Fjölskyldu­smiðjur

Okkar heimur býður upp á fjölskyldusmiðjur fyrir fjölskyldur þar sem foreldri eða forsjáraðili glímir við geðræna veikindi. Þær eru haldnar einu sinni í mánuði í 2,5 klukkustund í Reykjavík og eru fjölskyldum að kostnaðarlausu.

Sækja um

Hvað eru fjölskyldu­smiðjur?

Fjölskyldusmiðjurnar eru skemmtilegar hópsmiðjur fyrir börn og ungmenni á aldrinum 5-18 ára ásamt foreldrum eða forsjáraðilum þar sem foreldri eða forsjáraðili glímir við geðræn veikindi. Hist er á öruggum stað þar sem fjölskyldur geta komið saman, rætt og fræðst um veikindin á fordómalausan hátt.

Hvernig styðja fjölskyldusmiðjurnar við fjölskyldur?

  1. Þær hjálpa börnum og ungmennum að skilja betur geðræna veikindi. Í smiðjunum geta þau deilt sameiginlegum áhyggjum og spurt spurninga í öruggu umhverfi.
  2. Þær hjálpa foreldrum að takast á við áskoranir sem geta fylgt því að vera foreldri og glíma við geðræn veikindi.
  3. Þær skapa öruggt rými fyrir fjölskyldur til að ræða um vandamál og lausnir.
  4. Þær gefa fjölskyldum tækifæri á að hitta aðrar fjölskyldur í svipuðum aðstæðum.

Hvers vegna er hjálplegt að mæta í fjölskyldusmiðjurnar?

Skapar tækifæri fyrir fjölskyldur til að:

Eiga góðar stundir saman og ræða ýmislegt sem getur fylgt því að vera í fjölskyldu þar sem foreldri eða forsjáraðili glímir við geðræn veikindi.

Kynnast nýju fólki sem deilir sameiginlegri þekkingu og reynslu.

Fá gagnlegar upplýsingar um geðræn veikindi og tækifæri til að spyrja spurninga.

Ræða staðalímyndir og ótta tengdum veikindunum.

Okkar heimur starfar eftir hugmyndafræði Our Time charity, góðgerðasamtaka í Bretlandi.

KidsTime-fjölskyldusmiðjurnar hafa verið haldnar víða í Bretlandi síðan árið 2000. Þar hafa fjölskyldur notið þess að hittast, fræðast og deila reynslu, og reynslan sýnir að þátttakendur hafa verið mjög ánægðir með samveruna.

Hvernig fara fjölskyldusmiðjurnar fram?

  • Í upphafi er fræðsla og umræða fyrir fjölskyldurnar saman.
  • Hópurinn skiptist síðan í tvennt þar sem foreldrar fara í umræðuhóp og börn fara í leiksmiðju. Þar er leiklist notuð sem uppbyggilegt tól til að efla sjálfstraust, tengingu og tjáningu barnanna í gegnum sköpun og leiki.
  • Veitingar eru á staðnum – pizza og snarl fyrir alla!

Hefur þú áhuga á að taka þátt?

Smelltu á hnappinn hér að neðan til að fylla út umsókn. Umsækjandi getur til dæmis verið foreldri, ættingi eða einhver annar aðili sem er í lífi barnsins.

Frekari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri, Sigríður Gísladóttir: sigridur@okkarheimur.is

Sækja um