Börn

Mun ég líka veikjast?

Ef foreldri þitt er með geðsjúkdóm gætir þú velt því fyrir þér:

„Verð ég líka svona veik/ur/t þegar ég verð eldri?“

Það er mjög eðlilegt að hugsa svona. Margir krakkar sem eiga veikt foreldri spyrja sig þessarar spurningar.

En svarið er: Nei, það þýðir ekki að þú verðir veik/ur/t bara af því að foreldri þitt er það.

No items found.

Af hverju verður fólk veikt?

Fólk verður ekki veikt út af einhverju einu. Það er meira eins og að blanda saman mörgum litum í málningu. Það er blanda af hlutum sem við fáum frá foreldrum okkar (eins og augnlitur eða hæð), hvernig manni líður, hvað hefur gerst í lífinu manns og hvernig heimurinn í kringum mann hefur verið. Stundum blandast litirnir þannig að til verður litur sem er dimmur og þungur. Það getur verið erfitt að segja nákvæmlega af hverju liturinn varð svoleiðis en það eru margir hlutir sem spila saman.

Get ég veikst eins og foreldri mitt?

Stundum geta fleiri en einn í sömu fjölskyldu veikst en það gerist alls ekki alltaf. Það er svolítið eins og með gleraugu – jafnvel þó að mamma þín eða pabbi þurfi þau, þá þýðir það ekki að þú þurfir þau líka. En það er mikilvægt að muna að þitt líf er ekki eins og líf foreldris þíns. Þú hefur þínar eigin hugsanir, tilfinningar og upplifanir. Þú ert að alast upp í öðrum aðstæðum og ert með þínar leiðir til að takast á við hluti.

Það er margt sem getur hjálpað þér að vera sterkari eins og til dæmis:

  • að sofa nóg og fá hvíld
  • að borða mat sem gefur orku
  • að hreyfa þig og leika þér
  • að gera hluti sem gleðja þig
  • að tala við einhvern sem hlustar

Þegar þú hugsar vel um þig ertu að styrkja hugann – alveg eins og vöðva í líkamanum.

Það er eðlilegt að líða stundum illa

Stundum líður börnum illa þegar það er mikið í gangi heima. Það getur verið erfitt þegar einhver sem maður elskar er veikur.

En ef þér líður illa í langan tíma þá þýðir það ekki að þú sért að verða veik/ur/t. Það þýðir bara að þú þarft stuðning, það þurfa allir stundum.

Þá er mikilvægt að tala við einhvern um hvernig þér líður, það getur verið kennari í skólanum þínum, þjálfari, frænka eða frændi, amma eða afi eða einhver fullorðinn sem þú treystir.

No items found.

Tengt efni