Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Börn
Ungmenni 13-17 ára
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Foreldrar
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Sum þeirra eru notuð af læknum og fagfólki á meðan önnur lýsa upplifun og aðstæðum sem geta fylgt því að eiga foreldri með geðsjúkdóm. Það getur verið hjálplegt að skilja þessi orð betur, því þá áttu auðveldara með að skilja hvað er að gerast og útskýra aðstæður þínar fyrir öðrum.
Fagaðili er manneskja sem hefur sérþekkingu og menntun á ákveðnu sviði, eins og til dæmis læknir, sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur eða félagsráðgjafi. Fagaðilar veita stuðning, ráðgjöf og meðferð til þeirra sem þurfa aðstoð, til dæmis vegna geðrænna veikinda eða líkamlegra veikinda.
Innlögn þýðir að læknir hefur ákveðið að manneskja þurfi að dvelja á sjúkrahúsi í einhvern tíma til að fá hjálp við veikindum sínum. Þegar manneskja er lögð inn vegna veikinda er það til að fá stuðning og meðferð frá fagfólki. Það getur verið nauðsynlegt ef hún er mjög veik og þarf tíma til að jafna sig. Sumir dvelja stutt á sjúkrahúsi en aðrir lengur, allt eftir því hvað hentar best fyrir bata þeirra.
Nauðungarvistun er þegar manneskja er lögð inn á geðdeild án þess að hún samþykki það sjálf. Þetta gerist aðeins í mjög sérstökum tilfellum, þegar talið er að manneskja sé í alvarlegri hættu, annaðhvort vegna veikinda sinna eða vegna þess að hún gæti skaðað sjálfa sig eða aðra. Læknar og sérfræðingar þurfa að meta aðstæður og ákveða hvort nauðungarvistun sé nauðsynleg. Hún er aðeins tímabundin og tilgangurinn er að tryggja öryggi og veita viðeigandi meðferð þar til manneskjan er talin geta tekið eigin ákvarðanir um heilbrigði sitt. Þetta getur verið erfitt fyrir fjölskyldu og vini að skilja en markmiðið er alltaf að hjálpa einstaklingnum að líða betur.
Endurhæfing er ferli sem hjálpar fólki að ná bata og byggja upp styrk eftir veikindi, þar á meðal geðsjúkdóma. Hún miðar að því að bæta líðan, auka færni og styðja viðkomandi við að taka aftur þátt í daglegu lífi. Endurhæfing getur falið í sér ýmis úrræði, eins og sálfræðimeðferð, lyfjameðferð, hópastarf, fræðslu og stuðning við að komast aftur í skóla eða vinnu. Markmiðið er að hjálpa einstaklingum að finna jafnvægi og lifa innihaldsríku lífi þrátt fyrir veikindin. Ferlið er mismunandi eftir einstaklingum og tekur mislangan tíma en með réttum stuðningi er hægt að ná góðum árangri.
Á sjúkrahúsum eru margar mismunandi deildir sem sinna fólki með ólíkar tegundir af veikindum, eins og krabbameinsdeild, lyflækningadeild og barnadeild. Ein af þessum deildum er geðdeild, sem sérhæfir sig í meðferð og stuðningi við fólk sem glímir við geðræn veikindi.
Á geðdeild starfa fagaðilar sem hafa sérhæft sig í að aðstoða fólk sem glímir við geðræn veikindi, eins og geðlæknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og félagsráðgjafar. Þau vinna saman að því að hjálpa einstaklingum að líða betur eða finna leiðir til að lifa með veikindum sínum. Fólk getur dvalið á geðdeild í stuttan eða langan tíma, allt eftir því hvað það þarf. Sum leggjast inn sjálfviljug þegar þeim líður illa og þurfa aukinn stuðning en í sumum tilfellum getur fólk verið vistað á deild gegn eigin vilja ef það er talið í alvarlegri hættu. Á geðdeild fær fólk aðstoð við að líða betur í öruggu umhverfi, það lærir nýjar aðferðir til að takast á við veikindin og lyf ef það þarf.
Einkenni geta verið bæði líkamleg, eins og höfuðverkur eða verkir í líkama, og tilfinningaleg, eins og kvíði eða depurð. Einkenni geta haft áhrif á hugsanir, líðan og hegðun og eru oft merki um að eitthvað sé í ójafnvægi í líkamanum eða huganum.
Greining er þegar læknir eða aðrir fagaðilar meta hvaða veikindi manneskja gæti verið að glíma við. Þegar kemur að geðsjúkdómum byggist greiningin oft á samtölum við einstaklinginn sjálfan, fjölskyldu hans og stundum aðra sem þekkja hann vel. Til að greina geðsjúkdóm skoða fagaðilar hvaða einkenni eru til staðar, hversu lengi þau hafa verið til staðar og hvernig þau hafa áhrif á daglegt líf. Greiningin hjálpar til við að finna rétta meðferð og stuðning sem getur bætt líðan og lífsgæði einstaklinga. Það er mikilvægt að muna að greining er ekki það sama og að vera „stimplaður“. Hún er leið til að skilja betur hvað er að gerast og hvernig er best að fá hjálp. Með réttri greiningu geta einstaklingar og fjölskyldur þeirra unnið að bata og lifað góðu lífi.
