Foreldrar

Samtalið við barnið mitt á leikskólaaldri

Hvernig skilja börn á leikskólaaldri veikindi foreldra?

Börn á leikskólaaldri nota svipbrigði og raddblæ foreldranna í bland við aukinn skilning á töluðu máli til að skilja það sem þau upplifa. Þau byrja að tengja orð við tilfinningar og skilja þegar sagt er að mamma eða pabbi sé veik/veikur/veikt eða að mamma/pabbi ætli að fá lækni til að hjálpa sér.

Börn á þessum aldri hafa frjótt ímyndunarafl og takmarkaðan skilning á orsök og afleiðingu. Þau geta trúað því að hugsanir þeirra hafi áhrif á raunveruleikann og því haldið að eitthvað sem þau hugsuðu eða gerðu hafi valdið veikindunum. Þetta getur leitt til sektarkenndar eða kvíða, jafnvel þótt enginn hafi sagt þeim að þau beri ábyrgð.

No items found.

Börn skilja veikindi gjarnan út frá eigin reynslu

Þau geta því trúað að einfaldar lausnir, eins og plástur, tafla eða smyrsl, nægi til að lækna foreldrið.

Skilningur þeirra á tíma er einnig takmarkaður og því búast þau oft við að veikindi líði fljótt hjá. Ef veikindin vara í langan tíma verða þau óörugg og bregðast gjarnan við með því að sýna aftur hegðun sem þau höfðu áður vaxið upp úr, svo sem að væta sig, nota snuð, sjúga putta eða tala eins og yngra barn.

Börn á þessum aldri eru einnig viðkvæm fyrir aðskilnaði og eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar með orðum

Þess í stað koma tilfinningarnar oft fram í hegðun þeirra. Þegar þau finna fyrir óvissu og breytingum geta þau orðið grátgjörn, ósamvinnuþýð, öskrað, eyðilagt hluti eða sýnt mikla þörf fyrir nánd og nærveru foreldris. Slík hegðun getur verið leið barnsins til að tjá vanlíðan eða áhyggjur. Mikilvægt er að bregðast við slíkum viðbrögðum með ró og skilningi.

Á þessum aldri njóta börn þess að hlusta á sögur sem byggjast á þeim sjálfum og tengjast þeim og umhverfi þeirra. Til að þau finni til öryggis og geti rætt það sem þau skynja eða upplifa getur verið gagnlegt að koma upplýsingum í söguform eða lesa fyrir barnið bók um fjölskyldu þar sem foreldri á í erfiðleikum. Endurtekning hjálpar þeim einnig að skilja og muna það sem þeim er sagt. Það getur hjálpað að nota einföld orð og ítreka reglulega: „Mamma er veik en hún er að fá hjálp“, eða „Það er ekki þér að kenna að pabbi sé veikur.“

Að halda í daglega rútínu eins og máltíðir, háttatíma og samverustundir getur veitt barninu tilfinningu fyrir öryggi og stöðugleika. Jafnvel lítil samverustund, eins og að hlusta á tónlist, skoða bók eða leika saman, getur skipt miklu máli.

Mikilvægt er að barnið heyri skýrt, aftur og aftur, að veikindin séu ekki því að kenna og að það sé verið að gera eitthvað til að foreldrinu líði betur.

No items found.

Tengt efni