Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Börn
Ungmenni 13-17 ára
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Foreldrar
Okkar heimur góðgerðarsamtök
Kt.: 490522-1900
Þegar börn heyra dæmisögur eða myndlíkingar verður auðveldara fyrir þau að skilja það sem annars gæti virst flókið eða óskiljanlegt. Með því að tengja nýjar hugmyndir við eitthvað sem þau þekkja úr eigin lífi fá þau skýrari mynd og finna meira öryggi. Þetta á sérstaklega við um yngri börn, sem oft eiga erfitt með að skilja óhlutbundnar hugmyndir og þurfa einfaldar útskýringar. Með því að nota myndlíkingar eða dæmisögur getum við hjálpað börnum að skilja geðsjúkdóma á þeirra eigin forsendum, skapað öryggi og opnað á samtöl um tilfinningar og aðstæður í fjölskyldunni.
Allir eru með heila og hver og einn heili er einstakur og sérstakur. Heilinn í mannslíkamanum samanstendur af mörgum mismunandi hlutum sem gegna ólíkum hlutverkum. Þessir ólíku hlutar þurfa að vinna saman til að við getum borðað, sofið, talað, gengið, fundið til og gert margt fleira.
Heilinn er afar flókið líffæri – svo flókið að vísindamenn eru enn að reyna að skilja hvernig hann virkar og hvað hægt er að gera þegar hann hættir að starfa eins og hann á að gera. Þegar það gerist getur það haft áhrif á manneskjuna og hvernig hún hegðar sér – hvernig hún talar, hugsar, hvernig henni líður og hvað hún gerir. Það getur verið frekar ruglingslegt og ógnvekjandi, bæði fyrir viðkomandi og líka fjölskyldu og vini.
Ein ástæða þess að það reynist okkur flókið að skilja heilann er að við getum ekki séð inn í hann. Það væri miklu auðveldara ef við gætum það! Eins og þegar við opnum húddið á bíl getum við séð vélina. Alveg eins og heilinn eru bílvélar nokkuð flóknar. Þær innihalda alls kyns hluti sem snúast, fara upp og niður, þurfa vatn og olíu til að halda þeim í gangi og margt fleira. Ef einn hluti hættir að virka eðlilega byrjar bíllinn að „haga sér“ öðruvísi. Hann gæti skolfið, ekki farið í gang, gefið frá sér reyk eða ný og óþekkt hljóð. Þetta getur gerst fyrirvaralaust og valdið miklum óþægindum fyrir þá sem keyra og ferðast um í bílnum. Til að laga vandamálið þarf bíllinn að fara til sérfræðings eða bifvélavirkja.
Á svipaðan hátt og bílvél getur bilað getur heilinn stundum hætt að virka eins og hann á að gera. Þá þarf hann hjálp – ekki frá bifvélavirkja, heldur frá lækni (geðlækni), sálfræðingi eða félagsráðgjafa sem getur veitt stuðning og leiðbeiningar. Stuðningurinn getur falið í sér lyf (töflur, mixtúrur eða sprautur) eða hvíld í einhvern tíma. Þú gætir tekið eftir þessu ef foreldri þitt hegðar sér öðruvísi en venjulega. Foreldri þitt gæti verið óvenju reitt eða sorgmætt, legið mikið í rúminu og ekki treyst sér til að gera það sem það gerir vanalega. Það gæti líka sagt eða gert hluti sem virðast skrítnir fyrir þig, en það er samt enn foreldri þitt og elskar þig.
Eins og bíll þarf að fara á verkstæði til að fá viðgerð, þá gæti foreldri þitt þurft að fara til læknis eða leggjast inn á sjúkrahús í einhvern tíma til að fá hjálp til að líða betur. Á sjúkrahúsinu vinna sérfræðingar sem hafa fengið sérstaka þjálfun til að vita hvernig best er að hjálpa foreldri þínu.
Bílar þurfa reglulegt viðhald til að koma í veg fyrir bilanir. Fólk þarf líka að hugsa vel um sig, sem getur falið í sér að taka lyf, fá næga hvíld og pásur eða tala við aðra um líðan sína. Stundum getur tekið tíma að finna rétt lyf, sem getur verið pirrandi, en með tímanum fer flestum að líða betur.
