Foreldrar

Nánd og tengsl við barnið í veikindum

Það er mikilvægt að finna leiðir til að viðhalda nánd og tengslum við barnið þitt þegar þér líður ekki vel

Það þarf hvorki að gera eitthvað stórt né mikið til þess að barninu finnist það vera tengt þér. Það er þetta litla sem skiptir máli; eins og að faðmast, skilja eftir falleg skilaboð, sitja saman og horfa á sjónvarpið eða að horfa á barnið leika sér.

Þegar þér líður illa getur verið ósamræmi í því sem þú þarfnast (eins og t.d. að hvílast eða fá næði) og svo því sem barnið þitt þarfnast (eins og t.d. samskipti, nánd og athygli). Við þessar aðstæður getur barnið virst kröfuharðara, uppáþrengjandi eða óþekkara. Það getur orðið til þess að þú látir í ljós reiði, pirring eða hörku. Þú segir barninu kannski að koma sér í burtu, með orðum eða líkamstjáningu. Í kjölfar þess getur barnið upplifað höfnun og einmanaleika og þú þjáðst af samviskubiti.

No items found.

Eftirfarandi hugmyndir geta hjálpað þér að halda tengslum við barnið þegar veikindin herja á þig. Þessar hugmyndir koma frá foreldrum sem hafa glímt við geðræn veikindi:

„Reyndu að skapa samverustundir með barninu. Þú þarft ekki að skemmta því eða leika við það. Það nægir að vera með því, fylgjast með og bjóða því að tala við þig um hvað það sé að gera. Það er góð leið til að viðhalda tengingu.“

„Prófaðu að biðja barnið um að segja þér hvað það langi til að gera. Það gæti komið þér á óvart að stundum vilja börn bara eitthvað einfalt. Þau kunna líka að meta rólegheit.“

„Ef þú átt ungt barn og hefur ekki orku til að leika við það geturðu prófað að setjast hjá því og horfa á það leika sér. Þú getur tekið þátt í leiknum með því að lýsa því sem það er að gera og bjóða því að segja frá.“

„Ef þú treystir þér ekki til að fara út með barninu þínu geturðu sagt að þú hlakkir til að heyra hvernig var þegar barnið kemur aftur heim. Þú getur líka beðið það um að sýna þér eitthvað sem það fann úti eða skoðað myndir sem voru teknar.“

„Ef þú getur ekki verið til staðar fyrir barnið þitt, t.d. fyrir eða eftir skóla, getur verið mikils virði að skilja falleg skilaboð eftir einhvers staðar á heimilinu.“

„Þú getur prófað að biðja barnið þitt um að lesa sögu fyrir þig þegar þið eruð saman.“

„Burtséð frá góðu eða slæmu heilsufari skaltu reyna að sjá til þess að þið barnið verjið einhverjum tíma saman daglega.“

„Ef þér finnst þú ekki geta verið með barninu gætirðu hjálpað því að skilja ástæðu þess með því að segja: Mig langar að vera með þér en mér líður ekki vel núna og þarf að vera í næði og hvíla mig. Svo getum við verið saman.“

No items found.

Tengt efni