Ungmenni 13-17 ára

Hvað eru geðsjúkdómar?

Geðsjúkdómar eru sjúkdómar sem hafa áhrif á hugann, hugsanir og tilfinningar og geta breytt því hvernig manni líður og hvernig maður hegðar sér

Það eru til margar tegundir af geðsjúkdómum og fólk upplifir þá á mismunandi hátt. Sumt fólk verður mjög leitt, reitt, kvíðið, pirrað eða einangrar sig. Stundum á það líka erfitt með svefn, einbeitingu eða að tengjast öðrum.

Geðsjúkdómar sjást ekki endilega utan á fólki en þeir geta samt haft mikil áhrif – bæði á þann sem er veikur og fólkið í kring. Það er mikilvægt að muna að enginn velur að verða veikur og geðsjúkdómar eru ekki merki um veikleika. Með réttri aðstoð og stuðningi er oft hægt að líða betur og lifa góðu lífi.

Ef þú átt foreldri með geðsjúkdóm getur hjálpað að skilja betur hvernig veikindin eru. Þá getur verið auðveldara að átta sig á hvers vegna foreldri hegðar sér eða líður á ákveðinn hátt - og að muna að þetta er hluti af sjúkdómnum en ekki þér að kenna.

No items found.

Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um algenga geðsjúkdóma. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þetta er ekki eitthvað sem þú þarft að greina eða taka eftir hjá foreldri þínu – það er hlutverk læknis að finna út hvað er að og veita rétta aðstoð.

Algengir geðsjúkdómar

Hvað er þunglyndi?

Það er eðlilegt að líða stundum illa – það er hluti af því að vera manneskja. En ef það er í langan tíma og gerir daglegt líf erfitt getur verið um þunglyndi að ræða.

Algeng einkenni geta verið:

  • Að vera leiður eða niðurdreginn lengi
  • Að hafa ekki áhuga á hlutum sem áður voru skemmtilegir
  • Þreyta og orkuleysi
  • Svefnvandamál: sofa illa eða of mikið
  • Breytt matarlyst: borða minna eða meira en venjulega
  • Erfiðleikar með einbeitingu
  • Finna fyrir sektarkennd eða að vera einskis virði
  • Að einangra sig frá öðrum

Hver og einn upplifir þunglyndi á sinn hátt og það getur komið fram á mismunandi stigum og tímum í lífinu.

Ef foreldri þitt er með þunglyndi getur því liðið mjög illa og jafnvel átt erfitt með daglegt líf. Það er mikilvægt að muna að það er ekki þér að kenna – og það er hlutverk lækna og fagfólks að hjálpa.

Hvað veldur þunglyndi?

Það er sjaldan ein ástæða. Þunglyndi getur tengst:

  • erfðum
  • erfiðri reynslu eða áföllum
  • langvarandi streitu
  • líkamlegu ástandi
  • öðrum sjúkdómum

Þó að þunglyndi geti verið algengara í sumum fjölskyldum þýðir það ekki að þú veikist sjálfkrafa. Það er margt sem styrkir geðheilsuna þína.

Hvað get ég gert?

  • Mundu: það er ekki þitt hlutverk að „lækna“ foreldri þitt.
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir, t.d. vin, ættingja, þjálfara eða kennara.
  • Gerðu hluti sem gefa þér gleði og orku – eins og að hitta vini, hreyfa þig eða hlusta á tónlist.
  • Hugsaðu vel um þig – það hjálpar þér að takast á við erfiðar aðstæður.
Hvað er áráttu- og þráhyggjuröskun?

Áráttu- og þráhyggjuröskun, eða OCD, er röskun þar sem þrálátar hugsanir (kallaðar þráhugsanir) valda kvíða eða óöryggi. Til að reyna að líða betur grípur manneskjan oft til síendurtekinna hegðana (áráttu), eins og til dæmis að þvo sér ítrekað aftur um hendur eða athuga læsingar aftur og aftur. Þetta verður að vítahring sem erfitt er að losna úr.

Algeng einkenni:

  • Þráhugsanir sem koma aftur og aftur, oft óþægilegar eða ógnvekjandi.
  • Áráttuhegðun til að reyna að losna við þessar hugsanir, t.d. að þvo, telja, athuga eða hugsa ákveðin orð aftur og aftur.
  • Vítahringur myndast: hugsanir → kvíði/óöryggi → árátta → tímabundinn léttir → hugsanir koma aftur.
  • Þetta getur tekið mikinn tíma og orku og truflað daglegt líf.