Stundum skín sól og er hlýtt, en stundum er skýjað, stormur eða þoka. Rétt eins og við getum ekki stjórnað veðrinu, getum við ekki alltaf stjórnað hugsunum okkar og hvernig okkur líður. En eins og veðrið breytist, breytast tilfinningar og hugsanir líka.
Byrjaðu á að spyrja barnið:
„Hefurðu einhvern tímann upplifað dag þar sem veðrið breyttist skyndilega? Kannski var sólskin um morguninn en svo byrjaði að rigna seinna um daginn?“
Útskýrðu að rétt eins og veðrið breytist geta tilfinningar og hugsanir fólks breyst líka. Sumir dagar eru glaðir og fullir af orku, eins og bjartur sólardagur. Aðrir dagar geta verið daprir, þreytandi eða yfirþyrmandi, eins og stormur eða skýjað veður.
Sólríkur dagur → Gleði, spenna, orka, von, friðsæld
Hálfskýjaður dagur → Líður ágætlega, en er smá þreyttur eða óviss
Rigningardagur → Depurð, orkuleysi, sorg
Stormur → Reiði, pirringur, stress eða mikið álag
Þoka → Óöryggi, kvíði, óvissa, vonleysi
Þessi líking hjálpar börnum að skilja að tilfinningar eru eðlilegar og geta verið mismunandi frá degi til dags.
Flestir eiga blöndu af sólardögum, skýjuðum dögum og rigningardögum. Það er eðlilegt. En þegar einhver glímir við geðsjúkdóm getur það verið eins og að vera fastur í einu veðri í langan tíma, þar sem stormurinn gengur ekki yfir eða skýin vilja ekki hverfa.
Rétt eins og veðrið breytist, breytast tilfinningar okkar líka. Jafnvel þótt það sé stormur í dag getur sólin komið aftur á morgun. Þegar veðrið er slæmt hjálpar okkur að nota regnhlíf, hlý föt eða vera inni þar til það lagast.
Það sama á við um fólk sem glímir við geðsjúkdóma – stundum þarf fólk hjálp til að komast í gegnum erfiða daga. Stuðningur frá fjölskyldu, vinum, læknum, sálfræðingum eða lyfjum getur hjálpað fólki að komast í gegnum storminn, þar til veðrið lagast aftur.
Ef barnið þitt er hrifið af ofurhetjum getur þessi líking hjálpað því að skilja geðsjúkdóma á einfaldan og myndrænan hátt.
„Ímyndaðu þér að Köngulóarmaðurinn vakni einn daginn og geti ekki skotið vefina sína. Hann reynir aftur og aftur, en ekkert gerist – eða kannski koma þeir út í flækju. Hvað ef Leiftur (The Flash) væri skyndilega svo þreyttur að hann gæti ekki hlaupið hratt lengur? Eða ef Hulk vantaði allan sinn styrk og gæti ekki lyft neinu þrátt fyrir að reyna?“
Ofurhetjurnar væru enn þá þær sömu – hetjurnar sem við þekkjum og elskum – en eitthvað væri að trufla krafta þeirra. Það gæti verið bæði pirrandi og ógnvekjandi fyrir þær. Þær reyndu og reyndu að nota kraftana sína en það væri eins og eitthvað ósýnilegt væri að halda þeim aftur.
Eins og ofurhetjur upplifa stundum að kraftarnir þeirra virka ekki eins og þeir eiga að gera, þá upplifir fólk sem glímir við geðsjúkdóma stundum svipað.
Ofurhetjur ráða oft ekki einar við þær áskoranirnar sem þær mæta. Þær þurfa hjálp frá:
Það sama á við um fólk sem glímir við geðsjúkdóma! Það þarf oft stuðning frá:
Þetta þýðir ekki að þau séu minna „öflug“ eða „sterk“ – þau þurfa bara réttu aðstoðina til að komast aftur á rétta braut og endurheimta kraftana sína.