Ungmenni 13-17 ára

Hvað gerist ef foreldri mitt fer á geðdeild?

Það getur gerst að foreldri þitt þurfi meiri hjálp en hægt er að veita heima

Þá getur foreldri þitt þurft að leggjast inn á geðdeild á sjúkrahúsi. Það er svipað og þegar fólk lendir í slysi og þarf að fara á sjúkrahús – nema hér er verið að veita huganum aðstoð.
Á geðdeild vinnur fagfólk – læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og annað starfsfólk – sem hjálpar fólki að ná jafnvægi og líða betur. Þar fær foreldri þitt tækifæri til að hvíla sig, fá rétta meðferð og læra leiðir til að takast á við veikindin.

Sumir vilja sjálfir leggjast inn á sjúkrahús og trúa að það hjálpi þeim að líða betur. En stundum gera veikindin það að verkum að fólk áttar sig ekki á því að það þurfi hjálp – og þá vill það oft ekki fara. Ef foreldri þitt neitar að leggjast inn á geðdeild en er mjög veikt, getur læknir ákveðið að það sé samt nauðsynlegt. Þetta kallast nauðungarvistun. Þetta er aðeins gert ef það er talið lífsnauðsynlegt fyrir öryggi og heilsu manneskjunnar.

No items found.

Það er eðlilegt að hafa áhyggjur

Þetta getur verið bæði ruglingslegt og erfitt fyrir þig. Kannski ertu með kvíða fyrir því hvað þetta þýðir eða hvernig næstu dagar verða. Kannski finnst þér óþægilegt að vita ekki hver er að hugsa um foreldri þitt. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur – en það er mikilvægt að muna að markmiðið er alltaf að hjálpa foreldri þínu að líða betur.

Hvað gerist ef ég heimsæki foreldri mitt?

Ef þú ferð að heimsækja foreldri þitt á sjúkrahúsið þarf að skipuleggja heimsóknina fyrir fram með starfsfólki deildarinnar. Fólkið sem sér um þig skipuleggur það oftast. Ef þú treystir þér til þess gætir þú hringt sjálf/ur/t á deildina til að skipuleggja heimsóknina. Börn hitta oftast foreldri sitt í fjölskylduherbergi fyrir utan deildina. Þú þarft ekki að koma með neitt með þér en ef þig langar til þess getur þú til dæmis tekið með þér bók eða nammi. Þegar þú ferð í fyrstu heimsóknina getur verið að foreldri þitt sé ekki eins og það var áður en það veiktist, það getur verið hluti af veikindunum eða út af lyfjum sem það er að taka.

Hvers vegna er foreldri mitt á sjúkrahúsi?

Fólk sem leggst inn á geðdeild þarf aðstoð og meðferð á sjúkrahúsi svo því líði betur. Geðsjúkdómar hafa áhrif á heilann - hvernig við hugsum, hvernig okkur líður og jafnvel hvernig við hegðum okkur. Rétt eins og líkamleg veikindi eru geðræn veikindi hluti af því að vera manneskja og þau geta komið fyrir hvern sem er.

Hvað verður foreldri mitt lengi á sjúkrahúsinu?

Veikindi fólks eru mjög mismunandi og það er því erfitt að segja til um hversu lengi það þarf að vera á sjúkrahúsi. Stundum er nóg að vera í örfáa daga en stundum getur það tekið vikur eða mánuði að byrja að líða betur. Þeir sem vinna á sjúkrahúsinu reyna alltaf að hjálpa fólki að komast heim eins fljótt og mögulegt er.

Hvernig hjálp fær foreldri mitt?

Læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, iðjuþjálfar, sálgæsluaðilar, félagsráðgjafar og aðrir sem vinna á geðdeildinni vinna saman að því að lækna fólk. Starfsfólkið reynir að skilja vandann og finna rétta leið til að hjálpa þeim sem eru veikir að líða betur. Foreldri þínu verður líklega boðið lyf sem á einnig að hjálpa því að líða betur.

Hvenær má ég hitta foreldri mitt?

Það fer eftir því hvernig því líður. Stundum líður fólki mjög illa og þá er best að bíða með að heimsækja það. Það er ekki vegna þess að foreldri þitt vilji ekki hitta þig, heldur vegna þess að læknar og hjúkrunarfræðingar vilja að því líði betur áður en þú kemur í heimsókn. Um leið og það er hægt færð þú að tala við það í síma ef þig langar til þess. Það er allt í lagi þó að þú viljir ekki heimsækja eða tala við foreldri þitt strax. Þetta er oftast mjög erfiður tími fyrir alla og líka fyrir þig.

Hvað gerist ef ég heimsæki foreldri mitt?

Ef þú ferð að heimsækja foreldri þitt á sjúkrahúsið þarf að skipuleggja heimsóknina fyrir fram með starfsfólki deildarinnar. Fólkið sem sér um þig skipuleggur það oftast. Ef þú treystir þér til þess gætir þú hringt sjálf/ur/t á deildina til að skipuleggja heimsóknina. Börn hitta oftast foreldri sitt í fjölskylduherbergi fyrir utan deildina. Þú þarft ekki að koma með neitt með þér en ef þig langar til þess getur þú til dæmis tekið með þér bók eða nammi. Þegar þú ferð í fyrstu heimsóknina getur verið að foreldri þitt sé ekki eins og það var áður en það veiktist, það getur verið hluti af veikindunum eða út af lyfjum sem það er að taka.

Hvað gerist eftir að foreldri mitt fer heim af sjúkrahúsinu?

Ef þú hefur flutt að heiman þegar foreldri þitt fór á sjúkrahús getur verið að þú getir ekki flutt strax heim aftur. Það getur tekið tíma að koma hlutunum í lag. Það getur líka verið að fólkið sem aðstoðar foreldri þitt sjái um að styðja þig í gegnum þennan tíma.

Ef þú býrð hjá hinu foreldri þínu eða ættingja en hittir foreldri þitt sem er veikt reglulega getur það líka verið öðruvísi eftir að það fer heim af sjúkrahúsinu. Kannski þarftu smá tíma til að venjast breytingunum eða að finna út hvernig þú hittir foreldrið og hvað hentar ykkur báðum. Það er eðlilegt að hafa spurningar um þetta og mikilvægt að þú fáir að tala við fullorðna sem útskýra og styðja þig.

Hvað á ég að gera ef ég hef áhyggjur?

Þú gætir verið með áhyggjur, liðið illa eða jafnvel fundið fyrir reiði meðan á þessu stendur. Svo getur verið að þú fáir jafnvel samviskubit þó að þú vitir að ekkert af því sem er að gerast sé þér að kenna. Það er mjög eðlilegt og það getur verið erfitt að vera ein/einn/eitt á svona tímum. Það getur hjálpað að tala við einhvern fullorðinn sem þú treystir um það hvernig þér líður.

Mundu að það getur tekið tíma að líða betur.

No items found.

Tengt efni