Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Börn
Ungmenni 13-17 ára
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Foreldrar
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Ein af þeim er deild sem heitir geðdeild en þangað fer fólk sem er veikt í huganum eða með geðsjúkdóm. Á geðdeild fær fólk hjálp til að líða betur, frá læknum og fleira fólki sem er búið að læra að hjálpa fólki með geðsjúkdóma.
Ef foreldri þitt fer á sjúkrahús er eðlilegt að það komi upp alls konar tilfinningar, þú hefur kannski áhyggjur eða ert hrædd/ur/tt. Foreldri þitt gæti farið þangað í nokkra daga eða lengur. Það fer eftir því hvernig því líður og hvað það þarf. Þetta getur gerst skyndilega og sumum börnum finnst það óþægilegt eða verða hrædd.
En það er gott að muna að foreldri þitt er að fá hjálp til að líða betur.
Það er eðlilegt að hafa alls konar spurningar og finna fyrir kvíða – en mundu að þú mátt alltaf spyrja spurninga og fá útskýringar.
Það er eðlilegt að hafa alls konar spurningar þegar foreldri fer á geðdeild. Hér fyrir neðan eru algengar spurningar sem mörg börn í þessari stöðu hugsa um.

Foreldri þitt er á sjúkrahúsi vegna þess að það er veikt. Á geðdeild fær fólk hjálp þegar því líður mjög illa í huganum eða er með geðsjúkdóm.
Það eru allir með geðheilsu, alveg eins og allir eru með líkamlega heilsu. Stundum getur geðheilsan veikst, rétt eins og líkaminn og þá er gott að fá aðstoð svo manni geti liðið betur aftur.
Þegar foreldri þitt leggst inn á sjúkrahús er ekki víst að þú megir heimsækja það strax. Það er ekki vegna þess að mamma þín eða pabbi þinn vilja ekki hitta þig heldur vegna þess að læknar og hjúkrunarfræðingar vilja að foreldri þínu líði betur áður en þú kemur í heimsókn. Ef þú vilt getur þú skrifað kort eða teiknað mynd með kveðjum og beðið einhvern fullorðinn um að fara með það til mömmu þinnar eða pabba. Þegar foreldri þínu fer að líða betur getið þið kannski talað saman í síma eða þú gætir farið í heimsókn. Það er allt í lagi þó að þú viljir ekki fara í heimsókn eða tala við mömmu þína eða pabba þinn í síma strax. Það getur tekið svolítinn tíma fyrir foreldri þitt að líða betur og þá er kannski best að bíða aðeins með heimsóknina.
Ef þú heimsækir foreldri þitt á sjúkrahúsið gæti verið að það sé aðeins öðruvísi en vanalega – kannski lítur það svolítið öðruvísi út, talar öðruvísi eða hefur ekki eins mikla orku. Þetta er eðlilegt þegar fólk er veikt og það þýðir ekki að foreldri þitt elski þig eitthvað minna. Þetta getur til dæmis gerst út af lyfjum sem læknirinn hefur gefið foreldri þínu en mundu að það er til að hjálpa því að líða betur og það getur tekið tíma.
Þegar foreldri þitt fer heim af sjúkrahúsinu getur verið að það þurfi að taka lyf og mun sennilega halda áfram að hitta lækni eða hjúkrunarfræðing. Ef þú varst ekki heima á meðan mamma þín eða pabbi þinn fór á sjúkrahús getur verið að þú þurfir að bíða með að fara aftur heim. Það er vegna þess að það tekur tíma fyrir foreldri þitt að líða betur svo það geti hugsað um sig og fjölskylduna ykkar. Það fólk sem aðstoðar foreldri þitt mun sjá um að skipuleggja hvernig þetta verður hjá ykkur.
Það er mjög eðlilegt að hafa áhyggjur eða skilja ekki alveg hvað er að gerast. Ef þú hefur áhyggjur, ert hrædd/ur/tt eða líður illa er gott að tala við einhvern fullorðinn sem þú treystir - til dæmis einhvern úr fjölskyldunni, kennara, félagsráðgjafa eða fullorðna fólkið sem er að hjálpa foreldri þínu. Það getur oftast hjálpað til. Það er líka mikilvægt að þú hugsir vel um þig og gerir skemmtilega hluti eins og að leika við vini.