Ungmenni 13-17 ára

Hvaða áhrif hafa veikindin á mig?

Þegar foreldri glímir við geðsjúkdóm hefur það oft áhrif á alla fjölskylduna – og líka á þig

Hversu mikil áhrifin eru fer eftir aðstæðum en þó að þú sért ekki sá sem er veikur getur þú samt fundið fyrir þreytu, streitu, áhyggjum eða meiri ábyrgð en aðrir á þínum aldri. Veikindin geta haft áhrif á líðan þína, sjálfsmynd, tengsl, áhugamál, nám og hvernig þú horfir á framtíðina.

Það er eðlilegt að upplifa mikið álag og flóknar tilfinningar í slíkum aðstæðum – það þýðir ekki að það sé eitthvað að þér, heldur að þú sért að reyna að takast á við krefjandi aðstæður.

No items found.

Veikindin geta haft áhrif á margt í þínu lífi:

Áhrif á nám

Skólinn á að vera staður þar sem þú lærir, hittir vini og þroskast. En þegar foreldri þitt er veikt getur skólinn orðið krefjandi. Þú gætir átt erfitt með að einbeita þér vegna áhyggja af því hvernig foreldri þínu líður eða hvað sé að gerast heima. Hugsanirnar geta orðið svo yfirþyrmandi að erfitt er að fylgjast með í tímum eða klára verkefni sem áður voru auðveld.

Það er líka algengt að finna fyrir minni áhuga á náminu. Þú gætir fundið fyrir þreytu eða orkuleysi, sem veldur því að það er erfiðara fyrir þig að leggja þig fram. Kannski finnst þér skólinn ekki skipta eins miklu máli þegar þú ert að takast á við erfiðar aðstæður heima fyrir. Þetta getur valdið því að þú takir minni þátt eða efist um eigin getu.

Skólinn getur líka verið stuðningur

Það getur verið erfitt að tala við kennara eða vini. Þú gætir óttast að þau skilji þig ekki eða að þau líti á þig öðruvísi, og það getur ýtt undir einangrun og streitu. En skólinn getur líka verið staður þar sem þú færð stuðning – frá kennara, námsráðgjafa eða vini sem þú treystir. Að opna sig og fá hjálp getur létt á pressunni og gert skóladaginn auðveldari.

Mundu að líðan þín skiptir máli. Það getur verið erfitt að einbeita sér þegar manni líður illa eða hefur engan til að tala við. Að taka lítil skref, eins og að biðja um hjálp með verkefni eða taka pásu, getur gert gæfumun. Það er alltaf í lagi að biðja um aðstoð. Skólinn getur verið krefjandi en hann getur líka veitt styrk og jafnvel hvíld frá áhyggjum.

Áhrif á sambönd við vini

Sambönd við vini geta stundum breyst þegar foreldri veikist. Þú gætir fundið fyrir skömm eða óöryggi yfir því að tala um hvað er að gerast heima. Kannski óttast þú að vinir þínir skilji þig ekki eða að þeir dæmi þig. Þá gæti verið freistandi að draga sig til hlés. Það getur líka verið erfitt að tengjast vinum sem virðast ekki skilja hvernig þér líður eða hvað þú ert að ganga í gegnum. Þessi tilfinning getur leitt til einangrunar, haft áhrif á félagslífið og gert það flóknara að njóta þess að vera með öðrum eins og áður.

Áhrif á áhugamál og tómstundir

Áhugamál og tómstundir sem venjulega gleðja þig og láta þér líða vel gætu hætt að skipta jafn miklu máli. Kannski finnur þú ekki tíma eða orku til að sinna því sem þú hefur gaman af eða finnst erfitt að leyfa þér að njóta hlutanna þegar þú ert með miklar áhyggjur. En þó það sé skiljanlegt þá er mikilvægt að halda í það sem veitir þér gleði og jafnvægi. Að hitta vini, hreyfa sig, hlusta á tónlist eða gera eitthvað skemmtilegt getur gefið þér hvíld frá áhyggjum.
Það er í lagi að setja sjálfa/n/t sig í forgang. Þú þarft ekki að gera allt í einu – lítil skref, eins og að hitta vin í stutta stund eða gera eitt sem gleður þig, geta skipt miklu máli.

Áhrif á sjálfsmynd

Þegar foreldri þitt glímir við geðsjúkdóm getur það haft mikil áhrif á sjálfsmynd þína. Sjálfsmynd er hvernig þú sérð og líður með sjálfa/sjálfan/sjálft þig og hvaða gildi og styrkleika þú telur þig hafa. Hún mótast af reynslu þinni, umhverfi og því sem gerist í lífi þínu. Það sem gerist heima getur haft áhrif á þetta og þinn stað í heiminum, sem getur verið bæði ruglingslegt og krefjandi.

