Ungmenni 13-17 ára

Mun ég líka veikjast?

Ef foreldri þitt er með geðsjúkdóm gætir þú velt því fyrir þér hvort þú eigir eftir að veikjast líka

Það er fullkomlega eðlilegt að hugsa út í það og mörg börn og ungmenni sem eiga veikt foreldri gera það líka.

Það er rétt að stundum geta fleiri en einn í sömu fjölskyldu veikst en það gerist alls ekki alltaf. Erfðir geta haft áhrif á geðheilsu en það er bara einn hluti af stærri mynd. Geðsjúkdómar verða til vegna samspils margra þátta – erfða, lífsreynslu, streitu og aðstæðna í umhverfinu.

No items found.

Það er mikilvægt að muna að líf þitt er ekki eins og líf foreldris þíns. Þú hefur þínar eigin hugsanir, tilfinningar og upplifanir. Þú ert að alast upp í öðrum aðstæðum og ert með þínar eigin leiðir til að takast á við hluti. Með því að hlúa að geðheilsunni, leita stuðnings þegar þú þarft á því að halda og finna það sem styrkir þig, geturðu dregið úr líkum á veikindum og byggt upp þína eigin framtíð.

Það ganga allir í gegnum erfið tímabil

Það er eðlilegt að finna fyrir áhyggjum eða óvissu, sérstaklega ef þú hefur séð foreldri þitt ganga í gegnum erfiða tíma. En að eiga foreldri með geðsjúkdóm þýðir ekki að framtíð þín sé ákveðin fyrir fram. Það eru margir þættir sem geta styrkt geðheilsu – til dæmis að læra að takast á við streitu, eiga jákvæð tengsl, sinna því sem gleður þig og þekkja þín mörk.

Ef þér líður illa í lengri tíma, finnur fyrir kvíða, depurð eða öðrum erfiðum tilfinningum, þýðir það ekki endilega að þú sért að veikjast. Það bendir frekar til þess að þú sért að ganga í gegnum erfitt tímabil – sem allir gera stundum. Þá er mikilvægt að leita sér stuðnings. Að tala við einhvern sem þú treystir, eins og vin, fjölskyldumeðlim eða ráðgjafa, getur létt á þér.

Það er margt sem þú getur gert sem hefur jákvæð áhrif á þína geðheilsu og getur styrkt þig til framtíðar, til dæmis:

  • Það getur hjálpað að vita meira um geðsjúkdóma
    Ef foreldri þitt er með geðsjúkdóm er eðlilegt að vilja skilja veikindin betur – sérstaklega ef þú hugsar stundum: „Mun ég líka veikjast?“
    Það er mikið af upplýsingum á netinu og í kringum okkur en því miður er ekki allt rétt. Þess vegna er mikilvægt að leita upplýsinga frá öruggum stöðum og fólki sem veitir réttar útskýringar. Að vita meira getur hjálpað þér að skilja hvað gerist þegar manneskja veikist – og það getur minnkað áhyggjur og rugling.
  • Það er gott að fylgjast með geðheilsunni – en ekki ofhugsa
    Ef foreldri þitt er með geðsjúkdóm er eðlilegt að taka eftir hvernig þér líður og velta því fyrir sér hvort þú sjáir einhver einkenni hjá þér. En passaðu þig á að festast ekki í því að ofhugsa tilfinningarnar þínar eða hafa stöðugar áhyggjur. Það er mikilvægt að muna að allir ganga í gegnum erfiða tíma og upplifa tímabil þar sem þeim líður illa – það er hluti af lífinu og þýðir ekki sjálfkrafa að þú sért að veikjast.
  • Ef þér líður illa getur verið gott að tala við einhvern
    Öll ungmenni fara í gegnum tímabil sem geta verið erfið – sama hvort þau eiga foreldri með geðsjúkdóm eða ekki. Ef þú upplifir erfiðar tilfinningar eða líður illa er mikilvægt að leita sér aðstoðar. Það hjálpar oft mikið að tala við einhvern strax, í stað þess að bíða lengi eftir stuðningi.
  • Hugsaðu vel um þig
    Það hefur mikil áhrif á geðheilsuna hvernig þú hugsar um sjálfa/n/t þig. Það skiptir máli að borða reglulega og næra sig vel, hreyfa sig, sofa nóg og eyða tíma með fólki sem þér þykir vænt um. Það er líka gott að hafa í huga að sumt getur haft neikvæð áhrif, til dæmis koffín, áfengi eða önnur vímuefni. Þau geta gert það erfiðara að sofa, aukið kvíða eða haft áhrif á líðan þína. Sama gildir um samfélagsmiðla – það getur verið gott að setja sér mörk og passa að þeir taki ekki of mikinn tíma eða láti þér líða verr í samanburði við aðra. Að hugsa vel um líkamann og velja það sem styður þig hjálpar líka huganum að vera í betra jafnvægi.
  • Finndu þín bjargráð
    Allir þurfa að læra hvað hjálpar þeim þegar þeim líður illa. Það sem virkar fyrir einn hentar ekki endilega fyrir annan – þess vegna er gott að prófa sig áfram og finna sín eigin bjargráð. Sumum finnst gott að hreyfa sig, hlusta á tónlist, teikna eða skrifa niður hugsanirnar sínar. Aðrir finna styrk í að tala við einhvern, fara út í náttúruna, fara í sund eða slaka á yfir bíómynd eða góðum þætti. Að hafa sín bjargráð þegar það koma erfiðir dagar getur hjálpað. Hugsaðu: „Hvað hjálpar mér þegar mér líður illa?“ – og reyndu að safna í þinn eigin verkfærakassa.

No items found.

Tengt efni