Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Börn
Ungmenni 13-17 ára
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Foreldrar
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Góður undirbúningur getur verið mikilvægur og hjálpað þér að öðlast aukið sjálfsöryggi í að útskýra veikindin fyrir barninu og svara þeim spurningum sem það kann að hafa. Mikilvægt er þó að muna að það er allt í lagi að hafa ekki svör við öllu. Ef þú veist ekki svarið við einhverju sem barnið spyr að getur þú sagst ætla að komast að því, eða þá að þið finnið svarið í sameiningu.
Reyndu að gera ekki of miklar kröfur á þig og barnið í fyrsta sinn sem þið ræðið málin. Það getur verið mikilvægt að fara rólega af stað og leyfa barninu að ráða för. Fyrsta samtalið er yfirleitt erfiðast.
Margir foreldrar sem hafa reynslu af því að ræða opinskátt um veikindin við barnið sitt lýsa því að hafa upplifað barnið þögult og til baka í fyrsta skiptið. Það er alveg eðlilegt og í raun algengara en ekki. Það getur tekið tíma fyrir barnið að treysta sér til að ræða um veikindin og sína upplifun. Flest börn þurfa tíma til að hugsa og melta upplýsingar og spurningarnar koma því oft ekki strax. Þessu er mikilvægt að sýna skilning og gæta þarf þess að þrýsta ekki á barnið. Þó svo að samræðurnar séu stuttar eru þær mikilvægar. Stutt spjall af og til getur orðið grunnur að skilningi þegar fram líða stundir.
Að ræða saman um veikindin er ákveðið þroska- og lærdómsferli sem þú og barnið gangið í gegnum. Það er hægt að líta á það sem svo að það sé eins og að þjálfa vöðva. Það krefst æfingar og með hverju samtalinu styrkist þið og það verður auðveldara að ræða saman. Eitt samtal er því yfirleitt ekki nóg. Það tekur tíma að öðlast sameiginlegan skilning. Eftir því sem barnið eldist breytast einnig spurningar þess og þörfin fyrir upplýsingar. Það er því mikilvægt að barnið upplifi að það geti borið upp spurningar og áhyggjuefni þegar það þarf á að halda.
Það fyrsta sem getur verið gott að velta fyrir sér er hvar og hvenær hentar ykkur best að ræða málin. Það er mikilvægt að tímasetningin sé valin með tilliti til þess að barnið sé öruggt, því líði vel og að þið verðið fyrir sem minnstu ónæði. Hjá sumum fjölskyldum gæti hentað að nota sögustund fyrir þetta samtal. Öðrum gæti hentað að ræða saman í bílnum eða við matarborðið.

Þegar þú íhugar hvernig þú getur hjálpað barninu þínu að skilja veikindin sem þú glímir við getur verið gagnlegt að líta á undirbúninginn eins og öryggisreglur í flugvél: Það er mikilvægt að setja súrefnisgrímuna fyrst á okkur sjálf áður en við setjum hana á aðra. Með öðrum orðum, er mikilvægt að þróa eigin skilning á því sem er að gerast hjá þér fyrst áður en þú útskýrir það fyrir barninu þínu. Með því að læra að skilja betur veikindin sem þú glímir við getur þú betur áttað þig á hvernig þau hafa áhrif á tilfinningar þínar, hegðun og skapferli. Líðan þín, hegðun og lundarfar hefur áhrif á hvernig þú og aðrir upplifa þig. Þetta hefur líka áhrif á samband þitt við aðra, þar á meðal barnið þitt.
Í fyrsta lagi skiptir máli að þú varpir ljósi á einkennin sem þú finnur fyrir og svo hegðunina sem barnið þitt sér og heyrir. Það gæti komið sér vel að ræða við einhvern sem þér finnst gott að tala við um áhrif veikindanna á þig sem foreldri. Það gæti verið heilbrigðisstarfsmaður, annar aðili sem veitir þér stuðning eða einhver sem hefur svipaða reynslu og þú.
Ef þú ert að reyna að skilja eigin veikindi eða þarft að ræða um reynslu þína skaltu finna fullorðna manneskju sem þú treystir. Ekki leita eftir aðstoð barnsins til að skilja veikindi þín.
Áður en þú ræðir við barnið þitt getur reynst hjálplegt að setja sig í spor þess og reyna að virða stöðuna fyrir sér frá sjónarhóli þess. Hvaða einkennum gæti barnið hafa tekið eftir og hvaða ályktanir ætli það hafi dregið í kjölfarið?
