10 óskir frá barni sem er aðstandandi, til heilbrigðisstarfsfólks
- Horfðu á mig og láttu mig finna að þú vitir hvað ég heiti
Mér þætti líka vænt um að þú segðir mér hvað þú heitir. Mig langar að vita að þig langi til að kynnast mér eins og ég er. - Brostu til mín
Kannski brosi ég ekki til baka af því að ég er hrædd/ur/tt eða sorgmædd/ur/tt. Brostu samt til mín. Þegar þú brosir til mín sýnir það að þú viðurkennir mig og þá finnst mér ég tilheyra. - Spurðu mig hvort mig vanti eitthvað
Til dæmis hvort ég sé svöng/svangur/svangt eða þyrst/þyrstur. Þá átta ég mig á því að þú vilt mér vel og þig langi að hjálpa mér. - Horfðu í augun á mér
Ef þú horfir í augun á mér á meðan við tölum saman þá veit ég að við náum saman. Ef þú horfir í augun á mér sýnirðu að þú skilur af hverju ég skammast mín eða er hrædd/ur/tt. Með augnsambandinu sýnirðu mér að það er óhætt að tala við þig og ég get treyst þér. Ef ég er lítil beygðu þig niður til mín. Þá verð ég örugg/ur/tt. - Sýndu að þig langi að sjá heiminn frá mínu sjónarhorni
Ekki halda að þú vitir allt um mig og mitt líf. Kannski hefurðu hitt börn sem minna á mig eða þú hefur átt erfiða æsku. En ég er einstök/einstakur/einstakt og þú ert þú. Ekki leggja mér orð í munn. Hlustaðu á mig. - Spurðu mig opinna spurninga sem ég skil og get svarað með eigin orðum. Ég á við spurningar sem þú veist ekki endilega svörin við. Spurningar sem byrja á „hvað“, eða „hvernig“, til dæmis: Hvernig er að koma í heimsókn á spítalann á hverjum degi? Hvað finnst þér um að pabbi þinn sé hér? Hvernig líður þér í dag? Hvað finnst þér um að hitta mömmu þína aftur? Þegar þú spyrð mig hvað mér finnst og hvernig mér líður finn ég að þér stendur ekki á sama um fólk og að þú vilt mér og mínum allt það besta.
- Leggðu frá þér möppurnar, símann og lyklana þegar þú talar við mig
Þá verð ég sterkari, því við erum jöfn. Farðu frá skrifborðinu þínu og sestu við hliðina á mér. Þá líður mér ekki eins og það sé gjá á milli okkar. - Segðu mér að það sé allt í lagi að gráta og að það sé allt í lagi að vera bæði sorgmædd/ur/tt og hrædd/ur/tt. Þá átta ég mig á því að þú viðurkennir tilfinningar mínar og sorg.
- Gefðu mér leyfi til að vera barn
Segðu mér að það sé allt í lagi að fíflast og hlæja, þó svo að við séum á spítala. Þá veit ég að þú skilur að ég er barn og að þú gefur mér leyfi til að vera það. - Vertu þú sjálf/ur/t eins og þú ert
Það þýðir að þú þurfir kannski að leggja fagmennskuna til hliðar. Þegar þú ert í alvöru þú sjálf, þá hef ég leyfi til að vera ég sjálf líka.
Texti: Barnsbeste
Þýðing: Geðþjónusta Landspítalans