OCD getur snúist um ýmislegt – ekki bara ótta við sýkla. Það getur verið óöryggi í samböndum, erfiðar spurningar um sjálfsmynd, óþægilegar hugsanir eða einfaldlega tilfinning um að „eitthvað sé ekki rétt“.

Ef foreldri þitt er með áráttu- og þráhyggjuröskun getur verið erfitt að skilja hegðunina en hún er hluti af veikindunum. Það er líka mikilvægt að vita að það er ekki þér að kenna – og að það er fagfólk sem á að sjá um að hjálpa foreldri þínu.

Hvað veldur áráttu- og þráhyggjuröskun?

Það er ekki til ein skýr ástæða. Oft er þetta blanda af mörgum þáttum, eins og erfðum, streitu eða erfiðri reynslu. Þó áráttu- og þráhyggjuröskun geti verið algengari í sumum fjölskyldum, þýðir það ekki að þú fáir það sjálfkrafa ef foreldri þitt er með það.

Hvað get ég gert?

  • Mundu: það er ekki þitt hlutverk að „lækna“ foreldri þitt.
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir, t.d. vin, ættingja, þjálfara eða kennara.
  • Gerðu hluti sem gefa þér gleði og orku – eins og að hitta vini, hreyfa þig eða hlusta á tónlist.
  • Hugsaðu vel um þig – það hjálpar þér að takast á við erfiðar aðstæður.
Hvað er kvíðaröskun?

Það er eðlilegt að finna stundum fyrir kvíða – það er hluti af því að vera manneskja. Kvíði getur jafnvel verið hjálplegur, t.d. fyrir próf eða keppni, því hann hjálpar okkur að einbeita okkur og standa okkur vel.

En ef kvíðinn verður mjög sterkur, kemur aftur og aftur eða stendur yfir lengi, getur hann farið að gera daglegt líf erfitt. Þá getur verið um kvíðaröskun að ræða.

Algeng einkenni geta verið:

  • Hraður hjartsláttur, sviti eða skjálfti
  • Magaverkir, ógleði eða svimi
  • Vöðvaspenna og þreyta
  • Svefnvandamál
  • Stöðugar áhyggjur sem erfitt er að losna við
  • Að ná ekki að slaka á
  • Pirringur eða skapstyggð
  • Einbeitingarerfiðleikar
  • Forðun á aðstæðum sem vekja kvíða

Sumir með kvíðaröskun geta fengið kvíðakast – þá kemur skyndilegur og mjög sterkur ótti með líkamlegum einkennum eins og hröðum hjartslætti, svima eða tilfinningu um að missa stjórn. Þetta er óþægilegt en ekki hættulegt.

Hver og einn upplifir kvíða á sinn hátt og hann getur komið fram á mismunandi stigum og tímum í lífinu.

Ef foreldri þitt er með kvíðaröskun getur það stundum hagað sér á hátt sem er erfitt að skilja en það er hluti af veikindunum. Mikilvægt er að muna að það er ekki þér að kenna – og að það er hlutverk lækna og fagfólks að veita foreldri þínu þá hjálp sem það þarf.

Hvað veldur kvíðaröskun?

Það er sjaldan ein skýr ástæða. Kvíði getur tengst:

  • erfðum
  • erfiðri reynslu eða áföllum
  • langvarandi streitu
  • líkamlegu ástandi
  • öðrum sjúkdómum

Þó að kvíðaröskun geti verið algengari í sumum fjölskyldum þýðir það ekki að þú verðir sjálfkrafa veik/ur/t. Það er margt sem þú getur gert til að styrkja geðheilsuna þína.

Hvað get ég gert?

  • Mundu: það er ekki þitt hlutverk að „lækna“ foreldri þitt.
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir, t.d. vin, ættingja, þjálfara eða kennara.
  • Gerðu hluti sem gefa þér gleði og orku – eins og að hitta vini, hreyfa þig eða hlusta á tónlist.
  • Hugsaðu vel um þig – það hjálpar þér að takast á við erfiðar aðstæður.
Hvað er geðhvörf?

Geðhvörf er geðsjúkdómur þar sem líðan og orka sveiflast mikið. Fólk getur upplifað tímabil geðhæðar (maníu) og þunglyndis (geðlægð). Á milli tímabila líður mörgum vel og lifa eðlilegu lífi.

Hvað er geðhæð (manía)?

Í geðhæð upplifir fólk mikla orku og kraft. Sumum líður mjög vel en aðrir verða pirraðir og órólegir. Fólk getur sofið lítið án þess að þreytast og farið úr einu í annað án þess að klára. Þetta getur haft áhrif á skóla, vinnu og samskipti.

