Börn

Hvaða áhrif hafa veikindin á mig?

Ef foreldri þitt er með geðsjúkdóm getur það haft áhrif á marga hluti í lífi þínu

No items found.

Hvaða áhrif hefur þetta á mig?

Ef foreldri þitt er veikt getur það breytt daglegu lífi hjá þér og hvernig þér líður. Það er eðlilegt að upplifa sorg, reiði, óöryggi, ótta eða jafnvel sektarkennd og stundum fleiri en eina tilfinningu í einu. Allar þessar tilfinningar eru í lagi og segja bara að þú sért að reyna að takast á við erfitt ástand.

Skólinn

Það getur verið erfitt að einbeita sér í skólanum þegar maður hefur áhyggjur af því sem er að gerast heima. Kannski ertu með mikið í huganum, finnur fyrir leiða eða kvíða eða átt erfitt með að losna við hugsanir sem trufla þig. Þá getur verið erfiðara að fylgjast með í tímum, klára verkefni eða læra nýja hluti.

Stundum getur líka verið erfitt að tala við kennara eða vini um hvernig þér líður – sérstaklega ef þú ert ekki viss um hvort þau skilji eða þér gæti fundist erfitt að útskýra það sem er í gangi.

Áhugamál

Það sem áður var skemmtilegt – eins og að leika, teikna, syngja, hreyfa sig eða hitta vini – getur orðið erfiðara þegar mikið er að gerast heima. Kannski finnur þú fyrir minni orku eða áhuga eða finnst þú ekki hafa tíma eða leyfi til að skemmta þér, en þú mátt alltaf gera hluti sem láta þér líða vel.

Það er mikilvægt að halda í það sem gleður þig, því það hjálpar þér að eiga góðar stundir og hlaða batteríin, jafnvel þegar dagarnir eru erfiðir.

Vinir

Það getur verið erfitt að segja vinum frá því að foreldri þitt sé veikt. Kannski óttast þú að þau skilji það ekki eða finnst þú vera öðruvísi. Þá getur mann langað að vera minna með vinum en mundu að þú ert ekki ein/einn/eitt. Það eru mörg börn sem eiga líka veika foreldra.

Það er mikilvægt að gefa sér tíma með vinum og gera eitthvað skemmtilegt saman. Það hjálpar þér að líða betur og til að fá hvíld frá áhyggjum. Þú mátt ráða hverjum þú segir frá og það er mikilvægt að þér líði vel með þá ákvörðun.

Þó að veikindin hafi áhrif á lífið þitt, áttu samt rétt á að leika þér, læra nýja hluti, vera með vinum og njóta þess að vera barn.

Þegar þú gerir það sem gleður þig, styrkir þú sjálfa/n/t þig.

No items found.

Tengt efni