Það er ekki alltaf augljóst að barn eigi um sárt að binda. Því getur það skipt miklu máli að þeir sem sinna barninu dags daglega – eins og kennarar – viti af aðstæðum þess. Þegar skólinn er upplýstur um þessar áskoranir getur hann mætt barninu af meiri sveigjanleika – með aukinni nærveru, skilningi og stuðningi eftir því sem þörf er á.

No items found.

Að taka ákvörðun um að upplýsa skólann

Það getur verið stórt og erfitt skref að ákveða að segja frá eigin veikindum, en mikilvægt er að muna að þú stjórnar því hversu miklu þú vilt deila. Það þarf ekki að fara í smáatriði – oft dugar að láta vita að þú eigir við veikindi að stríða og að barnið gæti þurft skilning eða stuðning í kjölfarið. Það getur einnig verið gagnlegt fyrir skólann að vita hvaða stuðning barnið þitt þarfnast á erfiðum tímum.

Hvernig getur það hjálpað?

Það getur gert kennurum og öðru starfsfólki kleift að skilja aðstæður barnsins og bregðast við á viðeigandi og styðjandi hátt ef vandamál koma upp, til dæmis:

  • Fylgst með líðan og hegðun barnsins og gripið inn í ef eitthvað bendir til þess að það þurfi aukinn stuðning.
  • Veitt barninu markvissan stuðning í námi og félagslegri aðlögun – með persónulegri og sveigjanlegri nálgun.
  • Tekið upplýstar ákvarðanir í daglegum aðstæðum, til dæmis ef barnið kemur seint, á erfitt með að ljúka verkefnum eða þarfnast meiri sveigjanleika.
  • Skipulagt sveigjanlegt nám eða veitt tímabundið leyfi ef veikindi innan fjölskyldunnar hafa áhrif á skólavist barnsins.
  • Gert ráðstafanir til að vernda barnið gegn streitu, álagi eða öðrum neikvæðum áhrifum sem geta haft áhrif á líðan þess.
  • Gefið barninu tækifæri til að ræða áhyggjur sínar við traustan fullorðinn aðila í skólanum – svo sem kennara, ráðgjafa eða hjúkrunarfræðing.
  • Unnið í nánu samstarfi við þig og aðra fagaðila til að tryggja að barnið fái þann stuðning sem það þarf til að líða vel og dafna í skólanum.

Að undirbúa samtalið

Hugleiddu hvernig best sé að eiga samtal við skólann. Oft er gott að bóka fund með umsjónarkennara barnsins svo þú hafir næði og tíma til að ræða málin. Þú getur líka óskað eftir að tala við námsráðgjafa, sálfræðing eða félagsráðgjafa ef það hentar þér betur – sem geta miðlað upplýsingunum áfram til kennara og skólastjóra. Það getur einnig verið gagnlegt að fá einhvern með þér til stuðnings í samtalið við skólann.

Það getur verið gagnlegt að velta því fyrir sér hvort aðrir í fjölskyldunni sem koma reglulega að umönnun barnsins þurfi að fá upplýsingar eða vilji taka þátt í samtalinu – til dæmis maki eða ömmur og afar.

Það gæti verið gagnlegt að ræða eftirfarandi atriði:

  • Hvernig veikindi þín hafa áhrif á daglegt líf fjölskyldunnar og hvernig það getur haft áhrif á barnið.
  • Áhyggjur sem þú hefur af barninu í skólanum, svo sem:
    • hvort það þurfi lengri tíma til að skila heimavinnunni
    • hvort það þurfi aðstoð við að koma sér af stað á morgnana
    • hvort það á í erfiðleikum með samskipti við önnur börn eða starfsfólk
  • Hverjir innan skólans mega fá að vita um aðstæður ykkar? Þú gætir viljað að aðeins umsjónarkennari barnsins viti, eða kosið að fleira starfsfólk, eins og í frístund eða á skrifstofu sé upplýst.

Gott er að hafa barnið með í ráðum

Barnið þitt kann að hafa skýrar skoðanir á því við hvern þú talar, hverjir fái að vita af aðstæðum ykkar og hvernig upplýsingum sé miðlað. Þess vegna getur verið gagnlegt að ræða málið við barnið áður en þú hefur samband við skólann. Það gæti til dæmis óskað eftir að þú ræðir sérstaklega við ákveðinn kennara sem það treystir og líður vel með. Eftir að þú hefur átt samtal við skólann er mikilvægt að segja barninu frá því. Útskýrðu hvers vegna þú gerðir það og fullvissuðu barnið um að upplýsingarnar séu meðhöndlaðar af virðingu og trúnaði. Það getur líka verið gott að útskýra að markmiðið sé að tryggja að barnið fái skilning og stuðning í skólanum.

Minntu barnið á að það megi alltaf leita til þín ef það finnur fyrir vanlíðan í skólanum eða vill ræða eitthvað sem liggur því á hjarta.

Að upplýsa skólann um veikindin getur verið ein leið til að styðja barnið. Þannig geta fleiri komið að því að veita barninu stuðning á þeim tímum sem álagið í fjölskyldunni eykst. Það sem skiptir þó mestu máli er að þið finnið þær leiðir sem henta ykkur best og styðja sem best við þarfir ykkar sem fjölskylda.

No items found.

Tengt efni