Algeng einkenni geta verið:

  • Mjög gott skap eða mikil orka
  • Svefnþörf minnkar mikið
  • Hraðar hugsanir og mikið tal
  • Erfitt með einbeitingu
  • Mikil áætlunargerð og verkefni sem ekki klárast
  • Pirringur og óróleiki
  • Að taka áhættu, t.d. eyða miklu eða keyra hratt

Ef foreldri þitt er með geðhvörf getur verið ruglingslegt eða erfitt þegar skap og orka foreldris þíns breytist mikið. Það er mikilvægt að muna að hegðunin er hluti af veikindunum – og það er ekki þér að kenna.

Hvað er örlyndi (hypómanía)?

Örlyndi er vægara form geðhæðar. Fólk hefur meiri orku og kraft en getur samt sinnt daglegu lífi. Það getur samt valdið vandræðum fyrir viðkomandi og aðra.

Hvað er geðlægð (þunglyndislotur)?

Þunglyndislotur eru „lægðirnar“ í geðhvörfum. Þá finnur fólk oft fyrir:

  • Depurð og áhugaleysi
  • Breyttum svefni og matarlyst
  • Þreytu
  • Tilfinningu um að vera einskis virði
  • Erfiðleikum með einbeitingu
  • Erfiðum hugsunum

Tvær gerðir geðhvarfa:

  • Geðhvörf I: Að minnsta kosti eitt tímabil geðhæðar. Flestir fá líka þunglyndislotur.
  • Geðhvörf II: Hypómanía og þunglyndislotur. Þunglyndið er oft lengra og alvarlegra en í geðhvörfum I.

Hvað veldur geðhvörfum?

Það er ekki ein skýr ástæða en nokkrir þættir geta haft áhrif:

  • Erfðir og líffræðilegir þættir
  • Streita, áföll eða miklir lífsatburðir
  • Óreglulegur svefn
  • Vímuefnaneysla eða önnur heilsuvandamál

Þó að geðhvörf geti verið algengari í sumum fjölskyldum, þýðir það alls ekki að þú eigir sjálfkrafa eftir að veikjast. Það er margt sem styrkir geðheilsuna og hjálpar að takast á við erfiðar aðstæður.

Hvað get ég gert?

  • Mundu: það er ekki þitt hlutverk að „lækna“ foreldri þitt.
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir, t.d. vin, ættingja, þjálfara eða kennara.
  • Gerðu hluti sem gefa þér gleði og orku – eins og að hitta vini, hreyfa þig eða hlusta á tónlist.
  • Hugsaðu vel um þig – það hjálpar þér að takast á við erfiðar aðstæður.
Hvað er geðklofi?

Geðklofi hefur áhrif á hvernig fólk hugsar, skynjar og upplifir lífið. Fólk með geðklofa getur átt erfitt með að greina á milli raunverulegra hluta og þess sem heilinn lætur það halda.

Einkenni byrja oft í lok unglingsára eða snemma á fullorðinsárum. Þó að geðklofi sé flókinn sjúkdómur getur fólk lifað góðu lífi með réttri meðferð og stuðningi.

Einkenni geðklofa

Fólk með geðklofa getur upplifað:

  • Ofskynjanir – að heyra raddir eða sjá hluti sem aðrir taka ekki eftir
  • Ranghugmyndir – að trúa hlutum sem eru ekki sannir (t.d. að einhver sé að elta mann)
  • Óskipulagðar hugsanir – erfitt að halda þræði eða tjá sig skýrt
  • Breytilegt skap og hegðun – að draga sig í hlé frá öðrum, áhugaleysi eða minni orku

Þegar þessi einkenni verða mikil og trufla raunveruleikaskynið er talað um geðrof. Þá á manneskja erfitt með að greina hvað sé raunverulegt og hvað ekki. Geðrof birtist oft í formi ofskynjana eða ranghugmynda.

Til að greinast með geðklofa þurfa fleiri en eitt einkenni að vera til staðar og einkennin þurfa að vara í lengri tíma. Geðrof eitt og sér þýðir því ekki endilega að manneskja sé með geðklofa.

Ef foreldri þitt er með geðklofa gætir þú tekið eftir því að það upplifir hluti sem þú skilur ekki – eins og að heyra raddir eða trúa einhverju sem virðist ekki raunverulegt. Það getur verið ruglingslegt og jafnvel ógnvekjandi en það er mikilvægt að muna að þetta er hluti af veikindunum – og það er ekki þér að kenna.

Hvað veldur geðklofa?

Það er ekki ein skýr ástæða fyrir því en nokkrir þættir spila saman.

