Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Börn
Ungmenni 13-17 ára
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Foreldrar
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Á sama tíma eru þau að móta sjálfsmynd sína og geta verið viðkvæm fyrir því að upplifa sig öðruvísi en jafnaldrar. Þau eru oft sjálfstæð í hugsun en þurfa engu að síður stuðning, öryggi og staðfestingu frá foreldrum sínum – sérstaklega þegar eitthvað bjátar á heima fyrir.
Mörg ungmenni bera með sér áhyggjur af veikindum foreldris síns og hvernig þau hafa áhrif á fjölskyldulífið og tengslin við foreldra, systkini og vini. Þau kunna að vilja fá að vita hvernig greiningin fór fram, hvaða meðferð sé í boði og hvort foreldrinu muni batna. Sum spyrja líka um eigin geðheilsu og hvort þau eigi það á hættu að verða líka veik.
Ungmenni eru oft meðvituð um ábyrgð innan fjölskyldunnar og sum upplifa að þau þurfi að „halda öllu saman“, sérstaklega ef foreldrið er óvinnufært eða tilfinningalega fjarverandi. Mikilvægt er að ítreka að veikindin séu ekki þeim að kenna og þau beri ekki ábyrgð á því að laga aðstæður eða sjá um aðra. Slíkt getur létt þeim lífið og dregið úr kvíða.
Jafnframt hafa þau oft áhyggjur af því hvernig veikindin hafi áhrif á samband þeirra við foreldrið. Sum velta fyrir sér hvort aukið sjálfstæði þeirra stangist á við þörf foreldrisins fyrir nærveru eða aðstoð. Önnur spyrja sig hvernig þau geti útskýrt veikindi foreldrisins fyrir öðrum án þess að segja of mikið eða særa foreldrið. Þau eru gjarnan meðvituð um fordóma og vilja oft vernda bæði sig og foreldrana fyrir stimplun.
Ungmenni kunna að virðast lokuð eða forðast samtal í fyrstu, en það þýðir ekki að þau hafi ekki þörf fyrir upplýsingar, svör og skilning á því sem er að gerast. Þau vilja gjarnan ræða hlutina smátt og smátt, á eigin forsendum, eða velja að ræða frekar við aðra trausta fullorðna. Því er gott að bjóða þeim samtal án þess að þrýsta á þau, og sýna þeim virðingu með því að vera hreinskilin, hlusta og gefa þeim rými til að spyrja og velta hlutunum fyrir sér.
Bestu samtölin eiga sér oft stað hlið við hlið – í bílnum, í göngutúr eða í eldhúsinu við matargerð eða uppvask. Slík samtöl eru yfirleitt afslöppuð og ekki ógnandi, og skapa þannig kjöraðstæður til að tala saman af alvöru. Hlið við hlið samtöl eru sérstaklega gagnleg þegar ræða þarf viðkvæm eða erfið málefni. Ungmenni geta upplifað þrýsting í samtölum sem eru auglitis til auglitis. Með því að ræða saman hlið við hlið, jafnvel á meðan þið gerið eitthvað annað, eru þau mun líklegri til að opna sig um það sem á þeim hvílir. Þau upplifa einnig meiri stjórn á því hvenær samtalinu lýkur, og samtölin verða þannig eðlilegri og meiri hluti af daglegri samveru.
Með því að útskýra veikindin, einkennin, meðferðina og þann stuðning sem er í boði, geturðu hjálpað ungmenninu þínu að skilja stöðuna betur, dregið úr áhyggjum þess og styrkt samband ykkar.