Það getur verið gott að velta þessu fyrir sér með manneskju sem þú treystir, svo sem maka/sambýlisaðila, ættingja, góðum vini eða fagaðila sem veitir þér stuðning. Það er tilvalið að gera þetta með einhverjum sem þekkir þig vel þar sem viðkomandi gæti hafa séð einkennin frá öðru sjónarhorni.
Gott er að hafa í huga að börn á ólíkum aldri munu taka eftir og bregðast við hegðun þinni og tilfinningum á mismunandi hátt
Það gæti verið hjálplegt að hafa eftirfarandi spurningar í huga þegar þú hugsar út í einkenni og hegðun:
Til að geta sett sig í spor barnsins er mikilvægt að hafa aldur þess og þroska í huga. Þá má betur átta sig á hverju það hefur mögulega tekið eftir og hve mikið það skilur.
Á eftirfarandi síðum finnur þú hugmyndir og leiðbeiningar um hvernig hægt er að nálgast barnið þitt á mismunandi aldri og þroskastigi – hvort sem það er með samtali, einföldum útskýringum eða öðrum leiðum til að veita öryggi og stuðning:
Samtalið við barnið mitt á
leikskólaaldri

Það getur reynst hjálplegt fyrir barnið ef þú talar um veikindin á sem eðlilegastan máta. Þú getur gert það með því að benda á einhvern annan sem barnið þekkir og glímir við geðræn veikindi. Geðsjúkdómar eru ekki óalgengir en 1 af hverjum 4 glímir við slík veikindi einhvern tímann á lífsleiðinni. Margir kjósa bara að segja ekki frá því.
Þú gætir líka sagt barninu að rétt eins og fólk getur fótbrotnað eða orðið líkamlega veikt getur hugurinn veikst. Þú gætir nefnt dæmi um líkamleg veikindi sem barnið þekkir eins og hálsbólgu eða kvef og útskýrt svo að það séu líkamlegir sjúkdómar. Þar næst gætirðu útskýrt að hugurinn geti líka fengið sjúkdóma sem nefnast geðsjúkdómar. Þegar hugurinn veikist verði breytingar á hugsunum okkar, tilfinningum og hegðun. Mikilvægt er að nefna í því samhengi að geðsjúkdómar eru ekki smitandi líkt og sum líkamleg veikindi sem barnið kann að þekkja. Algengt er að börn óttist það að smitast af veikindunum, þá sérstaklega ung börn.
Þú gætir einnig spurt barnið hvort það hafi tekið eftir einhverju óvenjulegu í fari þínu og svo útskýrt að það hafi verið vegna veikindanna. Barnið þarf að vita að veikindin geti haft bein áhrif á það og aðra í fjölskyldunni.
Tilgangurinn með því að ræða við barnið er að hjálpa því að skilja eigin líðan sem og líðan þína og það sem er að gerast í fjölskyldunni. Að eiga samræður um veikindin er góð leið til að skapa nánd og öryggi í tengslum við barnið og á sama tíma styrkja fjölskylduna í að takast á við erfiðleikatímabil. Tilgangurinn er ekki að segja barninu frá öllum þínum vandamálum og því sem þú hefur gengið í gegnum. Mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki hlutverk barna að veita foreldrum sínum stuðning þegar þeir glíma við veikindi. Það er ávallt hlutverk einhvers fullorðins.
Hér eru nokkrar hugmyndir um hvernig best er að hefja samræðurnar en barnið kann að vera meðvitaðra en þig grunar...
Þú gætir t.d. hafið samræðurnar með því að segja: „Þú hefur kannski haft áhyggjur af... eða hefur tekið eftir...“ (með tilliti til einkenna og hegðunar)
„Ég vil að þú vitir að ég er með geðsjúkdóm. Það er ekki þér að kenna og ekkert sem þú hefur gert rangt.“
Þú gætir síðan boðið barninu að ræða um það sem það hefur tekið eftir eða hefur áhyggjur af: „Hverju hefurðu tekið eftir sem veldur þér áhyggjum?“
Þarnæst gætirðu spurt um þau einkenni sem barnið hefur tekið eftir og hvort það skilji allt sem þeim viðkemur. Svörin verða mismunandi eftir aldri og þroska.
Þú gætir einnig spurt barnið um líðan þess. Gott getur verið að nefna dæmi eins og sorg, reiði eða ótta til að auðvelda barninu að setja orð á tilfinningar sínar.
Í framhaldi af því má segja: „Ég er til staðar fyrir þig og þú getur talað við mig ef þú vilt spyrja einhvers eða hefur áhyggjur. Ef þér finnst þú ekki geta talað við mig geturðu prófað að tala við...“