Lyfjameðferð er þegar einstaklingur tekur lyf til að meðhöndla sjúkdóm eða draga úr einkennum hans. Lyf geta verið í mismunandi formi, eins og töflur, hylki, vökvar, sprautur eða plástrar. Sum lyf eru tekin daglega á sama tíma en önnur eru aðeins notuð þegar þörf er á því. Fólk með geðsjúkdóma getur fengið lyf til að hjálpa þeim að stjórna einkennum veikindanna. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum læknis um hvernig á að taka lyfin til að fá sem bestu virkni og fá sem minnst af aukaverkunum. Ef aukaverkanir koma fram er gott að ræða við lækni, því stundum þarf að breyta skammtinum eða skipta um lyf. Lyfjameðferð er oftast hluti af stærri meðferðaráætlun sem getur líka innihaldið samtalsmeðferð, stuðning frá fjölskyldu og breytingar á lífsstíl. Það er ekki alltaf nauðsynlegt fyrir alla með geðsjúkdóma að taka lyf en fyrir suma getur það verið mikilvægt til að líða betur.
Forðalyf eru lyf sem virka lengur í líkamanum en hefðbundin lyf og þarf því að taka sjaldnar. Þau eru oft gefin með sprautu í vöðva og losnar lyfið smám saman yfir lengri tíma. Forðalyf eru stundum notuð fyrir fólk með geðsjúkdóma, sérstaklega ef erfitt er að muna eftir að taka lyf daglega eða ef lyfjainntaka hefur verið óregluleg. Þau geta hjálpað til við að viðhalda stöðugri virkni lyfsins og minnka líkur á því að einkenni versni.
Héraðslæknir starfar á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þegar kemur að geðsjúkdómum þá getur hann haft það hlutverk að koma heim til manneskju og meta hvort hún þurfi að leggjast inn á geðdeild, jafnvel þótt hún vilji það ekki.
Niðurtröppun er þegar lyfjaskammtur er minnkaður smám saman yfir ákveðinn tíma í stað þess að hætta skyndilega. Þetta er gert til að draga úr fráhvarfseinkennum og öðrum óæskilegum áhrifum sem geta komið fram. Þetta er líka gert til að tryggja að einkennin sem verið er að meðhöndla komi ekki aftur. Niðurtröppun er sérstaklega mikilvæg þegar um er að ræða lyf sem hafa áhrif á taugakerfið, eins og geðlyf eða verkjalyf. Hún fer fram undir leiðsögn læknis sem ákveður hversu hratt lyfið er minnkað og fylgist með hvernig líkaminn bregst við. Það er mikilvægt að fylgja fyrirmælum læknis við niðurtröppun og hætta ekki á eigin spýtur.
Fráhvarfseinkenni eru líkamleg og hugræn einkenni sem geta komið fram þegar einstaklingur hættir skyndilega að taka ávanabindandi lyf eða vímuefni sem líkaminn hefur vanist. Þessi einkenni eru mismunandi eftir því hvaða efni það er og hversu lengi það hefur verið notað.
Algeng fráhvarfseinkenni eru meðal annars:
Fráhvarfseinkenni geta verið óþægileg og stundum hættuleg, svo mikilvægt er að leita til læknis ef einstaklingur þarf að hætta á ávanabindandi lyfi eða vímuefni. Oft er mælt með niðurtröppun til að draga úr fráhvarfseinkennum og gera breytinguna auðveldari.
Aukaverkanir eru áhrif af lyfjum, önnur en þau sem er verið að leitast eftir með lyfjameðferð. Þær eru mismunandi eftir lyfjum og því hvernig líkaminn bregst við þeim. Sumir finna fyrir engum aukaverkunum en hjá öðrum geta þær verið óþægilegar eða haft áhrif á daglegt líf. Oftast ganga þær yfir eftir fyrstu dagana.
Algengar aukaverkanir geta verið þreyta, ógleði, svimi, höfuðverkur, aukin matarlyst og svefntruflanir.
Sum lyf geta einnig haft langtímaaukaverkanir en oft lagast einkennin þegar líkaminn venst lyfinu. Mikilvægt er að ræða við lækni ef aukaverkanir eru mjög óþægilegar eða hafa mikil áhrif á líðan og daglegt líf. Í sumum tilfellum er hægt að breyta skammti eða skipta yfir í annað lyf með færri aukaverkanir.
Aðstandandi er manneskja sem er skyld eða nátengd einhverjum sem glímir við veikindi, hvort sem það eru líkamleg veikindi eða geðsjúkdómur. Aðstandendur geta verið fjölskyldumeðlimir eins og börn, foreldrar, systkini eða makar en líka nánir vinir sem veita stuðning. Ef foreldri þitt er með geðsjúkdóm ertu aðstandandi þess. Það þýðir ekki að þú berir ábyrgð á veikindum þess en þú gætir upplifað að þau hafi áhrif á líf þitt og daglegt samband við foreldri þitt.