  • Erfðir og líffræðilegir þættir
  • Áföll eða mikil langvarandi streita
  • Ójafnvægi í boðefnum heilans
  • Vímuefnaneysla getur aukið hættuna eða gert einkenni verri

Þó að geðklofi geti verið algengari í sumum fjölskyldum þýðir það alls ekki að þú eigir sjálfkrafa eftir að veikjast. Það er margt sem þú getur gert til að styrkja þína geðheilsu.

Hvað get ég gert?

  • Mundu: það er ekki þitt hlutverk að „lækna“ foreldri þitt.
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir, t.d. vin, ættingja, þjálfara eða kennara.
  • Gerðu hluti sem gefa þér gleði og orku – eins og að hitta vini, hreyfa þig eða hlusta á tónlist.
  • Hugsaðu vel um þig – það hjálpar þér að takast á við erfiðar aðstæður.
Hvað er átröskun?

Átröskun er geðröskun sem hefur áhrif á hugsanir, tilfinningar og hegðun tengda mat og líkama. Hún getur valdið mikilli vanlíðan og haft áhrif á bæði geðheilsu og líkamlega heilsu.

Átröskun snýst ekki bara um mat heldur oft um að reyna að takast á við erfiðar tilfinningar, streitu eða lágt sjálfsmat. Allir geta veikst af átröskun – óháð aldri, kyni eða líkamsgerð.

Algengustu átraskanirnar:

  1. Lystarstol (anorexia): Einstaklingur borðar mjög lítið eða forðast ákveðinn mat. Oft fylgir mikill ótti við að þyngjast.
  2. Lotugræðgi (bulimia): Endurtekin átköst og síðan tilraunir til að losa sig við matinn, t.d. með uppköstum.
  3. Lotuofát (binge eating): Endurtekin átköst án þess að reyna að losa sig við matinn sem getur valdið mikilli vanlíðan.

Það eru líka til fleiri tegundir átraskana, eins og orthorexía, sem er þegar fólk hefur miklar áhyggjur af því að borða „hollt“ eða „hreint“, en þessar þrjár eru algengastar.

Einkenni

Fólk með átröskun getur upplifað alls konar einkenni, til dæmis:

  • Miklar áhyggjur af líkama eða þyngd
  • Breytingar á matarvenjum eða svefni
  • Einangrun frá vinum og fjölskyldu
  • Kvíða, þunglyndi eða streitu
  • Vanlíðan eða skömm tengda mat

Ef foreldri þitt er með átröskun gætir þú tekið eftir að það borðar lítið eða óreglulega, forðast ákveðinn mat, talar illa um líkama sinn eða hefur óvenjulegar hugmyndir tengdar mat. Það getur verið ruglingslegt og erfitt. Mikilvægt er að muna að þetta er hluti af veikindunum – og það er ekki þér að kenna.

Hvað veldur átröskun?

Það er ekki ein skýr ástæða en nokkrir þættir geta haft áhrif:

  • Erfðir og líffræðilegir þættir
  • Streita, áföll eða erfiðar aðstæður
  • Lág sjálfsmynd og vanlíðan
  • Samfélagslegur þrýstingur á útlit

Þó að erfðir geti aukið líkur á átröskun þýðir það alls ekki að þú eigir sjálfkrafa eftir að veikjast. Það er margt sem styrkir geðheilsuna og hjálpar manni að takast á við erfiðar aðstæður.

Hvað get ég gert?

  • Mundu: það er ekki þitt hlutverk að „lækna“ foreldri þitt.
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir, t.d. vin, ættingja, þjálfara eða kennara.
  • Gerðu hluti sem gefa þér gleði og orku – eins og að hitta vini, hreyfa þig eða hlusta á tónlist.
  • Hugsaðu vel um þig – það hjálpar þér að takast á við erfiðar aðstæður.

Hvað eru fíknisjúkdómar?

Fíknisjúkdómar hafa áhrif á heilann og geta breytt bæði líðan og hegðun. Þegar fólk er með fíknisjúkdóm missir það stjórn á notkun áfengis, vímuefna eða lyfja. Oft byrjar það sem leið til að slaka á eða líða betur en með tímanum breytist heilinn þannig að erfitt verður að hætta – jafnvel þótt manneskjan vilji það.

