Fagfólk

Börn sem eru aðstandendur

Áætlað er að 1 af hverjum 5 börnum eigi foreldri sem glímir við geðsjúkdóm

Mörg þessara barna fá litla sem enga fræðslu eða stuðning og eru því í aukinni hættu á að upplifa kvíða, streitu og félagslega einangrun. Rannsóknir sýna að börn í þessari stöðu eru þrisvar sinnum líklegri til að þróa með sér geðrænan vanda síðar á lífsleiðinni, fái þau ekki viðeigandi stuðning.

ACE-rannsóknin (Adverse Childhood Experiences) hefur sýnt fram á að erfiðar reynslur í æsku, svo sem veikindi foreldris, vanræksla eða ofbeldi, geta haft alvarleg áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu á fullorðinsárum. Því fleiri áföll sem barn verður fyrir, því meiri er áhættan á heilsufarsvanda síðar.

No items found.

Stuðningur skiptir sköpum

Rannsóknir sýna að börn sem fá fræðslu og útskýringar á því sem er að gerast og hafa að minnsta kosti einn traustan fullorðinn aðila sér við hlið, þróa frekar með sér seiglu. Slíkur stuðningur hjálpar þeim að skilja að þau séu ekki ein í heiminum og að þau beri ekki ábyrgð á veikindum foreldris síns. Það getur haft afgerandi áhrif á líðan þeirra og framtíð.

Stuðningurinn þarf ekki alltaf að felast í stórum eða flóknum aðgerðum. Oft er það einfaldlega stöðug viðvera, hlustun og heiðarleg útskýring sem gerir gæfumuninn. Þegar börn finna að þau hafa einhvern sem þau geta treyst, dregur það úr hættu á félagslegri einangrun, sektarkennd og sjálfsásökun. Þau fá tækifæri til að styrkja sjálfsmynd sína, þróa með sér heilbrigð bjargráð og byggja upp trú á eigin framtíð.

Með því að tryggja að börn í þessari stöðu hafi aðgang að fræðslu, stuðningi og traustu tengslaneti er hægt að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem veikindi foreldris geta haft. Slíkt getur ekki aðeins bætt líðan þeirra heldur líka verndað heilsu þeirra og velferð til lengri tíma.

Fagaðilar gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að:

  • sjá börnin og hlusta á þau.
  • útskýra á einfaldan hátt það sem er að gerast.
  • tryggja að þau hafi rödd og aðgang að stuðningi.
  • styðja foreldrana þannig að þeir geti áfram gegnt foreldrahlutverkinu.

Rannsóknir sýna að þegar fagfólk tekst á við þessi verkefni með næmni og samvinnu hefur það veruleg áhrif á líðan og framtíð barna. Með því skapast tækifæri til að draga úr áhættuþáttum, efla verndandi þætti og styðja börn í að þróa með sér seiglu. Slíkur stuðningur getur orðið afgerandi í lífi barns og lagt grunn að aukinni velferð til lengri tíma.

No items found.

Tengt efni