Fagfólk

Áhrif veikinda foreldris á börn

Þegar foreldri glímir við geðræn veikindi getur það haft víðtæk áhrif á börn

Börn skynja breytingar í hegðun og líðan foreldris, jafnvel þó þau fái ekki útskýringar. Þau geta upplifað óöryggi, ófyrirsjáanleika og tilfinningalega fjarlægð sem hefur áhrif á tengsl og sjálfsmynd þeirra.

Börn geta orðið fyrir ýmsum neikvæðum áhrifum, fái þau ekki viðeigandi stuðning:

  1. Tilfinningaleg áhrif: Börn geta upplifað höfnun þegar foreldri dregur sig til baka, ótta við að missa foreldri sitt eða kvíða þegar foreldri er lagt inn á sjúkrahús.
  2. Hlutverkaskipti: Sum börn taka á sig mikla ábyrgð, til dæmis að hugsa um foreldri sitt eða yngri systkini (parentification).
  3. Áhyggjur og sektarkennd: Börn hafa tilhneigingu til að spyrja sig hvort þau beri ábyrgð á veikindunum eða hvort þau geti gert eitthvað til að laga ástandið.
  4. Skömm og einangrun: Fjölskyldan reynir stundum að halda veikindunum leyndum af ótta við fordóma sem getur ýtt undir félagslega einangrun barnsins.
  5. Áhrif á daglegt líf: Erfiðleikar við einbeitingu, nám og þátttöku í félagslífi eru algengir. Sum börn halda sig til hlés á meðan önnur bregðast við með uppreisnargjarnri hegðun.

Þó að áskoranirnar geti verið miklar er mikilvægt að muna að börn geta þróað með sér seiglu og aðlagað sig að aðstæðum ef þau fá réttan stuðning. Með því að veita þeim útskýringar, stuðning og tækifæri til að ræða tilfinningar sínar má draga úr neikvæðum áhrifum og styðja þau í að byggja upp seiglu og trú á eigin framtíð.

No items found.

Jákvæð áhrif og styrkleikar

Þrátt fyrir að geðræn veikindi foreldris geti haft í för með sér fjölmarga áhættuþætti fyrir börn er ekki þar með sagt að öll börn verði aðeins fyrir neikvæðum áhrifum. Mikilvægt er að hafa í huga að börn upplifa og bregðast við veikindum foreldra sinna á ólíkan hátt.

Það sem skiptir mestu máli eru margvíslegir þættir, svo sem:

  • Alvarleiki veikindanna
  • Hversu mikið innsæi foreldri hefur í stöðu sína
  • Tengsl barns og foreldris
  • Sjálfsmynd barnsins, skapgerð, greind og hvernig það túlkar aðstæður

Þessir þættir eru þó háðir umhverfi og mótast að miklu leyti í gegnum reynslu og samskipti barnsins við aðra. Samskipti og tengsl við frumumönnunaraðila skipta þar mestu máli, þar sem grunnurinn er lagður að sjálfsmynd barnsins og sýn þess á lífið. Tengsl barns við aðra utan heimilisins og þátttaka í skóla og félagslífi geta einnig haft jákvæð og verndandi áhrif – eins og sá stuðningur sem barnið og fjölskyldan fá frá umhverfinu.

Rannsóknir hafa sýnt að börn geta þróað með sér styrkleika og jákvæða eiginleika út frá reynslu sinni, svo sem:

  • Hjálpsemi og umhyggju
  • Umburðarlyndi og víðsýni
  • Góða félagsfærni
  • Samkennd og hæfileikann til að setja sig í spor annarra

Fullorðin börn sem hafa alist upp með foreldri sem glímdi við geðræn veikindi lýsa því að einmitt þessi reynsla hafi mótað þá eiginleika sem þau eru hvað stoltust af í dag. Þau segja að reynslan hafi kennt þeim að ekkert í lífinu sé sjálfsagt, aukið víðsýni þeirra og fært þeim djúpt þakklæti – jafnvel fyrir hluti sem margir taka sem sjálfsagða, eins og að njóta góðrar heilsu.

No items found.

Tengt efni