Einkenni fíknisjúkdóma

Fólk með fíknisjúkdóm upplifir oft:

  • Stjórnleysi – notar meira af vímuefninu eða lengur en ætlað var og á erfitt með að hætta
  • Sterka löngun í vímuefni
  • Að notkun vímuefna hefur áhrif á skóla, vinnu, fjölskyldu og vináttu
  • Að halda áfram þrátt fyrir neikvæðar afleiðingar á heilsu og líðan
  • Einangrun frá áhugamálum og félagslífi
  • Erfiðleika með að sjá vandann sjálft
  • Fráhvarfseinkenni (t.d. skjálfti, sviti, kvíði, ógleði) þegar hætt er að nota vímuefnið

Ef foreldri þitt er með fíknisjúkdóm hefur þú kannski tekið eftir því að það notar oft áfengi eða önnur vímuefni, hegðar sér öðruvísi þegar það notar þau eða á erfitt með að hætta þrátt fyrir neikvæðar afleiðingar. Það getur verið erfitt og ruglingslegt en það er mikilvægt að muna að þetta er hluti af veikindunum – og það er ekki þér að kenna.

Hvað veldur fíknisjúkdómum?

Það er ekki ein skýr ástæða, heldur samspil margra þátta:

  • Erfðir og líffræðilegir þættir
  • Geðheilsa (kvíði, þunglyndi o.fl.)
  • Umhverfi og félagsleg áhrif, t.d. áföll eða erfiðar aðstæður
  • Aldur þegar notkun vímuefna byrjar – hættan er meiri ef byrjað er ungt

Fíkn er ekki merki um veikleika eða skort á viljastyrk – þetta er sjúkdómur sem hefur áhrif á heilann.

Hvað get ég gert?

  • Mundu: það er ekki þitt hlutverk að „lækna“ foreldri þitt.
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir, t.d. vin, ættingja, þjálfara eða kennara.
  • Gerðu hluti sem gefa þér gleði og orku – eins og að hitta vini, hlusta á tónlist eða hreyfa þig.
  • Hugsaðu vel um þig – það styrkir þig til að takast á við erfiðar aðstæður.
Hvað eru persónuleikaraskanir?

Persónuleikaraskanir geta haft áhrif á hugsanir, tilfinningar og hegðun sem veldur oft erfiðleikum í daglegu lífi og samskiptum.

Þær geta gert daglegt líf erfiðara og fólk með persónuleikaraskanir á oft erfitt með að treysta öðrum eða halda stöðugleika í samböndum.

Einkenni persónuleikaraskana

Einkenni eru mismunandi eftir tegundum en fólk getur til dæmis upplifað:

  • Erfiðleika í samskiptum við annað fólk.
  • Erfiðleika með að treysta eða tengjast fólki.
  • Sjálfsálit sem sveiflast mikið – líða stundum vel með sjálfa/n/t sig en stundum mjög illa.
  • Mjög sterkar tilfinningasveiflur eða erfiðleikar með að stjórna tilfinningum.
  • Hræðsla við höfnun eða að vera skilin eftir ein.
  • Að sjá heiminn eða aðstæður öðruvísi en flestir aðrir.

Það eru til margar tegundir persónuleikaraskana. Þær eru ekki allar eins en eiga það sameiginlegt að hafa áhrif á tilfinningar, hugsanir og samskipti. Einkenni eru mismunandi eftir því hvaða tegund það er.

Ef foreldri þitt er með persónuleikaröskun gætir þú hafa tekið eftir því að það á stundum erfitt með að stjórna tilfinningum sínum eða vera í samskiptum við annað fólk. Það getur verið ruglingslegt og erfitt en það er mikilvægt að muna að þetta er hluti af veikindunum – og það er ekki þér að kenna.

Hvað veldur persónuleikaröskunum?

Það er ekki ein skýr ástæða fyrir því en nokkrir þættir geta haft áhrif:

  • Erfðir og líffræðilegir þættir
  • Erfið reynsla í æsku, t.d. áföll eða vanræksla
  • Langvarandi streita eða óstöðugt umhverfi
  • Samspil milli persónuleika, upplifana og félagslegra aðstæðna

Þó að persónuleikaraskanir geti verið algengari í sumum fjölskyldum þýðir það alls ekki að þú eigir sjálfkrafa eftir að veikjast – það er margt sem þú getur gert til að styrkja þína geðheilsu.

Hvað get ég gert?

  • Mundu: það er ekki þitt hlutverk að „lækna“ foreldri þitt.
  • Talaðu við einhvern sem þú treystir, t.d. vin, ættingja, þjálfara eða kennara.
  • Gerðu hluti sem gefa þér gleði og orku – eins og að hitta vini, hreyfa þig eða hlusta á tónlist.
  • Hugsaðu vel um þig – það hjálpar þér að takast á við erfiðar aðstæður.

Tengt efni