Börn

Hvað er vanræksla?

Okkur getur stundum fundist eins og allt gangi vel hjá öðrum fjölskyldum og að þær séu alltaf glaðar en flestar fjölskyldur eiga erfiða daga

Stundum hafa foreldrar mjög mikið að gera og lítinn tíma fyrir fjölskylduna. Stundum líður foreldrum illa eða þeir eru veikir og eiga erfitt með að hugsa um börnin sín eins og venjulega. Hjá flestum fjölskyldum er þetta tímabundið en hjá sumum getur þessi erfiði tími varað lengi.

Vanræksla þýðir að foreldri nær ekki að passa nógu vel upp á að barnið þeirra sé öruggt – að hugsað sé vel um barnið og því líði vel.

No items found.

‍Það eru til fjórar tegundir af vanrækslu:

Líkamleg vanræksla:

Það er þegar foreldri nær ekki að passa nógu vel upp á að barnið þeirra sé öruggt og að því líði vel, það getur til dæmis verið þegar:

  • Foreldri gleymir oft að kaupa mat eða gefa barninu sínu að borða
  • Foreldri hjálpar barninu ekki að bursta tennur eða fara í sturtu
  • Foreldri fer ekki með barnið til læknis eða tannlæknis þegar það þarf á því að halda

Vanræksla á eftirliti:

Foreldrar bera ábyrgð á að fylgjast með barninu sínu og passa upp á að það sé öruggt. Vanræksla á eftirliti getur verið þegar:

  • Barn er skilið eftir eitt á kvöldin eða jafnvel á næturnar
  • Foreldri lætur barn vera í pössun hjá einhverjum sem það þekkir lítið eða treystir ekki

Námsleg vanræksla:

Börn eiga rétt á því að fá stuðning við nám og tómstundir. Námsleg vanræksla getur verið þegar:

  • Foreldri passar ekki upp á að barnið mæti í skólann eða á æfingar
  • Foreldri hjálpar ekki barninu með heimanám eða hvetur það ekki til að læra
  • Foreldri tekur ekki eftir eða styður ekki áhugamál barnsins

Tilfinningaleg vanræksla:

Það getur verið svolítið erfitt að átta sig á henni. Foreldrar eru auðvitað allir mismunandi og sumir tala mikið og aðrir minna, sumir knúsa mikið og aðrir minna og það er allt í lagi. Tilfinningaleg vanræksla getur til dæmis verið þegar:

  • Foreldri talar lítið við barnið sitt eða virðist ekki hafa áhuga á því
  • Foreldri sýnir barninu ekki hlýju, væntumþykju eða hrósar því ekki
  • Foreldri hunsar þegar barninu líður illa eða bregst ekki við því
  • Barn upplifir að það skipti ekki máli eða veit ekki hvort foreldri elski það

Hver eru áhrif vanrækslu?

Börnum getur farið að líða illa og verið leið, reið, hrædd eða kvíðin þegar foreldrar þeirra ná ekki að hugsa um þau. Stundum halda börn að vanrækslan sé þeim að kenna en það er aldrei börnum að kenna hvernig fullorðið fólk hagar sér.

Börn sem eru vanrækt geta til dæmis:

  • Upplifað litla trú á eigin getu og fundist þau ekki skipta máli
  • Forðast að vera heima og vilja frekar vera hjá vinum eða ættingjum
  • Tekið á sig of mikla ábyrgð á heimilinu, meira en þau eiga að þurfa að gera.

Það er gott að hjálpa til heima - en börn eiga ekki að bera ábyrgð á því að allt gangi upp á heimilinu og að allir séu öruggir. Það er hlutverk fullorðinna.

Að fá hjálp

Ef þér finnst eins og foreldri þitt eigi erfitt með að sjá um þig, þá er mikilvægt að tala við einhvern fullorðinn sem þú treystir. Það getur til dæmis verið:

  • Starfsmaður í skólanum, t.d. umsjónarkennari eða námsráðgjafi
  • Einhver í fjölskyldunni, t.d. frænka eða frændi eða amma eða afi
  • Foreldri vinar
  • Þjálfari

Mundu að það er aldrei börnum að kenna hvernig fullorðnir haga sér og enginn ætti að þurfa að halda svona hlutum leyndum. Stundum þurfa foreldrar aðstoð til að geta séð betur um börnin sín. Auðvitað væri best fyrir foreldra að biðja sjálfir um aðstoð en stundum þurfa börnin að hjálpa, með því að segja frá.

No items found.

Tengt efni