Ungmenni 13-17 ára

Hvernig get ég hjálpað?

Ef foreldri þitt er með geðsjúkdóm gæti þér stundum fundist eins og þú þurfir að gera eitthvað til að hjálpa

Kannski langar þig að láta foreldri þínu líða betur, gleðja það eða laga það sem er erfitt heima. Það er eðlilegt að hugsa svona, það sýnir að þér þykir vænt um foreldri þitt og að þú vilt gera eitthvað til að hjálpa því. En það er mikilvægt að muna að það er ekki þitt hlutverk að laga veikindin. Það er hlutverk fagfólks og annarra fullorðinna í kringum fjölskylduna. Þú átt ekki að bera ábyrgð á því hvernig foreldri þínu líður.

No items found.

Það er í lagi að hjálpa til heima – en það má aldrei gerast þannig að þú gleymir sjálfri/sjálfum/sjálfu þér. Þú átt rétt á að lifa lífi þínu, sinna þínum þörfum og fá hvíld.

Þú mátt líka hugsa um þig

Það getur gerst að ungmenni vilji hjálpa meira en þau ráða við og fórni miklum tíma og orku fyrir foreldri sitt. Þú gætir jafnvel tekið að þér ábyrgð sem venjulega ætti að vera í höndum fullorðinna. Þetta gerist oft af ást og umhyggju – og það er eðlilegt að vilja hjálpa.

En það er mikilvægt að muna að þú þarft líka tíma fyrir þig, vini þína, áhugamál og framtíð. Ef þú finnur að þú ert að bera of mikla ábyrgð eða þér líður eins og þú sért að sinna hlutverkum sem foreldrið ætti að sinna, þá er mikilvægt að leita stuðnings. Talaðu við einhvern sem þú treystir – kennara, ráðgjafa eða annan fullorðinn – svo þú fáir aðstoð.

Þú átt rétt á að vera unglingur, njóta lífsins og sinna þínum draumum – alveg eins og aðrir.

Þú getur samt gert hluti sem skipta máli – fyrir þig og fjölskylduna þína, til dæmis:

  • Að tala við einhvern sem þú treystir
    Það getur hjálpað þér og líka fólkinu í kringum þig. Það er eðlilegt að finna fyrir alls konar tilfinningum í kringum aðstæðurnar sem þú ert í.
  • Að gera hluti sem láta þér líða vel
    Gefðu þér tíma fyrir það sem hjálpar þér. Það getur verið að hlusta á tónlist, fara út að ganga, hreyfa þig, vera með vinum eða gera eitthvað skemmtilegt.
  • Stundum nægir að vera til staðar
    Þú þarft ekki að gera mikið til að vera til staðar fyrir foreldrið þitt. Að sitja hjá því, sýna hlýju eða segja eitthvað fallegt getur haft meiri áhrif en þú heldur.
  • Litlir hlutir geta hjálpað
    Það getur verið að hjálpa aðeins til með heimilisverk, elda einfaldan mat, setja þvott í vélina eða fara út með ruslið. Smáhlutir geta létt daginn fyrir fjölskylduna – en þeir eiga ekki að taka yfir líf þitt.

No items found.

Tengt efni