Foreldrar

Hvað er barnið mitt að hugsa?

Þegar foreldri glímir við geðsjúkdóm hefur það áhrif á allt fjölskyldulífið – og sérstaklega á börn

Börn taka eftir breytingum, jafnvel þegar þau eru mjög lítil, og reyna að skilja það sem gerist út frá sínum eigin forsendum. Þau velta hlutum fyrir sér, spyrja sig spurninga – og ef þau fá ekki svör, fylla þau oft í eyðurnar með eigin hugmyndum.

Upplýsingarnar á þessari síðu eru ætlaðar til að gefa þér sem foreldri innsýn í hvað barnið þitt gæti verið að hugsa eða upplifa á erfiðum tímum. Hvert og eitt barn bregst við á sinn hátt, en mörg börn í svipuðum aðstæðum glíma við sambærilegar spurningar og vangaveltur.

Markmiðið er ekki að vekja sektarkennd, heldur styðja þig í foreldrahlutverkinu og auðvelda þér að nálgast barnið með skilningi og hlýju. Þegar við setjum okkur í spor barnsins verður auðveldara að taka eftir merkjum um vanlíðan, bregðast við spurningum og veita þann stuðning sem barnið þarfnast.

No items found.

Börn skynja oft breytingar hjá foreldri – jafnvel þótt enginn hafi útskýrt fyrir þeim beint hvað er að gerast

Þau finna fyrir óöryggi, álagi, breyttum samskiptum og óvenjulegri hegðun og reyna að skilja samhengi hlutanna út frá því sem þau sjá og heyra. Ef þau fá ekki skýringar, búa þau sér til sínar eigin – sem geta valdið óþarfa kvíða, ótta eða misskilningi.

Hér fyrir neðan eru dæmi um algengar spurningar og hugsanir hjá börnum sem eiga foreldri með geðsjúkdóm. Börn spyrja ekki alltaf beint, en áhyggjur þeirra geta birst í hegðun þeirra og líðan.