Þú gætir fundið fyrir því að vera „öðruvísi“ en jafnaldrar þínir, sérstaklega ef þér finnst erfitt að deila aðstæðum þínum eða ef heimilisaðstæður þínar eru ólíkar því sem þú sérð hjá öðrum. Þetta getur stundum valdið einmanaleika eða tilfinningu um að þú tilheyrir ekki eins og aðrir.

Umhverfi sem er ófyrirsjáanlegt og erfitt getur haft áhrif á þig. Þú gætir efast um eigin getu eða fundist þú ekki standa þig nógu vel, jafnvel þó þú sért að takast á við aðstæður sem eru erfiðari en margir jafnaldrar þínir þurfa að glíma við. Þessi tilfinning getur verið erfið en það er mikilvægt að minna sig á að þú ert að gera þitt besta í flóknum aðstæðum. Þú gætir líka upplifað tilfinningu um að þurfa að vera „fullorðnari“ eða þroskaðri en jafnaldrar þínir.

Kannski hefur þú tekið á þig meiri ábyrgð heima fyrir eða fundið fyrir því að þú þurfir að vera sterk/ur/t fyrir fjölskylduna þína. Þetta getur verið bæði styrkjandi og krefjandi. Þó að það sýni fram á þroska og umhyggjusemi frá þér, þá er líka mikilvægt að muna að þú ert enn ung/ur/t og átt skilið að fá að vera unglingur, með öllu sem því fylgir.

Mundu að sjálfsmyndin þín er ekki föst – hún mótast og þróast með þér. Það sem þú ert að upplifa núna skilgreinir þig ekki að fullu. Þú ert sterk/ur/t og getur byggt upp sjálfstraust og sjálfsmynd sem endurspeglar þinn styrk, hæfileika og það sem skiptir þig máli. Ef þú átt erfitt með að takast á við þessar tilfinningar, þá getur hjálpað að tala við einhvern sem þú treystir. 

Áhrif á líkamlega heilsu

Þegar einhver sem þér þykir vænt um er veikur getur það haft áhrif á líkama þinn líka – jafnvel þó að þú sért ekki að glíma við veikindi. Langvarandi álag og áhyggjur geta valdið þreytu, svefntruflunum, höfuðverk, verkjum í maga eða öðrum líkamlegum einkennum. Þú gætir átt erfitt með að borða, sofa eða hvíla þig, sérstaklega ef þér finnst þú alltaf þurfa að vera á varðbergi eða aðstoða aðra.

Þetta eru algeng viðbrögð við erfiðum aðstæðum og segja ekki að eitthvað sé að þér – heldur að líkaminn sé að reyna að takast á við streitu.

Það sem hjálpar er að hlusta á líkamann, passa að hvíla sig vel og tala við einhvern ef þér líður illa. Það er mikilvægt að þú fáir að hlúa að þinni líðan – líka líkamlega.

Áhrif á samskipti innan fjölskyldunnar

Þegar foreldri veikist geta sambönd við aðra í fjölskyldunni breyst mikið. Stundum fær einhver, til dæmis eldra systkini, aukna ábyrgð eða þarf að vera „sá sterki“ heima fyrir. Hlutverkaskiptingin getur orðið ójöfn og valdið togstreitu, pirringi eða misskilningi.

Þú gætir líka upplifað að aðrir í fjölskyldunni skilji ekki hvernig þér líður – eða að þið séuð öll ósammála. Það getur leitt til fjarlægðar eða rifrilda, jafnvel þó öllum þyki vænt hver um annan.

Það er líka algengt að finna fyrir báðum tilfinningum í einu – að vilja styðja fjölskylduna en upplifa líka reiði og pirring. Það er mjög eðlilegt og það er erfitt fyrir alla í fjölskyldunni þegar veikindi koma upp. En það skiptir máli að þú fáir líka rými fyrir þínar tilfinningar og fáir stuðning – stundum getur hjálpað að tala við einhvern sem er ekki innan fjölskyldunnar um það sem þú ert að upplifa.

Áhrif á samskipti við aðra fullorðna

Ef foreldri þitt glímir við geðsjúkdóm gætir þú fundið fyrir fjarlægð eða átt erfitt með að treysta öðrum fullorðnum – jafnvel þeim sem vilja hjálpa. Kannski hefur þú upplifað að fullorðnir hafi ekki tekið eftir því hvernig þér leið, ekki hlustað á það sem þú sagðir eða ekki hjálpað þér þegar þú þurftir á því að halda.

Slíkar upplifanir geta valdið því að þér finnist erfitt að treysta – til dæmis kennurum, ráðgjöfum eða vinum fjölskyldunnar. Þú gætir átt erfitt með að opna þig eða sýna hvernig þér líður, jafnvel gagnvart þeim sem þú annars vilt treysta.

Það er mikilvægt að vita að þetta sé algengt og eðlilegt. En það er líka gott að muna að það eru til fullorðnir sem hlusta, skilja og vilja hjálpa – og með tímanum getur þú smám saman fundið fyrir trausti aftur.

Tengt efni