Þegar foreldri þitt glímir við geðsjúkdóm er auðvelt að gleyma eigin líðan og hafa meiri áhyggjur af því hvernig öðrum í fjölskyldunni líður
Þú gætir tekið á þig aukna ábyrgð og fundið fyrir streitu eða vanlíðan. En það er mjög mikilvægt að muna að þín líðan skiptir líka máli. Þú átt skilið að líða vel og eiga eins eðlilegt líf og hægt er, alveg eins og allir aðrir.
Hér eru nokkur atriði sem geta hjálpað þér að hugsa vel um sjálfa/n/t þig:
- Gefðu þér tíma fyrir það sem skiptir þig máli
Það er ekki eigingjarnt að sinna eigin áhugamálum, hitta vini eða gera það sem lætur þér líða vel. Það að hlæja, njóta og slaka á er ekki bara eðlilegt – það er nauðsynlegt. Finndu tíma fyrir hluti sem veita þér gleði og hjálpa þér að líða vel, hvort sem það er að hlusta á tónlist, lesa eða stunda íþróttir.
- Talaðu við einhvern sem þú treystir
Að eiga foreldri með geðsjúkdóm getur stundum verið einmanalegt - en þú þarft ekki að ganga í gegnum þetta ein/einn/eitt. Talaðu við einhvern sem þú treystir, eins og vin, kennara, þjálfara eða ættingja. Að deila því sem liggur þér á hjarta getur hjálpað til við að létta á áhyggjum og fá stuðning.
- Settu mörk
Það er gott að vilja hjálpa foreldri sínu en það er ekki þitt hlutverk að leysa vandann eða bera ábyrgð á að foreldri þínu líði betur. Þú átt rétt á að hafa þín eigin mörk og segja „nei“ þegar hlutirnir verða of erfiðir. Ef þú finnur fyrir pressu til að gera of mikið, reyndu að ræða það við einhvern sem getur hjálpað þér að finna lausn.
- Passaðu upp á líkamlega heilsu
Þegar þú hugsar vel um líkamann styrkir það líka geðheilsuna. Reyndu að sofa nóg, borða reglulega og velja hreyfingu sem þér líður vel með. Það skiptir ekki máli hvort þú stundar íþróttir eða bara finnur litlar leiðir til að hreyfa þig – allt hjálpar. Jafnvel einföld atriði eins og göngutúr, djúpöndun eða teygjur geta hjálpað þegar lífið er erfitt. Að drekka vatn og minnka koffín og orkudrykki getur líka haft góð áhrif. Mikilvægast er að hlusta á líkamann og gefa honum það sem hann þarf.
- Leitaðu hjálpar þegar þú þarft á henni að halda
Það er ekki alltaf auðvelt að tala um erfiða hluti en það er engin skömm að biðja um hjálp. Ef þér líður illa eða finnur fyrir kvíða eða vanlíðan er mikilvægt að tala við einhvern sem getur stutt þig. Að biðja um hjálp er ekki veikleiki – heldur merki um styrk og hugrekki. Það getur verið mikill léttir að fá að tala við einhvern sem hlustar og skilur. Ef það er erfitt að ræða við fjölskyldu þína getur þú prófað að tala við vin, kennara, ráðgjafa, þjálfara eða annan fullorðinn sem þú treystir.
Þú átt rétt á stuðningi, jafnvel þó þér finnist erfitt að útskýra hvernig þér líður eða hafir áhyggjur af því hvað aðrir hugsi.