Foreldrar

Að styðja við vinatengsl og áhugamál barnsins

Vinir, leikur og hlutverk utan heimilisins skipta máli

Þegar foreldri glímir við geðræn veikindi getur það haft áhrif á daglegt líf fjölskyldunnar – og það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvernig það hefur áhrif á barnið. Eitt af því mikilvægasta sem hægt er að gera til að styðja börn í þessari stöðu er að hvetja þau til að halda tengslum við vini sína og taka þátt í því sem þau hafa gaman af – hvort sem það eru íþróttir, leiklist, tónlist eða bara að hitta önnur börn.

Að halda tengslum við vini og taka þátt í því sem börnum þykir skemmtilegt getur verið mikilvægt mótvægi þegar heimilislífið verður flókið. Tómstundir og samvera með vinum styrkja börn, veita þeim hvíld frá álagi og hjálpa þeim að viðhalda tilfinningu fyrir öryggi og venjulegu lífi. Þar fá þau tækifæri til að vera þau sjálf, tilheyra samfélagi jafnaldra og efla sjálfstraust og félagsfærni.

No items found.

Vinir og áhugamál styrkja barnið

Stundum eiga börn sem búa við veikindi innan fjölskyldunnar það til að draga sig í hlé frá vinum og áhugamálum – ekki endilega af því þau hafa minni áhuga, heldur af því þau upplifa ábyrgð, samviskubit eða kvíða yfir að skilja veikt foreldri eftir. Sum börn taka að sér aukna ábyrgð inni á heimilinu, og hætta jafnvel í tómstundum til að vera meira heima, þó að það sé einmitt á þessum stundum sem þau þurfa mest á því að halda að fá að vera börn.

Sum börn forðast líka að tala um veikindin heima fyrir og vilja ekki endilega fá vini í heimsókn. Þau kunna að finna fyrir skömm eða vilja halda veikindunum leyndum af ótta við að verða misskilin, mæta fordómum eða að vinir hugsi öðruvísi um þau ef þeir vita af veikindunum.

Hvort sem ástæður þess að börn draga sig í hlé eru ábyrgð og kvíði eða skömm og ótti við fordóma, þá getur afleiðingin oft verið sú sama: þau einangrast, ekki aðeins félagslega heldur líka tilfinningalega. Þau eiga þá oft erfitt með að tjá það sem þau eru að upplifa og forðast að leita sér stuðnings, jafnvel þegar þau þurfa mest á honum að halda.

Þess vegna skiptir sérstaklega miklu máli að styðja við vinatengsl barna sem búa við veikindi í fjölskyldunni og hvetja þau til að halda áfram að taka þátt í félagslífi og því sem veitir þeim gleði og styrk.

Það geta komið dagar þar sem þú hefur ekki orku eða tök á að fylgja barninu þínu í öll áhugamál

Það er skiljanlegt – en þó getur stuðningurinn þinn skipt miklu máli, jafnvel þegar hann felst aðeins í því að hvetja barnið áfram, sýna áhuga eða hjálpa því að komast á æfingu eða viðburð. Þú getur líka leitað eftir aðstoð frá öðrum í kringum þig, eins og ættingjum eða vinum, sem geta stutt barnið í að halda tengslum við vini og sinna sínum áhugamálum.

Það er ekkert að því að biðja um hjálp – stuðningsnet barnsins getur skipt sköpum fyrir vellíðan þess og gefið því rými til að vera barn, þrátt fyrir að aðstæður heima séu krefjandi.

No items found.

Tengt efni