Foreldrar

Mikilvægi rútínu

Rútína skiptir börn miklu máli

Þegar daglegar athafnir eru fyrirsjáanlegar finna börn til öryggis, vita hvað er á seyði og hvers er að vænta.

Foreldri sem glímir við geðræn veikindi getur átt erfitt með að viðhalda rútínu, til dæmis vegna orkuleysis, svefnvandamála, kvíða, depurðar eða skertrar einbeitingar. Veikindin geta valdið því að dagarnir verða óútreiknanlegir, sem gerir það áskorun að halda í reglubundið dagskipulag – jafnvel þótt foreldrinu þyki það mikilvægt og vilji það af heilum hug.

Hvað er rútína?

Daglegar rútínur hjálpa fjölskyldulífinu að ganga snurðulaust fyrir sig. Þær hjálpa fjölskyldum að skipuleggja sig til að sinna daglegum verkefnum, njóta samveru og gera skemmtilega hluti. Rútínur veita fjölskyldumeðlimum skýra sýn á hver á að gera hvað, hvenær, í hvaða röð og hversu oft. Góð rútína veitir barninu þínu öryggi og stöðugleika. Þegar barnið veit hvað gerist næst upplifir það meiri stjórn á umhverfi sínu og lærir skipulag og ábyrgð. Rútínur hjálpa einnig barninu þínu að skilja hvað skiptir fjölskylduna máli.

Fjölskylduhefðir eru dæmi um sérstakar rútínur sem tengjast reglulegum athöfnum ykkar. Þær geta styrkt sameiginleg gildi og viðhorf fjölskyldumeðlima, eflt tengsl og aukið samheldni.

No items found.

Af hverju er rútína mikilvæg fyrir börn?

  • Börn dafna í öryggi og fyrirsjáanleika. Þegar hlutirnir gerast á svipuðum tíma og á svipaðan hátt dag frá degi veitir það barninu tilfinningu um öryggi og stöðugleika.
  • Rútínur hjálpa börnum að skilja hvað er að gerast og hvað kemur næst, sem getur dregið úr óvissu og kvíða.
  • Þær styðja við þroska og sjálfstæði – börn læra smám saman að sjá um sig sjálf og taka þátt í verkefnum dagsins, t.d. að klæða sig, bursta tennur eða fara að sofa.
  • Þegar börn vita hvað er ætlast til af þeim og hvenær, eiga þau auðveldara með að eiga góð samskipti við aðra og sýna samvinnu.
  • Rútínur geta líka gert erfiða daga aðeins auðveldari – þegar eitthvað breytist eða veldur álagi, veitir kunnuglegt skipulag barninu festu og ró.

Af hverju er rútína mikilvæg fyrir foreldra?

Það tekur tíma og fyrirhöfn að koma rútínum á en þegar þær eru orðnar fastmótaðar geta þær haft margvíslegan ávinning fyrir þig sem foreldri:

  • Þegar lífið er annasamt eða krefjandi geta rútínur hjálpað þér að upplifa meiri stjórn á aðstæðum, sem dregur úr streitu og kvíða.
  • Reglulegar og áreiðanlegar rútínur geta aukið sjálfstraust þitt sem foreldri.
  • Rútínur gera fjölskyldunni kleift að klára dagleg verkefni á skilvirkari hátt og gefa þannig meiri tíma fyrir annað.
  • Með rútínu þarf oft síður að leysa ágreining eða taka ákvarðanir. Til dæmis, ef sunnudagar eru pizzakvöld, þá þarf enginn að rífast um hvað á að hafa í matinn.

Rútína er traust haldreipi í lífsins ólgusjó

Þegar veikindi gera vart við sig og breytingar og óvissa setja mark sitt á fjölskyldulífið er eitt það mikilvægasta sem þú getur gert til að veita barninu þínu öryggistilfinningu að sjá til þess að dagleg rútína þess raskist sem minnst. Að skapa fyrirsjáanleika í lífi barnsins þíns á óvissutímum getur skipt sköpum og hjálpað ykkur að viðhalda nánd og tengslum þegar þú glímir við veikindi.

Þegar þú, sem foreldri, gengur í gegnum erfiðleika vegna geðrænna veikinda taka börnin oft eftir því að eitthvað hafi breyst í fari þínu. Þau vilja eflaust fyrst og fremst vita hvort þú munir ná þér aftur. Í kjölfarið vilja þau svo vita hvort þetta hafi áhrif á daglegar, reglubundnar venjur. Þau gætu t.d. velt eftirfarandi fyrir sér: „Get ég stundað íþróttir áfram eða boðið vini mínum heim? Hver fylgir mér og sækir í skólann? Get ég haldið áfram í tónlistarnáminu og hver mun útbúa nestið fyrir mig?“

Þessi daglegu verkefni geta reynst erfiðari í framkvæmd þegar þér líður ekki vel. Þá gætirðu þurft að liggja meira fyrir eða hvílast fjarri fjölskyldunni. Jafnvel á erfiðum tímum er hægt að viðhalda bæði rútínu og tengslum við börnin.

Þegar erfiðleikar steðja að er mikilvægt að halda í daglegar athafnir sem styrkja tengslin við barnið þitt

Þú gætir prófað að byrja á einhverju smáu og einföldu sem þú treystir þér til. Jafnvel litlar samverustundir geta skipt miklu máli, eins og að:

  • Breiða yfir barnið þegar það fer að sofa á kvöldin.
  • Lesa með barninu fyrir svefninn.
  • Setjast hjá barninu og spjalla við það á meðan það er í baði, jafnvel þótt það vari bara í nokkrar mínútur.
  • Gefa þér tíma til að smyrja nesti fyrir skólann kvöldið áður.

Ef þetta reynist þér of erfitt getur þú beðið maka þinn eða aðra fullorðna manneskju sem barnið treystir til að hjálpa þér og sjá um að fylgja rútínunni eftir. Kannski ertu fær um að gera það með hjálp annarrar fullorðinnar manneskju. Þú gætir til dæmis setið og borðað með barninu þínu ef einhver annar hefur hjálpað til við að útbúa matinn.

Það getur líka reynst hjálplegt að hugsa um eftirfarandi:

  • Hver er hefðbundin rútína hjá barninu þínu á virkum dögum og um helgar? Stundar það íþróttir eða frístundastarf eftir skóla? Skutlar þú því yfirleitt í skólann eða fylgir því í strætó?
  • Hvaða athafnir eru mikilvægar í lífi barnsins þíns? Skráir þú skólaferðir, viðburði eða afmælisboð á dagatal sem hjálpar þér að muna eftir því sem skiptir barnið máli og er á döfinni?
  • Hvernig er hægt að halda rútínu þegar erfiðleikar steðja að?
    • Eru börn nágrannanna í svipaðri rútínu og þín?
    • Hvað um foreldra barna sem æfa líka fótbolta og væru til í að skutla þínu barni og sækja, tímabundið?
    • Gæti einhver í fjölskyldunni stigið inn í og hjálpað til? Hvað um afa, ömmur, frænkur eða frændur?
  • Hverjir aðrir gætu viðhaldið rútínunni?
    • Áttu trausta vini eða fjölskyldu sem þú getur beðið að aðstoða börnin við einhver af verkefnum vikunnar?

Í því samhengi getur verið hjálplegt að skoða stuðningsnet barnsins þíns:

  • Hverjir eru í kringum ykkur sem gætu veitt ykkur stuðning?
  • Hvernig gætir þú farið að því að óska eftir þeirra stuðningi?
  • Hvaða upplýsingar þyrftu þeir að fá?

No items found.

Tengt efni