  • „Af hverju er foreldri mitt svona leitt, reitt, pirrað, þreytt?“
    Börn taka fljótt eftir breytingum í skapferli, orku og hegðun foreldra. Ef ekkert er sagt um ástæðurnar getur það valdið ringulreið og óöryggi.
  • „Af hverju breytist þetta svona hratt?“
    Börn geta átt erfitt með sveiflur í líðan foreldris – þegar hlutirnir eru allt í lagi einn daginn en mjög erfiðir þann næsta. Þetta getur skapað ringulreið og vanmátt.
  • „Af hverju talar enginn um þetta?“
    Þegar veikindin eru þögguð eða dulin verða börn oft ringluð. Þau skynja að eitthvað sé að en fá ekki orð yfir það. Þögnin getur orðið til þess að börn fylli í eyðurnar með eigin ímyndun – sem er oft verri en raunveruleikinn.
  • „Er þetta leyndarmál?“
    Ef enginn talar opinskátt um veikindin geta börn lært að þau eigi að þegja um þau. Þau gætu haldið að veikindin séu eitthvað skammarlegt, jafnvel þótt þau skilji þau ekki.
  • „Af hverju ertu öðruvísi en aðrir foreldrar?“
    Þegar börn bera heimilislíf sitt saman við það sem þau sjá hjá öðrum, geta komið upp spurningar um hvað sé „eðlilegt“ og hvort eitthvað sé athugavert við þeirra fjölskyldu.
  • „Er þetta mér að kenna?“
    Mörg börn leita orsaka hjá sjálfum sér þegar eitthvað erfitt gerist í fjölskyldunni. Þau gætu haldið að þau hafi gert eitthvað rangt, verið of hávær eða ekki hjálpað nógu mikið.
  • „Er ég að gera þetta verra?“
    Ef foreldri virðist versna eftir að barn hefur sagt eitthvað, sýnt tilfinningar eða hegðað sér á einhvern hátt, getur barnið tengt það saman og haldið að það hafi „hrint þessu af stað“.
  • „Má ég hafa gaman?“
    Sum börn finna fyrir sektarkennd ef þeim líður vel á meðan foreldri þeirra er veikt. Þau gætu haldið að það sé ekki „leyfilegt“ að leika sér, hlæja eða njóta sín þegar aðstæður eru erfiðar heima.
  • „Hver sér um mig?“
    Í veikindatímabilum geta börn fundið fyrir óöryggi – þau vilja vita að einhver sjái um þau, hafi tíma, hlusti og hugsi um þau.
  • „Hvað gerist ef þú þarft að fara á sjúkrahús?“
    Ef foreldri þarf að leggjast inn á sjúkrahús eða upplifir mikla vanlíðan gætu börn haft áhyggjur af því hver muni sjá um þau, hvar þau verði á meðan og hvort þau fái að heimsækja foreldrið.
  • „Mun foreldri mitt deyja?“
    Ef veikindin eru alvarleg eða barn skynjar mikla vanlíðan getur þessi hræðsla komið upp, jafnvel þó ekkert hafi verið sagt sem bendir til þess. Mikilvægt er að grípa slíkar spurningar og taka þær alvarlega.
  • „Má ég tala við einhvern um þetta?“
    Börn vilja oft tala við einhvern en vita ekki hvort það sé leyfilegt. Þau gætu óttast að segja of mikið, særa foreldrið eða valda fjölskyldunni vandræðum.
  • „Má ég segja vinum mínum?“
    Sum börn velta því fyrir sér hvort þau megi segja vinum sínum frá því að foreldri þeirra sé veikt – og ef svo er, hvernig og hvað eigi að segja. Þau óttast fordóma eða misskilning.
  • „Af hverju hlustar enginn á mig?“
    Ef barnið hefur reynt að tjá sig en ekki verið tekið alvarlega – eða ef allt snýst um veikindin – gæti það upplifað sig ósýnilegt eða hunsað.
  • „Get ég smitast?“
    Yngri börn geta haft áhyggjur af því að veikindi foreldris séu smitandi. Þau tengja oft orðið „veikindi“ við sjúkdóma sem þau þekkja, eins og kvef og flensu, sem smitast á milli manna. Þess vegna er mikilvægt að útskýra fyrir þeim að geðsjúkdómar smitist ekki og enginn getur „fengið“ þá eins og sýkingu.
  • „Verð ég líka veik(ur/t)?“
    Börn óttast oft að þau muni þróa með sér sömu veikindi og foreldrið vegna erfða eða fjölskyldusögu. Mikilvægt er að segja þeim að erfðir ráða ekki einu um veikindi, heldur spila margir þættir saman, og því sé ekki sjálfgefið að þau verði líka veik. Gott er að ræða með þeim að það sé margt sem þau geti gert til að hlúa að eigin geðheilsu.
  • „Get ég gert eitthvað til að hjálpa?“
    Börn vilja oft leggja sitt af mörkum – og sum hver taka mikla ábyrgð á sig, t.d. með því að vera „of góð“, fela eigin líðan eða forðast að biðja um hjálp.
  • „Getur þú ekki bara verið venjuleg(ur/t)?“
    Slík hugsun getur endurspeglað þreytu eða vonleysi hjá barninu. Það þráir einfaldlega að allt sé „eðlilegt“ og að það þurfi ekki stöðugt að vera á varðbergi eða aðlaga sig að breyttum eða óútreiknanlegum aðstæðum.
  • „Verður þetta alltaf svona?“
    Börn velta því stundum fyrir sér hvort breytingarnar sem þau sjá hjá foreldri sínu séu varanlegar – hvort foreldrið verði alltaf þreytt, reitt, kvíðið eða á einhvern hátt „breytt“. Þau sakna oft þess foreldris sem þau muna eftir og skilja ekki hvað hafi orsakað breytinguna.
  • „Mun þetta lagast?“
    Stöðugleiki og öryggi skipta börn miklu máli. Þau vilja vita hvort þetta sé tímabundið eða varanlegt – og hvort það sé eitthvað sem þau eða aðrir geti gert til að hlutirnir verði betri.

No items found.

Tengt efni